137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:32]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Við ræðum í dag eitthvert mikilvægasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd. Verkefnið sem fyrir okkur liggur er að ákveða hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umfjöllunar kveður á um að Alþingi feli ríkisstjórninni að sækja um aðild að ESB og síðan verði væntanlegur aðildarsamningur borinn undir þjóðaratkvæði.

Ég vil byrja á að þakka utanríkismálanefnd þingsins, formanni nefndarinnar og nefndarmönnum öllum jafnt stjórnar sem stjórnarandstöðu fyrir afar vandaða vinnu og viðleitni til að sætta ólík sjónarmið um meðferð þessa þýðingarmikla máls í framhaldinu. Sú viðleitni að freista þess að brúa þá gjá sem verið hefur milli fylgjenda og andstæðinga aðildar er afar mikilvæg fyrir framvindu málsins og ekki síður framtíðarhagsmuni þjóðarinnar. Það er alkunna að skoðanir eru skiptar meðal stjórnmálaflokkanna um aðild að Evrópusambandinu og það endurspeglast í viðhorfum almennings. Einmitt af þeim sökum er grundvallaratriði að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi auk helstu hagsmunaaðila í samfélaginu komi að stefnumótun íslenskra stjórnvalda í mögulegum aðildarviðræðum, þar með talið endanlegri mótun samningsmarkmiða og forgangsröðun þeirra.

Nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar endurspeglar þessa sýn á mikilvægi víðtæks samráðs enda hafa tæplega áttatíu gestir komið fyrir nefndina frá samtökum launþega og vinnuveitenda, sveitarfélaga, hagsmunasamtökum í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, hreyfingum stuðningsmanna og andstæðinga aðildar, háskólum, stjórnsýslustofnunum, ráðuneytum og sendiráðum. Óskað var eftir umsögnum frá 102 aðilum og bárust umsagnir frá 57 þeirra.

Sú vinna sem farið hefur fram á vegum nefndarinnar gefur tóninn um það víðtæka samráð sem þarf að eiga sér stað um framgang Evrópumálanna en jafnframt er mikilvægt að undirstrika að þar með er málinu ekki lokið. Ef svo fer að tillagan um aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu tekur við langt ferli samningaviðræðna þar sem víðtækt samráð á öllum stigum er ekki bara æskilegt heldur nauðsynlegt til að tryggja að sem víðtækust sátt verði um samningsmarkmiðin og það umboð sem samninganefndin fer með til Brussel. Þetta skiptir miklu máli því þó okkur greini á um afstöðuna til Evrópusambandsins þá eigum við öll sameiginlegt að vilja tryggja grundvallarhagsmuni Íslands.

Ég tel að nefndarálit meiri hlutans beri með sér að fulltrúar allra flokka hafi lagt sig fram um að draga fram þá meginhagsmuni sem þurfi að halda fram og tryggja í mögulegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þar er forræði yfir auðlindum landsins grundvallaratriði og að mínu mati ófrávíkjanleg forsenda fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu.

Sú kviksaga hefur lifað furðulega góðu lífi í umræðunni um Evrópumál á Íslandi, verið ein meginröksemd andstæðinga aðildar, að með aðild að sambandinu afsali Íslendingar sér forræði yfir auðlindum sínum. Ítrekað í ræðu og riti hafa sérfróðir aðilar hrakið þessa fullyrðingu en hún skýtur jafnan upp kollinum á ný rétt eins og arfinn í bakgarðinum. Það er því rétt að halda því til haga enn á ný að ekkert í gjörðum eða sáttmálum Evrópusambandsins styður þessa fullyrðingu. Þvert á móti er fyrirkomulag, eignarhald náttúruauðlinda ekki viðfangsefni Evrópusambandsins heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna eins og bent er á í nýlegu riti Auðuns Arnórssonar stjórnmálafræðings og meirihlutaáliti utanríkismálanefndar aukinheldur.

Umræðan um afsal forræðis yfir auðlindum þjóðarinnar á vafalítið rætur að rekja til hagsmunaaðila í sjávarútvegi, einkum útgerðarmanna sem hafa horft til þeirrar staðreyndar að formleg ákvörðun um úthlutun aflaheimilda muni færast frá Íslandi til Brussel. Það er að forminu til rétt því að ráðherraráð Evrópusambandsins tekur ákvarðanir um skiptingu aflaheimilda úr fiskstofnum ESB-ríkja. En ályktunin sem dregin er um afsal forræðis yfir auðlindinni er hins vegar röng því við þá úthlutun miðar ráðherraráðið við regluna um hlutfallslegan stöðugleika, þ.e. ríki fái úthlutaðan kvóta í réttu hlutfalli við veiðireynslu útgerða í viðkomandi landi á umræddu hafsvæði undangengin ár.

