137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er magnað sitja hér og hlusta á fulltrúa Samfylkingarinnar fara ítrekað í ræðustól og lýsa því hvað mikill vilji sé meðal þjóðarinnar og alþingismanna til að sækja um aðild að Evrópusambandinu, á sama tíma og þessi ríki vilji endurspeglast í að milli 70 og 80% þjóðarinnar vilja kjósa um það. Komast að ákvörðun eftir ítarlega umræðu um hvort fara eigi í samningaviðræður við Evrópusambandið. Innan þingsins endurspeglast þessi umræða í hótun um stjórnarslit þegar menn innan stjórnarflokkanna voga sér að hafa einhverja aðra skoðun en hæstv. forusta. Þetta eru svo sem kunnugleg vinnubrögð frá hv. þingmönnum Samfylkingar og endurspeglast í ummælum hæstv. forsætisráðherra fyrir helgina þegar hún sagði að það væri Samfylkingin sem vildi ganga frá þessu máli strax. Samfylkingin ræður hér greinilega. Það var hnípinn formaður Vinstri grænna sem sat undir fordæmalausri yfirlýsingu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar fyrir helgina. Formaður beygður af beygjuvél Samfylkingarinnar og alveg ótrúlegt að vinnubrögð hans, og þeirra sem hafa talað mest um gagnsæi og heiðarleika og að þingmenn verði trúir sinni sannfæringu, skuli koma fram með þessum hætti.

Hver er trúverðugleiki Vinstri grænna gagnvart kjósendum sínum? Hver er trúverðugleikinn gagnvart stefnu og kosningaloforðum? Ef rifjaðar eru upp allar fullyrðingar og yfirlýsingagleði formannsins, sem er talinn vera einna mestur ræðuskörungur á hinu háa Alþingi, hvað stendur þá eftir? Hvað stendur eftir í öllum ummælum hans um Evrópumál? Hvað stendur eftir af öllum ummælum hans um Icesave? Hvað stendur eftir af ummælum hans um sparisjóðamálið?

Hann sagði fyrir helgina að hann gæti auðveldlega horft í augun á kjósendum sínum. Getur hann það, þegar hann sem fyrir kosningar gaf hástemmd loforð um breytingar í sjávarútvegsmálum boðar svo fyrningarleið sem ætlar ekki að ganga upp og Vinstri grænir eru farnir að draga í land í ummælunum öllum um landbúnaðarmálin, matvælafrumvarpið, ESB? Það er í sjálfu sér eðlilegt að skipta um skoðun, jafnvel í grundvallaratriðum, í stórum málum. En að skipta um heila kosningastefnu á tveimur mánuðum frá kosningum er alveg með ólíkindum og á örugglega ekkert fordæmi.

Það má sama segja um hv. þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Slagorðin eru kunnugleg: þjóðin á þing, opna glugga að Austurvelli. Þau eru fallin á prófum. Nú er þjóðin ekki lengur nægilega góður ráðgjafi þrátt fyrir að vel unnar skoðanakannanir sýni að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi mál. Vera má að Borgarahreyfingin hafi náð einhverjum skyndiprófum í aðdraganda kosninga og hér á fyrstu dögum þingsins en hún er fallin á sínu fyrsta alvöruprófi.

Forgangsröðun vinstri flokkanna í þessari samsteypustjórn þeirra er ótrúleg. Liggur lífið á í þessu máli? Er aðild líkleg til að breyta einhverju stórkostlegu í íslensku samfélagi? Samfylkingin trúir því og hefur ítrekað bent á að svo verði. Hún segir m.a., með leyfi forseta, í stjórnmálaályktun sinni: „Umsókn um aðild að ESB og undirbúningur að upptöku evru mun styrkja efnahag heimilanna og fyrirtækja í landinu þar sem gengi krónunnar er líklegt til að styrkjast og vextir að lækka vegna bættra lánskjara landsins erlendis. Staða heimilanna mun batna verulega með Evrópusambandsaðild þar sem matvælaverð, vaxtagjöld og almennar neysluvörur munu lækka auk þess sem verðtrygging leggst af með upptöku nýs gjaldmiðils. Full þátttaka í samstarfi Evrópuríkja mun auk þess tryggja áframhaldandi ferðafrelsi, aðgang að menntastofnunum og vísindasamstarfi og aðgengi að stærsta vinnumarkaði og markaðssvæði heims. Aðild að Evrópusambandinu er lýðræðismál sem mun bæta réttarstöðu launafólks og minnihlutahópa og styrkja öryggi þjóðarinnar.“

