137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér á Alþingi er oft hægt að gagnrýna málsmeðferð, hvernig nefndir taka á málum, en í þessu máli held ég að það sé ekki hægt. Það er búið að vinna mjög vel að því að skoða aðildarviðræður við ESB í utanríkismálanefnd, bæði er búið að leggja til grundvallar málið sem ríkisstjórnin sjálf lagði fram og eins líka mál nr. 54 sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lögðu fram, og það er búið að reyna að samtvinna eins og hægt er þessa tvo texta eins og ég skil þann texta sem liggur til grundvallar núna. Ég held að þessi vinna hafi verið til fyrirmyndar. Margir fundir hafa verið haldnir, margir umsagnaraðilar gáfu álit sitt og margir gestir komu fyrir nefndina. Þetta er allt hægt að skoða í nefndarálitinu.

Það er líka ljóst, eins og hv. framsögumaður sagði áðan, að gert var plan um það hvernig nefndin ætti að vinna og það plan stóðst en það er mjög sjaldgæft. Ég man ekki til þess að gert hafi verið svona plan í nefndarvinnu hér áður og er kannski svolítið umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn hvort menn eigi ekki að fara meira út í þessi vinnubrögð en við höfum gert hér áður, þ.e. að skilgreina miklu betur hvernig vinnutakturinn á að vera í nefndunum þannig að tímaáætlanir standist nokkuð vel.

Í 54. máli sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lögðu fram um aðildarviðræður eru tvö meginatriði tilgreind í sjálfri þingsályktunartillögunni og síðan kemur greinargerð eins og gengur og gerist. Mig langar, virðulegur forseti, að fá að tipla á því sem kemur fram í tillögunni frá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Nefndinni er falið eftirfarandi hlutverk:

1. Að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

2. Að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings.

Nefndin ljúki framangreindum verkefnum sem allra fyrst og eigi síðar en 31. ágúst 2009.“

Hér er verið að segja að þeir sem skrifa undir þessa tillögu vilji að farið verði í að undirbúa mögulega umsókn um aðild og setja eigi saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum. Síðan eigi að búa til vegvísi um það hvernig þessari vinnu á að vinda fram eftir því sem nauðsyn ber til varðandi viðræðuferlið. Það eigi að drífa í þessu og klára þetta eigi síðar en 31. ágúst.

Þegar maður les nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar er alveg ljóst að þar endurspeglast nákvæmlega það sem segir í tillögu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Það er verið að greina frá mikilvægustu hagsmununum og það er líka verið að búa til vegvísi. Það er því mín skoðun að niðurstaða meiri hlutans sé í anda þeirrar þingsályktunartillögu sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lögðu fram, það er algjörlega verið að endurspegla hana þar. Fyrir það vil ég þakka. Mér finnst mjög gott að tekið hafi verið tillit til þessara sjónarmiða og hef reyndar heyrt af tali framsögumanns og annarra að það er ekkert svo mikill ágreiningur um þessa mikilvægustu hagsmuni, hann er eiginlega ekki til staðar. Menn eru meira eða minna sammála um hvað eru grundvallarhagsmunir Íslands. Það er kannski ekkert skrýtið þegar menn leggjast yfir málið af þeim þunga sem hér hefur verið gert að þetta verði niðurstaðan.

Í áliti meiri hlutans er fjallað um helstu og mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðunum. Þar er fjallað um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, tungumálið og úrsagnarrétt og fleira sem kemur fram í ályktun flokksþings framsóknarmanna. Það er reyndar fjallað um meira í áliti meiri hlutans en flokksþing Framsóknarflokksins fjallaði um og það er ósköp eðlilegt. Flokksþing stendur í tvo daga, það er reyndar nefnd sem undirbýr ályktun o.s.frv. en þar fer mjög sjaldan fram eins mikil og nákvæm vinna og fer fram hér á vettvangi þingsins í svona stórum málum. Það er þess vegna ekkert skrýtið að niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar sé víðtækari en ályktun flokksþings Framsóknarflokksins.

