137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gaman þegar hv. þingmenn nota andsvarsformið í þeim tilgangi að fá betri upplýsingar. Sumir halda að andsvarsformið þurfi alltaf að vera í einhverjum stríðshasar en það er alls ekki svo. Menn eiga einmitt að nota það stundum á þennan hátt.

Það er mitt mat að meiri hluti sé fyrir því í þinginu að fara í aðildarviðræður. Það hafa alla vega tveir stjórnmálaflokkar afdráttarlaust sagt: Við viljum fara í aðildarviðræður. Það er Samfylkingin og framsóknarmenn. Við erum svo með þessi grundvallarsjónarmið og skilyrði í farteskinu. Kannski ekki alveg eins útfært hjá Samfylkingunni og hjá okkur. Framsóknarflokkurinn hefur lagt mjög mikla vinnu í undirbúning í þessum málum. Mikil skýrslugerð hefur farið fram á vettvangi flokksins um árabil og hann er kannski sá flokkur sem er best búinn undir að fara út í þessa umræðu.

Eins og ég tilgreindi í ræðu minni telja mjög stór hagsmunasamtök, forustumenn þeirra, að við eigum að fara í aðildarviðræður hið allra fyrsta þannig að ég held að það sé þokkaleg sátt um að fara í aðildarviðræður. Auðvitað geta skoðanakannanir sveiflast dálítið til og frá en það skiptir líka máli. Fólk hefur áhrif á aðra með skoðanakönnunum. Ég get nefnt sem dæmi að hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði í grein í Fréttablaðinu að hann teldi að til greina kæmi að fara í aðildarviðræður þrátt fyrir að hugsanlega mundi Sjálfstæðisflokkurinn segja að hagsmunum okkar væri betur borgið utan ESB. Þannig að ég held að það geti skapast alveg þokkalega góð samstaða um að fara í aðildarviðræðurnar.

En svo er stóra stundin þegar samningur er kominn og þá veit maður ekki lengur um samstöðuna. Þá er hann bara felldur eða samþykktur.