Já, hvað af þessu er nýtt og er líklegt að þetta með gengið og bætt lánskjör gangi eftir við það eitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Hvað höfum við ekki í dag? Við höfum tækifæri til að lækka matvælaverð ef við kjósum svo og við höfum allt hitt, ferðafrelsið, aðgang að menntastofnunum og vísindasamstarfi. Hvað felst í því þegar sagt er „undirbúningur að upptöku evru“? Hvað er undirbúningur að upptöku evru? Hver eru Maastricht-skilyrðin? Halli á ríkissjóði má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu. Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% hærri en meðaltal verðbólgu í þremur löndum ESB þar sem hún er lægst og langtímavextir mega ekki vera meira en 2% hærri en í þeim löndum þar sem verðlag er stöðugast. Eigum við eitthvað að ræða þetta, virðulegi forseti? Þarf eitthvað að ræða þetta? Þetta eru atriði sem verða ekki uppfyllt hér á næstu árum og hvað liggur þá svona á, nema til að uppfylla draumóraóskir Samfylkingarinnar? Svíagulrótin er nefnd í því samhengi, að Svíar séu að taka við formennsku. Í mínum huga er það að snúast upp í Svíagrýlu sem við Íslendingar þekkjum kannski enn betur í gegnum tíðina. En þeir tóku við formennsku 1. júlí og að mati ýmissa gesta, eins og segir í greinargerð hv. utanríkismálanefndar, skiptir það máli fyrir Ísland að aðildarumsókn sé lögð inn í formennskutíð Svía, hinn 27. júlí verður næsti fundur sem væri gott að drífa þessa umsókn inn fyrir.

Aðrir sem komu fyrir nefndina voru þessu ekki sammála þannig að um þetta eru deildar meiningar. Er það virkilega þannig að Evrópusambandið sé einhver klíkustarfsemi að þessu leyti, að það skipti öllu máli hvaða þjóð fer með forræði eða formennsku í Evrópusambandinu eða í ráðherraráðinu þannig að það sé úrslitaatriði fyrir þessa þjóð hvenær hún leggur fram umsókn sína? Ég gef þá ekki mikið fyrir slíkan félagsskap. Það hefur verið talað mikið um kostnaðinn við að fara í þessar viðræður, að kostnaðurinn geti verið jafnvel á annan milljarð. Hæstv. utanríkisráðherra kemur sama tíma og segir nei, nei, nei, þetta verður miklu minna. Hann hafði skroppið til Möltu um daginn og rætt við Maltverja um Evrópusambandsmálið, væntanlega í umboði ríkisstjórnarinnar (VigH: Fjármálaráðherra vissi ekki af því.) og á sama tíma kemur það fram í málflutningi hans að Maltverjar hefðu talað um að við gætum fengið einhverja styrki. Við ættum að byrja svona samningaviðræður á að fá styrk frá Evrópusambandinu til að geta staðið í samningaviðræðum um málið. Hver er lágkúran í þessari ríkisstjórn? Hvernig væri að klára þetta atriði áður en farið er lengra, hvað þessi pakki kostar? Þetta eru, virðulegi forseti, upphæðir sem skipta miklu máli, sérstaklega nú á tímum. Draga mun verulega úr allri getu stofnana og ráðuneyta vegna samdráttar á næstu mánuðum og jafnvel árum. Er þessi ríkisstjórn búin að gleyma sínum upphaflegu markmiðum um skjaldborgina um heimilin og eflingu atvinnutækifæra? Hvar eru stóru orðin sem hún var kosin út á? Hver er reyndin? Skatta- og gjaldahækkanir, niðurskurður hjá þeim sem minnst mega sín í samfélaginu, öryrkjum og öldruðum. Það eru fyrstu skrefin hjá jafnaðarmannastjórninni, vinstri stjórninni. Boðun auðlindaskatta til að fæla nú örugglega frá alla þá sem hafa áhuga á að koma til Íslands með eflingu atvinnulífs í huga. Eftirgjöf á viðurkenningunni sem við hlutum í Kyoto-viðræðunum, gefa eftir ákvæðið sem við Íslendingar fengum, viðurkenninguna á því að stunda hér umhverfisvæna stóriðjuframleiðslu. Óraunhæfar leiðir í sjávarútvegsmálum. Geggjaðar kjarahugmyndir, virðulegi forseti, geggjaðar kjarahugmyndir gagnvart opinberum starfsmönnum sem munu hafa í för með sér atgervisflótta, besta fólkið okkar mun fara úr landi. Við getum ekki keppt ef þessi stefna nær fram að ganga.