Það er fjallað um öll helstu grundvallarsjónarmið sem framsóknarmenn settu fram og skilyrði en það eru önnur atriði sem Framsóknarflokkurinn tók ekki á af eðlilegum ástæðum eins og ég hef tilgreint hér. Einn þingmanna okkar, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, skoðaði mjög náið niðurstöðu meiri hluta utanríkismálanefndar og ályktun flokksþings Framsóknarflokksins og komst að því að þarna standa nokkur mál út af sem eru í ályktun utanríkismálanefndar eða tillögugreininni og mig langar að lesa hvað það er.

Í tillögu meiri hlutans hér í þinginu er skilgreining á ferli viðræðnanna og aðkomu aðila. Hæstv. utanríkisráðherra fer með stjórnskipulega umsjón málsins, talað er um afmarkaða samningshópa með erlendum ráðgjöfum, samráðshóp með fulltrúum allra flokka og hagsmunahópa, upplýsingamiðlunarhóp, sérfræðingahóp, beina aðkomu Alþingis og utanríkismálanefndar að samningaviðræðunum, og að það eigi að vera styrkir til félagasamtaka til að koma sjónarmiðum sínum að. Ekkert af þessu er beinlínis í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins.

Það er tekið á vatns- og orkuauðlindum og lögð er áhersla á „að Ísland geri fyllilega skýrt við samningaviðræður að ekki komi til greina að sáttmálar ESB mæli fyrir um eignarhald á þeim auðlindum er hér um ræðir eða nýtingu þeirra umfram það sem umhverfisreglur á hverjum tíma mæla fyrir um. Allar bollaleggingar um sameiginlega nýtingu eða annað slíkt væru óásættanlegar fyrir Ísland.“ Segir í áliti meiri hlutans. Framsóknarmenn tóku ekki beint á þessu í ályktun sinni.

Það eru líka tilgreind atriði um byggðamál og þar segir:

„Að mati meiri hlutans þarf að tryggja byggða-, umhverfis-, atvinnu-, og nýsköpunarstuðning til dreifðra byggða.“

Síðar segir að það sé „að mati meiri hlutans um að ræða svið sem afar mikilvægt er að setja í forgrunn og leggja mikið kapp á“ og að hér kunni „að skapast ný tækifæri til endurskipulagningar á byggðastefnu íslenskra stjórnvalda á grunni nýrrar hugmyndafræði, en slíkt hefur gefið góða raun í sumum aðildarríkjum ESB“. Brýnt sé að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar í þessu sambandi og tryggja greiðan aðgang að því fjármagni sem hér um ræðir. Og meiri hlutinn telur „að í því efni eigi m.a. að horfa sérstaklega til þátta eins og nýsköpunar á landsbyggðinni sem hugsanlega gætu aukið fjölbreytni í atvinnutækifærum“. Framsóknarflokkurinn tók ekki beint á þessu máli í sinni ályktun.

Síðan er umhverfismálakafli og það er ítarlegur kafli um það hvaða hagsmunir eru í húfi á því sviði í samningaviðræðunum með tilliti til sérstöðu Íslands og skiljanlegra krafna um undanþágur og aðlaganir. Framsóknarflokkurinn tók ekki á því heldur í sinni ályktun.

Svo er kafli um almannaþjónustu og félagsleg málefni, og þar segir:

„Að mati meiri hlutans er það grundvallaratriði í þessu efni að hvert og eitt ríki geti haldið ákvörðunarvaldi um skipulag sinnar almannaþjónustu “

Og meiri hlutinn telur afar mikilvægt að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu. Það kemur líka fram þarna, virðulegur forseti, að meiri hlutinn leggur áherslu á að Íbúðalánasjóður haldi því rekstrarformi sem nú er og þeim ramma um lánveitingar sem nú gilda. Við framsóknarmenn tókum ekki beint á þessu í okkar ályktun.

