137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki blandað þessum málum tveimur sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi saman með þeim hætti sem hann gerir. Hann lýsti því hér að það væri undarlegt að hlýða á mig. Það er þá örugglega ekki í fyrsta skipti sem honum finnst það. Við höfum oft hlýtt hvor á annan í gegnum árin og stundum ekki alveg skilið hvor annan eða hvert hinn væri að fara (Gripið fram í.) svo að það er ekkert alveg nýtt í þessu efni.

Ég neita því algerlega að ég hafi lýst því yfir að ég ætli ekki að fylgja sannfæringu minni í málinu. En sannfæring manns getur verið sú í tilteknum (Gripið fram í.) málum, eins og því sem hér er um að ræða, að maður vilji láta þjóðina taka af skarið í því hvað hún vill í þessu efni. Ég hef þá sannfæringu. Er það eitthvað verri sannfæring en sannfæring einhverra annarra, til dæmis sannfæring sjálfstæðismanna sem vilja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og mætti þá spyrja að því hvort í því fælist ekki hálfgert lýðtog, (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal komst að orði.