Hvaðan fer fólkið fyrst? Jú, úr heilbrigðisþjónustunni, úr heilbrigðisgeiranum þaðan sem við viljum alls ekki missa það. Dæmin eru farin að sýna sig. Í fréttum hér fyrir helgina kom fram, virðulegi forseti, að ekki er sótt um sérfræðistöður sem hingað til hafa verið eftirsóttar af íslenskum sérfræðingum sem eru að koma úr námi erlendis. Launastefna þessarar vinstri stjórnar, jafnaðarmannastjórnar, er farin að segja til sín í lakara heilbrigðiskerfi.

Við verðum að vera samkeppnishæf. Við höfum grátlegt dæmi, efnahagshrunið og afleiðingar þess. Við vitum að Fjármálaeftirlitið var vanmannað af því að það gat ekki keppt við bankastofnanirnar. Það var uppeldisstöð fyrir bankana, þeir hirtu fólkið þaðan þegar það var komið með smáreynslu, af því að Fjármálaeftirlitið gat ekki keppt við þá í launum. Kannski er það grunnurinn að því sem varð. Ætlum við að láta það sama henda í öðrum opinberum rekstri?

ESB á að bjarga öllu og svört skóför Samfylkingarinnar liggja þvert yfir andlit Vinstri grænna. Svo mikið liggur við að halda stólunum að í þessari tímamótavinstristjórn skal allt gefið eftir. Það er alveg ótrúlegt sem við verðum vitni að. Maður hefði eiginlega ekki trúað því upp á Vinstri græna að þeir gæfu svo auðveldlega eftir í grundvallaratriðum. Væri ekki nær að standa nú við prinsippin, dusta rykið af því sem sagt hefur verið og halda sig við kosningaloforðin?

Í kafla um skipulag viðræðna segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að aðkoma hagsmunaaðila að málinu og upplýsingamiðlun sé skýr og skilvirk á öllum stigum. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að ferlið sem sett verður upp í tengslum við aðildarviðræður verði eins gagnsætt og kostur er og að sem víðtækast samráð verði haft við hagsmunaaðila á breiðum grunni auk þess sem sérstök áhersla verði lögð á upplýsingamiðlun til almennings.“

Er þetta trúverðugt, virðulegi forseti? Er líklegt að þetta verði vinnubrögð Samfylkingarinnar í þessu máli? En eins og kunnugt er mun hæstv. utanríkisráðherra fara með yfirstjórn í þessum viðræðum. Hefur Samfylkingin sýnt það í Icesave-málinu (Gripið fram í: Nei.) þar sem kveðið var á um nákvæmlega sömu atriði? Hafa þau sýnt það þar sem þau leyna vísvitandi og óafvitandi upplýsingum frá hv. alþingismönnum? Reyndar er alveg með ólíkindum að upplifa hvað Evrópusinnarnir leggja mikla áherslu á að ganga frá Icesave-málinu strax og skilyrðislaust — í öllum flokkum, það á við okkur sjálfstæðismenn líka. Það eru Evrópusinnarnir í okkar flokki sem tala hæst um að það þurfi að ganga frá Icesave strax. Er samhengi á milli Icesave-samningsins og aðildarviðræðna við Evrópusambandið? Það hlýtur að læðast að manni sá grunur, virðulegi forseti.

