137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur bara ekkert val um hvort Icesave og ESB verði blandað saman. Hann hefur ekkert um það að segja. Það er bara þannig að við eigum í harðvítugustu deilum frá landhelgisdeilunni. Margir telja að nú sé meira undir en þá, hvorki meira né minna. Ég ætla ekki að leggja dóm á það. En hv. þingmaður getur ekkert valið það að honum finnist þetta ekki tengjast. Ég þekki engan mann sem telur að Evrópusambandið hafi komið fram af sanngirni við okkur í þessu máli, engan. Á sama tíma og svo er kemur hv. þingmaður hér upp og segir: „Við skulum sækja um aðild að Evrópusambandinu.“ Á sama tíma. Það er ekkert valkostur fyrir hv. þingmann að segja að hann vilji ekki blanda þessu saman. Dettur hv. þingmanni í hug, virðulegi forseti, að á tímum landhelgisdeilunnar hafi einhver stjórnmálamaður komið fram og lagt það (Forseti hringir.) til við þingið að við sæktum um aðild, nánara pólitískt samband við þær þjóðir sem við áttum þá (Forseti hringir.) í miklum deilum við, nánar tiltekið Evrópuþjóðirnar?