137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sannfæringu í þessu máli og ég er búinn að vera að reyna að lýsa henni bæði í stuttu máli og löngu og ef hv. þingmaður er ekki ánægður með þá sannfæringu þá verður hann bara að eiga um það við sjálfan sig.

Mér heyrðist hv. þingmaður í raun vera að tala fyrir því að það ætti ekkert að fara að niðurstöðu þjóðarinnar ef þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu tekur afstöðu til þessa máls, þ.e. ef þjóðin til dæmis samþykkir aðildarsamning þá ætti ekkert nauðsynlega að fara að þeirri niðurstöðu. Ég spyr: Til hvers þá að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu, ég tala nú ekki um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ég veit ekki betur (Gripið fram í.) en að allir stjórnmálaflokkar hafi lýst þeirri afstöðu sinni að þeir vilji að þetta mál verði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir vilja að þjóðin kjósi um það og þá finnst mér liggja nánast í þeim orðum sömuleiðis að stjórnmálamennirnir ætli sér að gera eitthvað með þá niðurstöðu, að þeir ætli að virða hana. Það er alla vega afstaða mín og sannfæring að rétt sé að gera það. Ef hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einhverja aðra (Forseti hringir.) sannfæringu eða aðra skoðun á þessu er honum frjálst að hafa hana.