137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins út af þessu með kostnaðarmatið: Ég vil taka fram að ég tel að kostnaðarmatið sem fylgir þessu nefndaráliti gefi okkur ramma eða vísbendingu um það af hvaða stærðargráðu þessir hlutir eru. Það er rétt hjá hv. þingmanni að líka kemur fram að vissir þættir séu háðir óvissu.

Hér er sagt að kostnaðarmatið hafi verið lagt fram 8. júlí. Ég vil taka fram að þetta er ekki alls kostar rétt. Kostnaðarmat utanríkisráðuneytisins, þar sem allar þessar tölur koma fram, var lagt fram 2. júlí og lagt til nefndarmanna. Það er yfirferð fjármálaráðuneytisins á kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins sem barst 8. júlí. Mikilvægt er að þessu sé öllu til haga haldið þannig að menn segi ekki frá hlutum öðruvísi en þeir eru. Kostnaðarmat utanríkisráðuneytisins þar sem tölurnar eru reifaðar kom 2. júlí en yfirferð fjármálaráðuneytisins þann 8.