137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hans. Hún var mjög yfirgripsmikil og efnishlaðin og hann bendir á ýmislegt sem ég er sammála í mörgu. Hraðinn og vinnubrögðin sem farið er fram með fyrir þingið í þessu máli eru alveg með ólíkindum.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann. Ég talaði hér á föstudag og fór yfir hin svokölluðu Kaupmannahafnarviðmið — sem eru grunnurinn að þessu öllu saman, og í raun og veru skref A — sem ekki virðist hafa verið tekið tillit til í utanríkismálanefnd vegna þess að þau hafa verið afgreidd með tveimur línum, að líklega mundum við uppfylla Kaupmannahafnarviðmiðin. Þar með afgreiðir utanríkismálanefnd, undir forustu Vinstri grænna, að við höfum þarna erindi, nú höfum við burði til að sækja um. En í Kaupmannahafnarviðmiðunum stendur, með leyfi forseta, að til að sækja um þurfi ríki „að búa við stöðugar stofnanir sem tryggja lýðræði, réttarríkið, mannréttindi og virðingu fyrir minnihlutahópum og vernd þeirra, markaðshagkerfi, sem og getu til að standast samkeppnisþrýsting og markaðsöfl innan sambandsins“. Svo gengur aðild líka út á að umsóknarríki þurfa að hafa getu til að fylgja skyldum aðildar, svo sem að gangast undir markmið um pólitískt og efnahagslegt bandalag og myntbandalag. Þetta eru afar þröng skilyrði og skýr. Í fyrsta lagi, telur þingmaðurinn að þessi skilyrði séu uppfyllt nú þegar, þar sem staða okkar er afar bágborin? Svo er hitt: Hver er skoðun hans á síðasta skilyrðinu, með myntbandalagið? Við þurfum helst að uppfylla það við umsókn. Telur þingmaðurinn ekki að það sé fjarri lagi að við uppfyllum þessi skilyrði?