137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

150. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með félaga mínum í Sjálfstæðisflokknum sem talaði á undan, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og kem upp til að ítreka það að minni hluti viðskiptanefndar stendur að þessu frumvarpi með meiri hlutanum til að greiða fyrir og hjálpa ríkisstjórninni út úr þeim vanda sem hún kom sér í með því að fara ekki nógu vel og vandlega yfir þær lagabreytingar sem gerðar voru 29. maí sl. Eins og sá sem talaði á undan benti á vöruðum við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson við þessu og ég ætla, með leyfi forseta, bara til að ítreka það, að lesa upp úr nefndarálitinu sem við lögðum fram við það tilefni, með leyfi forseta:

„Að mati minni hlutans hafa ekki komið fram sannfærandi rök fyrir því að vinna málið í jafnmiklum flýti og gert var. Helstu rökin sem nefnd hafa verið fyrir flýtimeðferðinni eru launagreiðslur til fyrrum starfsmanna tiltekinna fjármálastofnana á uppsagnarfresti. Minni hlutinn hefur skilning á því sjónarmiði. Efasemdir hafa komið um að umrædd lagabreyting muni nægja til þess að hægt verði að greiða út launakröfur og því alls óvíst að því markmiði laganna verði náð. Ef málið hefði komið fyrr inn í þingið og skipulegar hefði verið unnið að því hefði mögulega verið unnt að finna á þessu lausn. Minni hlutinn lýsti sig tilbúinn að koma að slíkri vinnu og ýmsar hugmyndir voru reifaðar sem ekki náðist að skoða.“

Þetta vildi ég lesa upp til að sýna svart á hvítu að við höfum bent á það oft og ítrekað í vinnu hv. viðskiptanefndar í vetur og sumar að það verklag sem þar virðist vera orðið gegnumgangandi, að keyra mál hratt í gegn, vanbúin oft og tíðum, getur komið okkur í vanda. Hér er verið að höggva á þann hnút þar sem slitastjórn SPRON benti réttilega á að lögin sem samþykkt voru fyrr í sumar náðu ekki til þar sem SPRON hafði aldrei farið í greiðslustöðvun en það var einmitt það sem stóð í þeim lögum. Slitastjórnin kom fyrir nefndina og greindi réttilega frá því að hún vildi allt fyrir umrædda starfsmenn gera — nema kannski það að brjóta lög. Ég skil það sjónarmið vel, enginn krafðist þess af henni að fara í lögbrot en þarna voru áhöld um lagatúlkun. Það er mikilvægt að lögin séu skýr þannig að ekki þurfi að koma til þess að menn séu í vafa um hvernig eigi að fara eftir þeim.

Ég ítreka að þetta sýnir fram á þörfina fyrir vandaða málsmeðferð. Við viljum greiða fyrir því að vandi þessara starfsmanna SPRON verði leystur og þess vegna munum við greiða fyrir meðferð þessa máls í þinginu í dag.