Væri ekki rétt að forgangsraða öðruvísi og klára Icesave-málið áður en við förum í aðildarviðræður við Evrópusambandið? Ljúka því mikilvæga máli og láta reyna á samstarfið við þessar þjóðir, fyrrverandi nýlenduþjóðir með vinnubrögð sem sjást í vinnubrögðum gagnvart Íslendingum í Icesave-málinu? Viljum við aukið samneyti við þessar þjóðir ef slík vinnubrögð verða viðhöfð áfram? Mér er til efs, virðulegi forseti, að þjóðin hafi einhvern áhuga á því. Málið þarf ítarlegri undirbúning, það liggur ekki svo mikið á. Ég vil taka undir með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem í fréttum fyrir helgina var hissa á ríkisstjórninni sem hann situr í og gaf henni ekki háa einkunn.

Þegar rætt er um meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB, sem er í VII. kafla í greinargerð um meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB segir m.a., með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað ítarlega um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB. … Að mati meiri hlutans er afar mikilvægt að þeir meginhagsmunir sem lúta að aðildarviðræðum við ESB verði afmarkaðir og að á þeim byggist síðan nánar skilgreindari samningsmarkmið.“ Að sem sagt: „… meginhagsmunirnir sem lúta að aðildarviðræðum við ESB verði afmarkaðir og á þeim byggist síðan nánar skilgreindari samningsmarkmið. Þau verða hins vegar ekki sett fyrr en síðar í ferlinu þegar orðið er ljóst hvaða atriði það kunna að vera í raun sem kalla á samningaviðræður.“

Hvar er þetta fólk? Hvar hefur þetta fólk verið? Hefur það ekki kynnt sér þessi mál?

Reyndar segir í líka VII. kafla þar sem talað er um að ítarlega hafi verið farið yfir meginatriðin, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn telur óhætt að fullyrða að sjávarútvegsmálin muni bera hæst í væntanlegum aðildarviðræðum við sambandið. Helgast það af mikilvægi málaflokksins fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Þar segir áfram: „Samstaða var í nefndinni um meginmarkmið í samningaviðræðum við ESB varðandi sjávarútveginn. Þau lúta að forræði yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Það felur í sér forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu … haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta: „Meiri hlutinn telur að raunhæf leið til að tryggja forræði íslenskra stjórnvalda með framangreindum hætti innan íslenskrar efnahagslögsögu sé að lögsagan verði t.d. skilgreind sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Þannig verði réttindi ekki til staðar fyrir erlend fiskveiðiskip til veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu úr staðbundnum íslenskum stofnum. … Í þessu sambandi telur meiri hlutinn mikilvægt að leggja áherslu á meginreglur hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem telja verður að tryggi ákveðin grundvallarréttindi sem ekki verða skert með reglum ESB, m.a. fullveldisréttinn um 200 mílna fiskveiðilögsögu.“

Hvað er verið að tala um að skilgreina þurfi samningsmarkmiðin síðar, virðulegi forseti? Þau liggja hér fyrir. Atriðin sem hér eru talin upp ganga þvert á stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Liggur ekki fyrir um hvað þarf að semja? Það segir í greinargerðinni sjálfri. Af hverju þarf þá að setja samningsmarkmið síðar í ferlinu? Svo mikið liggur á, virðulegi forseti, að komast til Brussel. Þetta er alveg með ólíkindum.

Ef aðilar eru sammála um atriðin sem ég hef farið hér yfir, virðulegi forseti, af hverju komum við þá bara ekki hreint og einbeitt til dyranna og segjum við samningsaðila okkar: Hér er ákveðin grundvallaratriði sem við viljum hafa alveg á hreinu að verða samningsmarkmið okkar Íslendinga? Ef við náum ekki árangri með þau þurfum við ekki að fara lengra. Þá þurfum við ekki að eyða í þetta einum eða tveimur milljörðum og allri þeirri vinnu og fyrirhöfn sem embættismenn og alþingismenn þurfa að leggja á sig og væri miklu betur varið í annað. Ef það lægi fyrir að Evrópusambandið væri tilbúið til þess að opna á viðræður við okkur um þessi atriði væri málið komið í ákveðinn farveg.