Svo er kafli um öryggis- og varnarmál. Þar stendur að Ísland muni undir engum kringumstæðum koma á innlendum her eða taka þátt í samstarfi herja. Svo er líka fjallað um — svo ég taki út eitt og eitt dæmi um það sem fjallað er um í meirihlutaálitinu — einkasölu ríkisins á áfengi, að þá kom fram á fundum nefndarinnar að möguleg aðild Íslands að ESB mundi engu breyta sem slík um einkasölu ríkisins á áfengi.

Virðulegur forseti. Ég hef tiplað hér á nokkrum atriðum í áliti meiri hlutans sem eru ekki ályktun Framsóknarflokksins, enda getur ekki stjórnmálaflokkur undir venjulegum kringumstæðum farið svona nákvæmt í málin eins og gert hefur verið í þinginu. Það má því segja að ályktun meiri hluta utanríkismálanefndar feli í sér það sem framsóknarmenn lögðu áherslu á en hún innifelur miklu meira. Hún er fyllri, hún er víðtækari og gefur skýrari leiðbeiningar um samningsumboðið sem við viljum veita.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur fram breytingartillögu við breytingartillögu meiri hlutans. Sú tillaga sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur fram er ályktun flokksþings Framsóknarflokksins, nánast orðrétt. Þó vantar eitt atriði í þá breytingartillögu sem flokksþingið samþykkti í byrjun þessa árs og það er að framsóknarmenn sögðu að þeir vildu að það yrði staðfest vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar að Íslendingar hefðu varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB. Þetta segir í samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins. Reyndar var greitt atkvæði um þetta á flokksþinginu. Sumir vildu fá þetta fellt út á þeim grunni að þetta gengi lengra en EES-samningurinn, við erum eiginlega að bakka út úr EES-samningnum með þetta atriði. Það var reyndar fellt á flokksþinginu og þess vegna stendur það hérna, en í áliti meiri hlutans er tekið á þessu. Þar segir:

„Meiri hlutinn telur eðlilegt að horft verði til þess hvort skynsamlegt geti verið að fara fram á takmarkanir á rétti þeirra sem ekki hafa lögheimili og fasta búsetu á landinu til þess að eignast fasteignir hér á landi með tilliti til þess að viðhalda búsetu í sveitum.“

Álit meiri hlutans endurspeglar sem sagt alla punktana sem eru í ályktun flokksþings framsóknarmanna auk þeirra punkta sem ég taldi upp áðan, um umhverfisréttinn, almannaþjónustuna og það sem við tókum ekki beint á.

Auðvitað eru meginhagsmunirnir í sjávarútvegi og landbúnaði. Það eru viðkvæmustu hagsmunirnir og það ríkir bara almenn sátt í samfélaginu um það hvernig halda eigi á því, a.m.k. get ég ekki séð að það beri neitt á milli í því. Menn vilja ekki gefa það eftir til ESB í þeim viðræðum sem hugsanlega eiga eftir að fara fram.

Þá langar mig einnig að undirstrika að í nefndaráliti meiri hlutans er skýrt kveðið á um það að ekki megi víkja frá þeim meginhagsmunum sem eru skilgreindir í því plaggi nema þingið komi þar að og fari sérstaklega yfir þau mál. Það kemur fram á bls. 14, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki“ — og ég undirstrika þetta — „verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.“

Svo er því breytt síðar í tillögugreininni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“ — Síðan bætist við, og ég ætla að vitna beint í það: „Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Þetta er nokkuð skýr texti og þó að þetta sé svona skýrt kusum við, sú er hér stendur og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, að fara sérstaklega upp í andsvar við framsögumann meiri hlutans, hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, til að hnykkja á því hvernig bæri að skilja þetta. Þau svör sem voru gefin í upphafi umræðunnar voru á þá leið að þetta sé algjörlega skýrt: Þingið kemur að þessum málum. Ef reyna á að víkja eitthvað frá þessu samningsumboði þarf að fjalla sérstaklega um það á vettvangi þingsins, það er engin flóttaleið undan því. Við kusum að fara í andsvör til að ná þessu mjög skýrt fram. Það skiptir máli, þetta er ekki eitthvert hipsum happs sem framsögumaður getur leyft sér að segja í þessari umræðu þegar hann stendur fyrir máli sínu og kemur fram með nefndarálit meiri hlutans vegna þess að þau orð sem hér falla eru líka lögskýringargagn ef kemur til einhverra deilna um þetta síðar. Það skiptir því gífurlega miklu máli hvað hv. framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, hefur sagt hér um þetta atriði og mikilvægt að draga það fram eins og við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerðum á fyrri stigum í umræðunni.

