137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er réttur skilningur hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að þetta hafi verið einhvers konar mismæli — eða ég veit ekki hvernig á að túlka þessi orð hv. þm. — að þetta hafi einhvern veginn hrokkið út úr forsætisráðherra vanhugsað, er það væntanlega vegna þess að hana skorti þingreynslu og sé ekki vön að koma orðum sínum í hugsun.

Staðreyndin er auðvitað sú að hæstv. forsætisráðherra var spurð hvaða áhrif það kynni að hafa á ríkisstjórnarsamstarfið ef þingmenn Vinstri grænna yrðu hugsanlega til þess með atkvæðum sínum eða hjásetu að tillaga ríkisstjórnarinnar næði ekki fram að ganga og í lok svars síns sagði hæstv. forsætisráðherra: „Við skulum vona að atkvæðagreiðslan verði með þeim hætti að þessi ríkisstjórn starfi áfram.“ Hæstv. forsætisráðherra gerir með öðrum orðum ráð fyrir því að atkvæðagreiðslan geti hugsanlega farið einhvern veginn þannig að þessi ríkisstjórn starfi ekki áfram. Það er engin leið fyrir hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að komast fram hjá þessu. Þetta er augljós hótun.