137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra vegna Icesave-samkomulagsins. Eftir einhverja daga munum við ræða það mál í þingsal og eitt af því sem haldið hefur verið fram í opinberri umræðu er að lyktir þess máls muni hafa mikil áhrif á áframhaldandi samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Jafnvel er látið að því liggja að það mundi vera erfitt að fá lán frá þeim sjóði ef Íslendingar samþykkja ekki Icesave-samkomulagið.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra fyrst hvort hún hafi gert gangskör að því að kanna þetta, hvort hæstv. ráðherra hafi spurst fyrir um það hjá kollegum sínum hvort þetta geti átt við rök að styðjast. Ef svo er, hvort hæstv. forsætisráðherra hafi þá beitt sér sérstaklega til þess að vinda ofan af þeirri ósvinnu sem í því væri fólgin ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði sjálfan sig að einhvers konar innheimtustofnun fyrir Breta og Hollendinga.

Jafnframt vil ég spyrja að því, og það er þessu tengt, hvort fram hafi farið einhverjar viðræður á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og starfsmanna hans annars vegar og Seðlabankans hins vegar um þann samning sem nú liggur fyrir og hvort hæstv. forsætisráðherra sé tilbúin til að beita sér fyrir því, hafi slíkar samræður farið fram, að minnisblöð og fundargerðir slíkra fundi verði þá birt okkur þingmönnum áður en við komum til fundar til að ræða þetta mál.

Það er mikilvægt að við fáum öll gögn í þessu máli. Það hefur verið mjög alvarlegur misbrestur á því. Það er nauðsynlegt til þess að við getum tekið endanlega og upplýsta ákvörðun í þessu máli að við skiljum hvort það sé virkilega svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi uppi hótanir, beinar eða óbeinar, um að það hafi áhrif á hvort þeir láni okkur ef við skrifum ekki upp á. Og jafnframt hvort farið hafi fram samræður, svo ég ítreki það, á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Íslands hvað þetta mál varðar.