Varðandi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þá er ég búin að koma því sjónarmiði á framfæri fyrr, virðulegur forseti, hvaða álit sú er hér stendur hefur á því. Ég sagði, virðulegur forseti, í framsöguræðu með málinu þegar það kom til fyrri umr. og ætla að vitna í það, ég var þá líka að tala um tillögugreinina í máli 54 sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn lögðu fram af því að þessi tvö mál voru rædd saman:

„Ég skrifa samt undir þessa tillögu þó að ég sé þar ósammála einu atriði. Það er atriðið sem er um að það komi til greina að vera með tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarflokkurinn ályktaði um það á sínum tíma á miðstjórnarfundi á síðasta ári en við breyttum um skoðun. Við teljum að ekki sé þörf á því.“

Svo hnykki ég á því aftur síðar í framsöguræðunni þegar málið var flutt hér fyrst.

Þegar maður skoðar gögn í þessu máli sést að á miðstjórnarfundi 3. maí hjá Framsóknarflokknum var ályktað um að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Miðstjórn Framsóknarflokksins telur eðlilegt að spurningunni um hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu óháð öðrum kosningum.“

Á þeim tíma þegar þetta var samþykkt, 3. maí 2008, fannst okkur þetta vera lýðræðisleg sáttaleið í þeirri stöðu sem við vorum í þá. Það var alveg ljóst að hluti framsóknarmanna var á móti því að fara í aðildarviðræður, hluti vildi fara í aðildarviðræður og þetta var niðurstaðan til þess að allir gætu verið sæmilega sáttir. Menn sögðu eiginlega að þeir væru sammála um að vera ósammála. Þetta var svona leiðin til þess, að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Síðan var horfið frá þessari stefnu og það var gert áður en flokksþingið rann upp. Þegar maður fer að stúdera gögn sér maður að á miðstjórnarfundi 15. nóvember 2008 samþykkir miðstjórnin að flýta flokksþinginu. Það var m.a. vegna mikilla atburða í flokknum, þáverandi formaður hætti störfum og við tók varaformaður og menn vildu útkljá þessi formannsmál og ákváðu því að flýta flokksþinginu til að skera úr um þau og kjósa sér nýja forustu með gott umboð. Svo vildu menn líka taka á Evrópumálunum. Það var því samþykkt að flýta flokksþinginu. Hér kemur ályktunin, með leyfi forseta:

„Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, haldinn 15. nóvember 2008, samþykkir að flokksþingi Framsóknarflokksins verði flýtt og það haldið í janúar 2009. Fyrir þingið verður lögð tillaga þess efnis að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Afdráttarlaus afstaða stjórnmálaflokks til jafnmikilvægs álitaefnis verður að byggja á sem breiðustum grunni og það fæst einungis með umfjöllun, afgreiðslu og atkvæðagreiðslu hjá æðstu stofnun flokksins.“

Þarna er miðstjórnin sem sagt búin að segja að fyrir flokksþingið, sem verður í janúar, eigi að leggja fram tillögu um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það er síðan gert. Flokksþingið er haldið, kýs þar forustu og fer í umræðu um það hvernig halda eigi á þessum Evrópumálum.