Hér er forgangsröðun, virðulegi forseti, með ólíkindum og allt í þágu Samfylkingarinnar, þágu þeirra sem sjá ekkert nema þetta blessaða Evrópusamband sem framtíð Íslands. Eru svo með innihaldslausar yfirlýsingar sem greinilega er ekkert að marka og reynt er að skauta fram hjá.

Setjum samningsskilyrði, segjum fyrir fram að hér ætlum við að draga mörkin.

Það er svo sem víðar í þessari greinargerð sem er farið aðeins í kringum málin, eins og þegar sagt er að samningsforræði Íslendinga verði að vera um samninga varðandi deilistofna, en eins og kunnugt er mun það færast til Evrópusambandsins samkvæmt reglum þess. Svo er laumað inn: „eins og hægt er“. Bíddu, hvað er átt við með því? Það væri áhugavert að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, skýrði út fyrir okkur hvar mörkin liggja í hans huga.

Það vantar alla sannfæringu í þetta, virðulegi forseti, um varðstöðu um grunngildin sem þjóðin og langstærstur meiri hluti alþingismanna vill að séu höfð að leiðarljósi í þessum viðræðum. Það er verið að „kamúflassa“ þetta mál hér í gegnum þingið, ekkert annað, og allt fyrir það að Svíar eru að taka við formennsku. Þetta er eins „billegt“, virðulegi forseti, og það getur orðið. Þetta gerist á tímum sem þjóðin er við erfiðar aðstæður. Við höfum nóg að gera og þyrftum að gera miklu meira á ákveðnum sviðum.

Vinstri grænir, hv. þingmenn, falla hver af öðrum frá sannfæringu sinni, frá sannfæringu flokksins, markmiðum hans og stefnu. Samfylkingin hefur bara eitt markmið og það er að leggjast flöt, að komast í Evrópusambandið sama hvað það kostar, draumalandið skal það vera. Ég held m.a.s., virðulegi forseti, að einhverjir hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi talað um þetta nánast í þeim tón hér í ræðustól í þessari umræðu. Þeir eru komnir á bleikt ský, farnir að gleyma öllum grundvallaratriðum.

Þetta er í sjálfu sér ekkert betra, virðulegi forseti, en kommúnisminn var á sínum tíma hjá mörgum, er ekkert öðruvísi. Þeir sáu drauminn í austri, sáu kommúnískt samfélag sem framtíðardrauminn. Ekki er ólíklegt að eins fari fyrir þeim og mörgum kommúnistanum, þeir verði sorgbitnir þegar aldurinn færist yfir vegna þess að draumurinn rættist ekki. Ég spái því að það sé alveg sama hvort við verðum í framtíðinni aðilar að Evrópusambandinu eða ekki, sama hvernig þessar fyrirhuguðu viðræður fara, þetta er ekki það draumaland og draumaumhverfi sem Samfylkingin hefur teiknað upp. Raunveruleikinn er allur annar og dæmin segja okkur það.

Ég hef miklar efasemdir um að við eigum eftir að ná þeim árangri sem við verðum að ná til þess að ásættanlegt verði að ganga til liðs við Evrópusambandið. Á það mun reyna með einum eða öðrum hætti en ég hef miklar efasemdir. Mér finnst svo margt vera óútfært hjá okkur þó að vinnan hafi verið góð. Hv. þingmenn í utanríkismálanefnd hrósa formanni nefndarinnar fyrir vinnubrögðin og þeir hafa lagt á sig mikla vinnu. Margir aðilar hafa verið fengnir til fundar við nefndina en þetta er líka stórt mál. Það eru í þessu hlutir, eins og ég nefndi áðan, um samningana um deilistofna, samningaforræðið um deilistofnana. Talað er um nýtingu sela og hvala sem er okkur mjög mikilvæg, en hún er í umhverfiskaflanum. Nýting þeirra hefur ekkert með umhverfismál að gera, þetta auðvitað á að vera í sjávarútvegskaflanum.

