137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

uppbygging á Þingvöllum.

[15:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka svör hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst reyndar mjög mikilvægt að við gefum strax út þau skilaboð að við hyggjumst nota þennan reit til uppbyggingar. Ég fagna því líka að hér skuli eiga að hafa samráð við heimamenn. Ég hef verið hluti af sveitarstjórnarstiginu á þessu svæði og við höfum saknað þess mjög að ekki hafi verið haft meira samráð við heimamenn, sveitarstjórnina. Í því ljósi langar mig að biðja hæstv. forsætisráðherra og þá Þingvallanefnd sem kosin verður að horfa aðeins í víðari áttir og til að mynda á þjóðgarðinn hjá Skotum, Loch Lomond, sem þeir opnuðu árið 2000. Þar er gríðarlega stórt svæði með um 18.000 íbúum og þar fær fólk bæði að lifa og starfa og byggja upp starfsemi. Stjórninni á því svæði er háttað þannig að heimamenn eru langstærsti aðilinn og koma þar beint að, en ekki einhver alþingismannakosin nefnd sem er út af fyrir sig ágætisaðferð. (Forseti hringir.) Ég hvet til þess að skoðaðar verði aðrar og uppbyggilegri aðferðir við samráð við heimamenn en gert hefur verið hingað til.