Þá kemur að flokksþinginu sem var afar glæsilegt og vel lukkað. Sú tillaga sem lá til grundvallar fer í nefnd, kemur út, rætt er um hana í salnum og greidd atkvæði og tillagan fæðist. Ég er búin að skoða vídeóupptökur af fundinum, af því að það er oft þannig að maður gleymir ýmsu sem skeður á stórum og löngum þingum, og það var mjög fróðlegt. Þar verður sú atburðarás — það er ágætt að hafa þetta fyrir söguna, ég ætla að nota svolítið af ræðutíma mínum til að fara yfir forsöguna — að þegar kemur að þessum lið, þ.e. Evrópusambandssamþykktinni, er Elín Líndal þingforseti og það koma fram nokkrar tillögur. Fram kemur tillaga frá Austur-Húnvetningum — Sigfús Karlsson er einnig þingforseti þarna, það eru Elín Líndal og Sigfús Karlsson sem meira eða minna halda utan um þessa atkvæðagreiðslu — um að flokksþingið leggist eindregið gegn öllum hugmyndum um að Ísland gangi í ESB. Þessi tillaga er lögð fram af Austur-Húvetningum, nokkrum aðilum þar — ég man ekki nákvæmlega hvernig það var orðað, hvort þetta voru einhverjir einstaklingar eða félagið, en það var sagt í pontu að hún væri „frá Austur-Húnvetningum“.

Þessi tillaga er kolfelld. Önnur tillaga kemur líka fram frá Austur-Húnvetningum þar sem segir: „Einnig leggst flokksþingið gegn hugmyndum um aðildarviðræður.“ Þetta var túlkað af þingforsetum sem óbreytt stefna frá flokksþingi 2007, þannig að þau ákveða að markmiðskaflinn í drögum að ályktun sem lá fyrir flokksþinginu þarna, sem var búinn að fara í gegnum nefnd og allt það — að fyrst eigi að bera þann markmiðskafla upp og ef hann verði samþykktur sé hin ályktunin felld sjálfvirkt. Það er gert og markmiðskaflinn er borinn upp til atkvæða og samþykktur, þannig að það er þá fellt í leiðinni að flokksþingið leggist gegn hugmyndum um aðildarviðræður.

Markmiðskaflinn segir, virðulegur forseti, að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til hans í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu. — Þetta er sem sagt markmiðskaflinn sem þarna var samþykktur.

Síðan kemur næsti kafli í þessari ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þá kemur fram breytingartillaga frá Gunnari Braga Sveinssyni, sem nú er hv. þingmaður. Hann leggur til að í stað fyrirsagnarinnar Leiðir, sem þá var, verði fyrirsögnin Skilyrði notuð í staðinn og svo koma nokkrir punktar um þau skilyrði. Það fer í atkvæðagreiðslu. Já segja 187, nei segja 156. Það eru því 187 framsóknarmenn sem segja já við því að hafa orðið „skilyrði“, þannig að orðið „leiðir“ fellur út og orðið „skilyrði“ stendur þar núna. Svo koma þarna nokkur skilyrði sem menn þekkja og hægt er að sjá í þingskjölum. Þannig var það.

Nokkrar umræður verða um alls konar orðalag sem ég ætla ekki að fara út í hér enda kemur það ekki beint við því máli sem við ræðum núna. Páll Magnússon leggur síðan fram tillögu um að náist ekki árangur í samningaviðræðum skuli slíta þeim og afsal auðlinda skuli ekki borið undir atkvæðagreiðslu í þjóðaratkvæði, þessi tillaga var dregin til baka.

Frá Eysteini Jónssyni komu tvær tillögur. Í fyrsta lagi: „Náist ekki þessi skilyrði — sem voru komin þarna fyrir ofan — verður samningurinn ekki lagður í dóm kjósenda.“ Þessi tillaga var líka dregin til baka. Eysteinn var með aðra tillögu, af því að fyrir neðan skilyrðin stendur — þetta eru lokin á ályktun framsóknarmanna, með leyfi forseta:

„Fyrstu skref. Þessi helstu samningsmarkmið sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda með sem víðtækastri samstöðu verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræðum við Evrópusambandið.“

Þetta stóð í drögunum en Eysteinn Jónsson vildi taka þarna út orðið „samningsmarkmið“ og setja í staðinn „skilyrði“. Þá yrði þetta ekki: „Þessi helstu samningsmarkmið sem og önnur verði lögð til grundvallar o.s.frv.“ heldur „þessi helstu skilyrði sem og önnur o.s.frv“. Þetta fór í atkvæðagreiðslu og var ekki dregið til baka á þeim rökum að það þyrfti að vera samræmi, það stóð „skilyrði“ fyrir ofan og af hverju átti það ekki standa fyrir neðan líka og var alveg sjónarmið út af fyrir sig. Í fundargerðinni stendur: „Það var fellt með afgerandi hætti að breyta þessu orði „samningsmarkmið“ í orðið „skilyrði““. En þingforseti sagði: „Þetta er fellt, það er kristaltært“, svo að notuð séu hans orð.

