137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mergurinn málsins sem hv. þingmaður bendir hér á því að í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:

„Ekki þarf að efast um að Ísland uppfyllir Kaupmannahafnarviðmiðin.“

Hér er hreinlega talað í nútíð. Hér er verið að blekkja enn á ný. Það sér hver heilvita maður að við uppfyllum ekkert Kaupmannahafnarviðmiðin í dag eins og þetta stendur. Hér stendur þetta á bls. 6 í þessu ágæta plaggi, að við uppfyllum Kaupmannahafnarskilyrðin. Er þetta ekki blekking? Er þetta ekki enn eitt sjónarspilið sem Samfylkingin ber á borð fyrir okkur þingmenn og þjóðina? Mér finnst afar léttvægt að afgreiða þetta með þessum hætti, og raunverulega ættum við þingmenn að fara fram á úttekt á því áður en málið héldi lengra í þinginu. Er ekki bara tímasóun að standa hér og ræða þessi mál á meðan það er augljóst að við uppfyllum ekki þessi Kaupmannahafnarskilyrði þar sem á að fara beint í aðildarviðræður verði þessi tillaga samþykkt? Ég er farin að efast stórlega um það eftir því sem dagarnir líða.

Eins og landsmenn vita hef ég lagt fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu og hún hefur vægast sagt fengið mjög góðar undirtektir. Ég er því ekkert svo viss um að þetta verði á endanum samþykkt enda eiga líka margir eftir að tala, margir eiga eftir að mynda sér skoðun. Hér er löng mælendaskrá þannig að við skulum spyrja að leikslokum.

Varðandi þetta ætla ég að spyrja á ný: Fyrst þetta plagg er hér í nútíð og meiri hluti utanríkismálanefndar telur að skilyrðum sé fullnægt, finnst ekki hv. þingmönnum rétt að þetta verði kannað áður en lengra er haldið? Ég tek undir að ég trúi á íslenska þjóð og eldmóð hennar. Við gerum þetta í framtíðinni en í þessari skýrslu er verið að tala um nútíðina.