137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

150. mál
[15:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og formaður hv. viðskiptanefndar Álfheiður Ingadóttir fór hér yfir málið. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við klárum þetta mál hratt og vel en verð þó að segja af þessu tilefni að þegar við gengum frá þessu máli fyrir nokkrum vikum — og þá var þetta keyrt í gegn á tveim dögum — bentum við í minni hlutanum í minnihlutaáliti á að það væri mikil hætta á því að þegar menn ynnu með þessum hraða mundu menn ekki ná þeim markmiðum sem lagt væri upp með. Því miður hefur það komið á daginn. Þess vegna erum við að ræða það hér. Þá er ég að vísu ekki bara að vísa í þann þátt sem sneri að launum í uppsagnarfresti, heldur höfðum við líka áhyggjur af fleiri þáttum en ekki var hlustað á okkur og málið var keyrt í gegn á þeim hraða sem ég nefndi.

Þrátt fyrir að við styðjum það að hér sé þá gengið fram og menn reyni að bæta fyrir þær brotalamir sem voru á málinu síðast vil ég nota tækifærið, virðulegi forseti, og biðja meiri hlutann aðeins að hugsa sinn gang. Núna er án ástæðu í viðskiptanefnd nákvæmlega verið að keyra á miklum hraða mál sem eru gríðarstór, hafa fengið litla umræðu í þinginu og meðal almennings, hvort sem það er um Bankasýsluna eða önnur mál. Sum eru orðin að lögum og það er svo sannarlega jafnmikil ef ekki meiri hætta á að við munum þurfa að fá þau mál hratt og vel inn sökum þess að menn unnu málin of hratt.

Hér er um að ræða skólabókardæmi um að það borgar sig að vinna mál vel og taka til þess nauðsynlegan tíma. Þess vegna er vinnulagið sem við erum með í þinginu eins og það er og það er hreinlega ekki gert ráð fyrir því nema í algjörum undantekningartilfellum að menn vinni hlutina á mjög miklum hraða.

Virðulegi forseti. Við í minni hlutanum styðjum það að þetta mál fari í gegn, munum samþykkja það og greiða fyrir því eins vel og við mögulega getum.