Nú er spurning hvernig á að túlka þetta. Það stendur þarna: „Þessi helstu samningsmarkmið o.s.frv.“. Sumir hafa viljað skýra þetta, og ég veit að ég er komin ofan í mikla sagnfræði, sem svo: Ja, fyrst búið var að ná inn orðinu „skilyrði“ ofar skipti kannski engu máli hvað stæði þarna fyrir neðan. Það náðist að setja inn orðið „skilyrði“ og þá eru þetta ófrávíkjanleg skilyrði, það má ekki fara í viðræður nema það sé algjörlega klárt að svona verði þetta að vera.

Virðulegur forseti. Þetta er sem sagt niðurstaðan að framsóknarmenn samþykktu aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þeir settu ákveðin skilyrði en þeir sögðu að fyrstu skrefin ættu að vera að þessi helstu samningsmarkmið sem og önnur eigi að vera skilgreind með hagsmunaaðilum og menn eigi að ná sem víðtækastri samstöðu og þetta eigi að vera grundvöllurinn að því umboði sem samninganefnd Íslendinga eigi að fara með.

Það er fyrir mér algjörlega ljóst að ályktun framsóknarmanna er í samræmi við álit meiri hluta utanríkismálanefndar en um þetta eru skiptar skoðanir í mínum flokki. Einhverjir hv. þingmenn, og ég ber fulla virðingu fyrir þeirra sjónarmiðum, telja að ekki sé gengið nógu langt í áliti meiri hlutans, það sé gengið of stutt. Það sé vegna þess að þeir túlki það sem svo, og þeir eiga eftir að skilgreina það og það hefur verið gert hér af formanni okkar líka, að skilyrðunum sé ekki mætt. En ég hef alla vega fært rök fyrir því að ég tel að svo sé, að búið sé að skilgreina samningsmarkmiðin. Menn geta kallað það skilyrði ef þeir vilja eða ekki, það er svolítil hártogun hvernig ber að skilja það orð að mínu mati. En það er algjörlega ljóst að samningsmarkmiðin eru skilgreind og reyndar fleiri en við settum fram, við framsóknarmenn, af eðlilegum ástæðum, og það er ekkert hægt að hlaupa neitt frá því samningsumboði sem þingið gefur, ef þetta verður samþykkt hér, tillaga meiri hluta, nema þingið ræði það fyrst og þá verður einhver röksemdafærsla í kringum það, hvort menn eigi að hlaupa frá samningsumboðinu og af hverju eða ekki.

Ég vil líka, virðulegur forseti, draga hér inn í umræðuna að framsóknarmenn og sú er hér stendur hafa auðvitað fylgst með því að mörg mikilvæg hagsmunasamtök á Íslandi, sem skipta miklu máli, vilja skoða aðildarviðræður. Ekki er langt síðan yfirlýsing birtist í Morgunblaðinu frá formönnum nokkurra slíkra samtaka. Í þeirri yfirlýsingu segir, með leyfi forseta:

„Stærsta hagsmunamál atvinnulífsins, launþega og atvinnurekenda er að tryggja starfsskilyrði sem gera íslenskum fyrirtækjum mögulegt að vaxa og dafna og skapa þannig atvinnu og hagsæld. Hér fara saman hagsmunir þeirra sem reka fyrirtæki og þeirra sem reka heimili og þurfa að sjá sér og sínum farborða. Nægir að nefna stöðugan gjaldmiðil, sanngjarna vexti, skaplegt matvælaverð og síðast en ekki síst gagnkvæmt traust sem er forsenda farsælla samskipta og viðskipta við umheiminn.“

