137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Að því er varðar það sem hv. þingmaður spyr um, hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gert einhverjar kröfur eða tengingar á milli Icesave-samninganna og þeirrar endurskoðunar sem nú fer fram á því samkomulagi sem við höfum gert við AGS hafa þeir ekki verið með neinar hótanir uppi í þessu sambandi eða gert einhverjar kröfur um að við gengjum frá Icesave-samningunum fyrst. Að vísu hefur það komið upp í umræðum og viðræðum sem ég átti við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr í sumar. Þeir hafa rætt það mál og sagt á þá leið að það mundi alla vega ekki greiða fyrir málum — ég man ekki hvernig það var orðað, en að það væri betra ef þetta mál væri leyst en ef það væri óleyst.

Varðandi það hvort farið hafi fram viðræður milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans um þetta mál er það nú svo að þegar fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma hingað eiga þeir í miklum viðræðum við Seðlabankann og ég geri ráð fyrir því að þetta mál hafi borið á góma þar eins og mörg önnur stórmál. Icesave-samningurinn er náttúrlega stórmál þannig að ég geri ráð fyrir því að það hafi verið rætt.

Varðandi það að öll gögn komi fram í þessu máli hef ég verið talsmaður þess að öll gögn sem mögulegt er séu gerð opinber og það sé eins gegnsætt ferli í öllu þessu máli og hægt. er. Ef það eru einhver gögn sem ekki hafa komið fram enn þá sem ég get beitt mér fyrir að verði upplýst mun ég auðvitað gera það.