137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:24]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki að það séu miklar líkur á því að niðurstaða í samningaviðræðum verði til þess að rústa landbúnaðinn. Hver hefur hagsmuni af því? Ég sé það ekki. Framsóknarmenn fóru í gegnum þetta og við bendum á að skilgreina eigi landbúnað sem heimskautalandbúnað, eins og gert var á svæðum í Finnlandi. Undir það er tekið í nefndaráliti meiri hlutans. Alveg er ljóst að rök eru fyrir því að styrkja landbúnaðinn á Íslandi, það er kalt hérna, allt grær miklu minna og seinna. Það er líka mikilvægt að hér sé fæðuöryggi, það sást mjög vel þegar bankarnir hrundu að upp geta komið aðstæður þar sem við getum ekki treyst algerlega á innflutning. Ég hef þá trú að samningaviðræður geti skilað ásættanlegri, góðri niðurstöðu fyrir landbúnað — jafnvel betri en það. Það er voðalega erfitt að segja til um það en eins og málum er háttað þarf að styrkja íslenskan landbúnað. Tollarnir mundu falla niður þannig að hann yrði að styrkja með öðrum hætti.

Hins vegar, af því að við tölum mikið um samstöðu, það sem er veikt í þessu máli eru miklar deilur um málið innan ríkisstjórnarflokkanna. Talsvert sterkara hefði verið að geta farið til aðildarviðræðna með samstæða ríkisstjórn. Það er veikleiki að hún er ósamstæð en hinn pólitíski veruleiki sem við búum við núna er að hjá Vinstri grænum eru þingmenn sem eru mjög andsnúnir þessu og hafa sagt í ræðustól að þeir muni ekkert gera til að liðka fyrir aðildarviðræðum. Þetta er hinn pólitíski veruleiki en þetta er veikleikamerki.