Í þessari yfirlýsingu segir líka, með leyfi forseta:

„Þess vegna viljum við að þegar verði sótt um aðild að ESB og gengið frá aðildarsamningi þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.“

Síðar segir, virðulegi forseti:

„Ekki verður unað við að beðið verði lengur með að taka af skarið — biðin og frestun á því að taka á málinu er orðin lengri en góðu hófi gegnir. Tíminn skiptir höfuðmáli.“

Virðulegur forseti. Þeir sem skrifa undir þessa yfirlýsingu eru:

„Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR, Kristján G. Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, Margrét Guðmundsdóttir, formaður Félags íslenskra stórkaupmanna, Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.“

Hér eru forustumenn mjög mikilvægra hagsmunasamtaka með ákall um það að farið verði í aðildarviðræður og menn gangi þannig frá því að það komi aðildarsamningur sem menn geta svo tekið afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli. Mér finnst skipta miklu máli að stjórnmálaflokkarnir og þingmenn festist ekki svo mikið ofan í sínum skotgröfum að þeir hlusti ekki á þegar svona mikil þungavigtarsamtök koma með slíkt ákall. Það á alla vega að hafa áhrif og það hefur haft áhrif á framsóknarmenn þegar þeir hafa verið að vinna með þessi mál í okkar flokki, og við höfum verið í góðu samráði við marga af þeim aðilum sem ég taldi hér upp til þess að reyna að finna út úr því hvað best væri að gera varðandi Evrópusambandið.

Það eru líka mikilvægir hagsmunaaðilar sem eru andsnúnir þessu. Ég vil nefna hér LÍÚ og Bændasamtökin og svo hef ég aldrei alveg áttað mig á því hvað BSRB vill. En það eru líka mikilvæg hagsmunasamtök sem vilja ekki fara í aðildarviðræður og vara mikið við því. En alla vega er mjög mikill þungi á bak við það að við förum í aðildarviðræður, það er alveg óumdeilt, virðulegur forseti.

Það hefur líka verið rætt um það hvort aðildarumsókn tengist Icesave-málunum og bankahruninu og það sé eitthvað að ýta okkur inn í Evrópusambandið og þetta sé allt meira og minna einhver einn pakki. Ég er ekki á þeirri skoðun, virðulegur forseti. Ég er eiginlega nokkuð viss um það, þó að ég auðvitað geti aldrei sannað það, að við værum að ræða hugsanlega umsókn að Evrópusambandinu, að fara í aðildarviðræður, þó að við hefðum ekki lent í bankahruninu. Ég held að það sé alveg ljóst. Þunginn hefur verið í þá áttina. Stuðningur við að þessi mál séu skoðuð hefur farið vaxandi. Ég vara því við því að menn tengi þetta of mikið saman. Auðvitað er kannski eðlilegt að menn geri það þegar menn eru svona uppteknir af jafnerfiðum málum og Icesave. En ég set ekki samasemmerki á milli þessara mála og tel að ekki eigi að skapa einhverja óþarfa tortryggni um þessi mál með því að blanda þessum málum of mikið saman. Það er bara ekki þannig. Við hefðum verið að ræða aðildarumsókn óháð því hvort við hefðum lent í þessu bankahruni eða ekki.