Ég hræðist auðvitað afleiðingarnar fyrir íslenskan landbúnað og deili ekki skoðun með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, 7. þm. Suðvest., þingmanni Framsóknarflokksins, þegar kemur að afleiðingum fyrir íslenskan landbúnað. Ekki þarf annað en kynna sér hvað Bændasamtökin hafa sagt til að gera sér grein fyrir því að engin ástæða er til að ætla annað en að afleiðingarnar fyrir íslenskan landbúnað verði alvarlegar, með tilheyrandi áhrifum á byggð og atvinnu í landinu. Landfræðilegar aðstæður eru ákaflega sérstakar hér. Við erum fámenn þjóð í stóru landi sem liggur tiltölulega langt frá mörkuðum þessara landa og það verða alltaf ákveðnir erfiðleikar. Engin tilviljun er að samstaða innan Bændasamtakanna, og m.a. á landsbyggðinni, skuli vera gagnvart þessu máli.

Hver eru helstu rök bænda? Matvælaöryggið mun skerðast, atvinna og byggðir verða í hættu og íslenskur landbúnaður mun veikjast. Kröfum um heilbrigði verður fórnað og niðurfelling tollverndar kæmi sér illa fyrir íslenskan landbúnað. Neikvæð reynsla nágrannaþjóða styður málstaðinn og hér er fákeppni í smásöluverslun sem veldur því að aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum mundi aðeins að óverulegu leyti skila sér í lægra vöruverði. Lítill skilningur er hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar á þessum rökum, enda virðast þeir hv. þingmenn ekki hafa miklar áhyggjur af þessari hlið málsins. En það er full ástæða, virðulegi forseti, til að hafa verulegar áhyggjur af íslenskum landbúnaði, ekki bara bændanna vegna heldur samfélagsins.

Í ræðustól áðan var rifjað upp hvað sjálfstæði okkar er mikilvægt. Eitt er fæðuöryggi, það að geta brauðfætt okkur og vera sjálfum okkur næg. Hvað segir í spá Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna? Í henni segir að alvarlegt ástand komi upp í matvælamálum heimsins innan 20 ára, jafnvel snemma á því tímabili. Við höfum séð sveiflur á undanförnum árum. Vel má vera að einhverjum þyki mjög óraunhæft að tala svona. En hvernig var með efnahagshrunið? Hefði einhverjum þótt það óraunhæft hefði því verið spáð? Já, það var ekki hlustað á slíkar spár. Hefði ekki einhverjum þótt það óraunhæft fyrir einhverjum árum síðan að íslenska bankakerfið mundi hrynja, að íslensku bankarnir yrðu að stærstum hluta gjaldþrota? Jú. Er þetta þá svo óraunhæft, eða er þetta markmið sem við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum þessi málefni?

Það er dálítið sérstakt að fyrir liggur að skýrsla Hagfræðistofnunar, sem unnin var fyrir vinnuhóp utanríkisráðuneytisins um ESB og landbúnaðarmál. Í henni er gengið út frá svipuðu skipulagi eða fyrirkomulagi og er í Finnlandi. Henni var skilað frá Hagfræðistofnun um mánaðamót apríl/maí en hún er enn í drögum uppi í utanríkisráðuneyti og hefur ekki fengist afhent þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því. Af hverju ekki? Af hverju eru ekki öll spil lögð á borðið? Er þetta ekki einn af þeim þáttum sem við verðum að hafa á hreinu þegar við tökum ákvörðun? Öflugur landbúnaður er ekki bara mikilvægur fyrir matvælaframleiðslu og atvinnusköpun. Í nýlegri skýrslu kom fram að hann er líka öflugasta tækið okkar til að draga úr heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda. Að því leyti kannski eitt af því mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir, sérstaklega ef markmið og stefna núverandi hæstv. ríkisstjórnar nær fram að ganga, að verða kaþólskari en páfinn í þessum málum og falla frá þeirri viðurkenningu sem við höfum fengið.

63% allra mögulegra aðgerða gegn útstreymi eru fólgin í landbúnaði og breyttri landnotkun. Það er ekki öðruvísi, virðulegi forseti, og ef við héldum í viðurkenninguna sem við fengum í Kyoto, gætum við aukið hagkvæma stóriðju og eflt atvinnulífið með þeim náttúruauðlindum sem landið býr að.

