137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að við aðstæðurnar sem uppi eru núna skiptir mestu máli samstaða í þjóðfélaginu um að sækja um aðild. Við sjáum síðan hvað kemur út úr samningnum. Til marks um samstöðuna sem skapaðist á síðustu 12–14 mánuðum um að sækja um aðild eru einmitt tilgreind greinaskrif þeirra félaga, hv. þm. Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar, um að óháð afstöðu einstakra flokksþinga bæri að sækja um aðild og fara í kjölfarið með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ná því upp úr hjólförum flokkanna, sem hafa haldið þessu máli í gíslingu í á annan áratug. Má deila um hvort það hafi verið mistök að sækja ekki um aðild á sínum tíma heldur gera samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég held að það hafi verið mistök en svoleiðis er sagan. Flokkarnir og þingið hafa haldið þessu máli í gíslingu síðan. Það er löngu tímabært að fara þessa leið.

Mál sem hefur stundum verið dregið til stuðnings því að sækja ekki um aðild er staða landbúnaðar og byggða. Ég held, eins og segir í álitinu, að það séu mikil sóknarfæri fyrir byggðirnar. Ýmislegt verður að varast. Það verða örugglega ágjafir á einhverjar greinar. Það kemur fram hvernig okkur tekst að verja þær en með því að fá skilgreiningu á íslenskum landbúnaði öllum sem norðurskautslandbúnaði gefst okkur færi á að styrkja áfram, t.d. framleiðslutengja, þær greinar sem við styrkjum nú. Hafa sérstakan stuðning við greinarnar eins og Finnar fengu fram. Finnska fordæmið var gífurlega mikilvægt í þessa veru eins og rakið er í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar.

Ég vildi varpa því fram við hv. þingmann hvort hann teldi að það væru öll efni til þess að þetta viðkvæma mál, sem snertir marga framsóknarmenn og marga Íslendinga aðra — hvort möguleg aðild mundi rústa íslenskan landbúnað. Hvort það stæðu ekki öll efni til þess að við gætum náð viðunandi, jafnvel býsna góðum, samningi hvað varðar byggðir og landbúnað.