Virðulegur forseti. Hér áðan var rætt svolítið um nýyrði, orðin „leiðtogi“ og „lýðtogi“. Leiðtogi er sá sem leiðir þjóðina áfram eða leiðir hóp manna, en lýðtogi er sá sem þorir ekkert að segja hvað hann vill, hann vill bara að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og svo ætlar hann bara að gera það sem þjóðin sagði honum, þannig að lýðurinn á að toga hann. Ég held að þetta mál hljóti að vera þannig vaxið að menn sýni ákveðinn leiðtogaskap með því að ákveða að fara í aðildarviðræður. Lýðurinn er ekkert að toga beint í því — jú, jú, skoðanakannanir segja eitthvað, en ég meina, þingmenn verða að gera það upp við sig hvort þeir vilji fara í aðildarviðræður eða ekki. Síðan þegar komin er niðurstaða í viðræðurnar, það er kominn einhver pakki, þá er spurning hver er leiðtogi og hver er lýðtogi. Einhverjir munu þá gefa upp afstöðu sína og segja: „Heyrðu, þessi pakki er góður, ég ætla bara að samþykkja hann.“ Eða: „Þessi pakki er vondur, bara kæra þjóð, ekki samþykkja hann.“ Þá geta komið fram leiðtogar, þingmenn og aðrir í samfélaginu. En það getur vel verið að einhverjir kjósi að gefa ekki upp afstöðu sína og verði lýðtogar og segi bara: „Ja, þjóðin verður bara að ráða þessu. Við munum bara virða það. Ég vil ekkert segja mína afstöðu, já eða nei, til þessa pakka af því að mér finnst að þjóðin eigi bara að ákveða sig sjálf.“ Það er þá sem kemur í ljós hver er lýðtogi og hver er leiðtogi að mínu mati.

Eins og málið er vaxið núna finnst mér það vera svona — af því að það var hv. þm. Pétur H. Blöndal sem sagði þetta hérna áðan, að það að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, er það ekki svolítið merki um lýðtog, að geta ekki gert upp við sig núna? Alla vega er ég algjörlega reiðubúin til þess að gera það upp við mig núna, án þess að fá einhverja leiðbeiningu um það í þjóðaratkvæðagreiðslunni, hvort við getum farið í aðildarviðræður eða ekki. Ég er tilbúin til þess að segja já við því.

Ég tel mikilvægt að við fáum botn í þetta mál. Við höfum rætt það í mörg ár í samfélaginu, okkur hefur greint mikið á um það hvað okkur býðst og hvað ekki og að mínu mati er farsælast fyrir okkur að fá botn í það. Ég hef sannfæringu fyrir því að rétti tíminn til þess að gera það sé núna og tel að við eigum að gera það hið fyrsta, málið sé algjörlega nógu þroskað til þess þannig að við getum farið í atkvæðagreiðslu. Sú er hér stendur mun samþykkja, eins og hér hefur komið fram áður, að fara í aðildarviðræður á grundvelli þessara skilyrða og meginsjónarmiða sem eru í áliti meiri hlutans og síðan verðum við að sjá hvað kemur út úr því. Þar er ákveðinn pakki á ferðinni eins og nefndarálitið er sett upp, það er ákveðinn pakki. Við förum í þessar viðræður á þessum grunni, það er allt innifalið sem þar stendur, hvorki meira né minna, og þar er líka aðferðafræði sem ég get fellt mig við, mjög mikið samráð við þingið, miklu meira en við höfum nokkurn tíma séð, og umboðið vel skilgreint, mikið samráð við hagsmunaaðila. Þjóðin getur síðan fengið að segja álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og algjörlega ljóst að hún er pólitískt bindandi þó að menn hafi verið að reyna að færa einhver rök fyrir öðru. Það er bara ekki þannig að ef við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu, með þeim lúðrablæstri sem fylgir slíku, þá er það pólitískt útilokað að menn fari að gera eitthvað allt annað eftir næstu alþingiskosningar þó að einhverjir þingmenn hafi lofað þjóðinni að þeir muni gera hitt eða gera þetta. Það bara getur ekki verið að það sé hægt að færa einhver sterk rök fyrir því að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um svona stórt mál sé eitthvert plat, það getur bara alls ekki verið.

Virðulegur forseti. Ég er hér að ljúka máli mínu. Ég er tilbúin til að taka þessa afstöðu, fara í aðildarviðræður á grundvelli þessara meginhagsmuna. Ég veit að skoðanir eru mjög skiptar innan stjórnmálaflokkanna og líka í mínum flokki, margir þar sem vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum fara í aðildarviðræður. Ég virði þau sjónarmið, ég er ekki sammála þeim, en tel komið að því að stíga þetta skref. Ég tel að það sé algjörlega í anda stefnu framsóknarmanna eins og hún hefur verið sett fram og ég hef fært rök fyrir í máli mínu.