Virðulegi forseti. Ég treysti ekki þessum flokkum, svo ósamstiga sem þeir eru, til að fara með svona mikilvæg mál. Draumsýn Samfylkingarinnar er óraunhæf að öllu leyti. Það vantar allt raunsæi í mynd þeirra og Vinstri grænir sýna að þeir standa ekki í fæturna, hvorki gagnvart stefnu sinni né kjósendum og þeim loforðum sem þeir hafa gefið. Hvernig eigum við að geta treyst þessu fólki til að fara núna fram í viðræðunum sem eru fram undan ef leið þess verður samþykkt? Hvernig eigum við að geta treyst því (VigH: Það er ekki hægt.) til að fara með þessi mál? Hver tekur ákvörðun um gang viðræðna? Hver tekur ákvörðun um það hvenær á að slíta viðræðunum, hvenær og hvernig á að halda áfram? Allt í umgjörðinni, virðulegi forseti, kallar á að þetta verði stöðugt ágreiningsmál, það verður engin samstaða. Það er engin sannfæring í málinu. Við verðum að setja okkur skýrari samningsmarkmið og skýr skilyrði. Þau liggja fyrir, ekki þarf annað en forgangsraða aðeins öðruvísi í greinargerð hv. utanríkismálanefndar þar sem hún segir sjálf að nefndin hafi orðið sammála um meginmarkmiðin, fara með þau og láta reyna á þau, áður en við hendum í þetta öllum milljörðunum sem við gætum svo vissulega notað í annað ef við höfum ekki erindi sem erfiði í þeirri ferð.

Ég held að við þessar aðstæður sé útilokað annað en leita til þjóðarinnar eftir umboði. Slík leið mundi kalla á mjög opna umræðu í samfélaginu og gefa því fólki sem færi í þessar viðræður — ef samþykktar yrðu — miklu skýrara umboð og skýrari línu, það væri miklu líklegra til að ná árangri í þessum samningaviðræðum, líklegra til að koma heim með samning sem yrði þá samþykktur, ef það næði svo langt. Með leiðinni sem valin er hérna og þeim vinnubrögðum sem er lýst í greinargerðinni, og maður veit í hjarta sínu að eiga eftir að ráða ferð í þessu máli, verður engin sannfæring, enginn grunnur undir þeim viðræðum sem fara fram í umboði ósamstiga ríkisstjórnar.

Áðan var talað um hvort fólk væri leiðtogar eða lýðtogar og að spyrja þyrfti þjóðina um alla skapaða hluti, til að mynda ef við færum í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst þetta ansi ódýr nálgun á málið. Það er ekki þannig að ekki sé ástæða til að viðhafa alla fyrirvara í svo mikilvægum málum. Við erum að fjalla um, virðulegi forseti, tvö stærstu mál sem þingið hefur fjallað um í áratugi, þ.e. aðildarviðræður við Evrópusambandið og Icesave-málið. Er eitthvað óeðlilegt við það þegar óeining er svo mikil sem raun ber vitni að heilbrigð umræða sé sköpuð í samfélaginu og leitað eftir umboði? Nei, þá vill hæstv. utanríkisráðherra labba sig til Brussel og biðja um styrk til að geta farið í viðræður við Evrópusambandið. Það gefur okkur sterka samningsstöðu, virðulegi forseti. Það er líklegt að það leiði til þess árangurs sem svona viðræður ættu að leiða til. Nei, leiðtogi eða lýðtogi, það átti að fara í þessar viðræður af því að svo margir forustumenn hagsmunasamtaka, launþegasamtaka, hvettu til þess en það á ekki að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þó að 70–80% af þjóðinni óski þess. Þarna er aftur ósamræmi í málflutningi, virðulegi forseti.

Ég segi bara í þessu máli: Við skulum flýta okkur hægt. Það hefur alltaf reynst best í stórum málum að anda svolítið í gegnum nefið, gefa sér tíma til að ígrunda málið og reyna að ná niðurstöðu sem er miklu breiðari sátt um en þá niðurstöðu sem hér er lögð til.