137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að eyða í þetta miklum tíma. Ég er sammála hv. þingmanni. Þetta er í raun enn eitt atriðið sem segir okkur að það er ekki hægt að réttlæta þann hraða sem er á málinu og maður vill ekki trúa því að formennska Svía í þessu hafi svona mikið að segja. Það getur varla verið eitthvert úrslitaatriði í svo mikilvægu máli. Það er þá eitthvað mikið að í þessu Evrópusambandi ef slíkt er. (VigH: Sammála.)

Ég er sammála hv. þingmanni með það að þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf greinilega að vinna mun betur. Nefndin ætti að gefa sér þann tíma sem þarf til þess og við getum síðan skoðað þetta í framhaldinu. Það mun margt skýrast þegar samningsmarkmið okkar og skýr vilji þjóðarinnar er kominn fram í ákveðnum málaflokkum. Þá mun margt skýrast í þessu máli og um leið og menn leggja það á borðið fyrir viðsemjendur okkar í Brussel fáum við miklu skýrari svör, þá liggur þetta fyrir. Það eru þau vinnubrögð sem ætti að viðhafa í þessu, virðulegi forseti, flýta sér hægar og fara yfir ákveðin grundvallaratriði í þessu máli af miklu meiri varfærni og innsýn en gert hefur verið fram að þessu.