Þegar kæmi að því að úthluta kvóta innan íslenskrar fiskveiðilögsögu yrði því litið til þess að Íslendingar einir hafa veitt innan íslenskrar landhelgi síðastliðin ár og reyndar áratugi og mundu því sitja einir að kvótanum á Íslandsmiðum. Fullyrðingar um að ESB-aðild feli í sér að hér fyllist allt af spænskum og breskum togurum sem muni hirða af okkur aflann í stórum stíl eiga því ekki við rök að styðjast.

Rétt er að halda því til haga að endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur nú yfir og á það hefur verið bent að ESB gæti tekið regluna um hlutfallslegan stöðugleika úr sambandi sem hluta af þeirri endurskoðun. Eins og fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis frá mars síðastliðnum þá hefur framkvæmdastjórn ESB þegar kannað afstöðu aðildarríkja sambandsins til endurskoðunar þessarar reglu og niðurstaðan var afar skýr. Hún var sú að 26 af 27 ríkjum sambandsins höfnuðu því með öllu að endurskoða regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Það bendir því allt til þess að þessi grundvallarregla verði áfram við lýði. Þrátt fyrir það er eðlilegt að samninganefnd Íslands hafi það sem eitt af sínum forgangsmarkmiðum í væntanlegum aðildarviðræðum að tryggja að reglan um hlutfallslegan stöðugleika gildi á Íslandsmiðum um ókomin ár.

Önnur helstu grundvallaratriði sem tryggja þarf í aðildarviðræðum eru reifuð í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og ég mun ekki gera þau að sérstöku umtalsefni hér að öðru leyti en því að taka undir það sem segir í meirihlutaáliti nefndarinnar að lögð verði áhersla á að viðurkennd verði sérstaða íslensks landbúnaðar og heimild til sérstaks stuðnings sem landbúnaðar á norðurslóð hliðstætt því sem Finnar og Svíar fengu í sína aðildarsamninga.

Virðulegi forseti. Umræðan um aðild Íslands að Evrópusamrunanum hefur verið hluti af pólitískri orðræðu á Íslandi í rúma fjóra áratugi eða allt frá því að umræða stóð hér undir lok sjöunda áratugarins um hvort við ættum að gerast aðilar að því sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu. Niðurstaðan þá var að ganga í EFTA árið 1970 og síðar í Evrópska efnahagssvæðið árið 1992 en jafnan hafa íslenskir jafnaðarmenn verið í fararbroddi þeirra sem voru fylgjandi auknu samstarfi við Evrópuþjóðirnar. Fyrir því liggja margar ástæður að við jafnaðarmenn teljum rétt og eðlilegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu, í fyrsta lagi sú skoðun að íslenskum hagsmunum sé best borgið í nánu alþjóðlegu samstarfi við þær þjóðir sem við eigum mest undir, bæði hvað varðar pólitísk samskipti í einstökum málaflokkum en ekki síður varðandi utanríkisviðskipti, en langstærstur hluti utanríkisviðskipta okkar er við ríki sambandsins.

Þetta sjónarmið vegur enn þyngra í dag eftir hrun fjármálakerfisins í haust. Að mörgu leyti hefur reynslan af hruninu mikla kennt okkur hve mikilvægt sé að eiga góð og náin samskipti við nágrannaþjóðir okkar og helstu viðskiptalönd. Um árabil hafa tekist á andstæð sjónarmið hér á landi um afstöðu okkar til umheimsins. Annars vegar eru þeir sem hafa talað fyrir efnahagslegum sjálfsþurftarbúskap Íslendinga, óbreyttu viðhaldi íslenskrar krónu og takmarkaðri samleið Íslendinga með nágrannaþjóðum í Evrópu. Hins vegar eru þeir sem vilja styrkja samband okkar við nágrannaþjóðir í álfunni með hliðsjón af því að eyþjóð í hnattvæddum heimi á afkomu sína og velferð ekki síst undir uppbyggilegum samskiptum og viðskiptum við grannþjóðir.

Við eigum val um það að standa í átökum við alþjóðasamfélagið eða leita eftir samstarfi með það fyrir augum að tryggja betur hagsmuni okkar. Ég legg áherslu á að báðar þessar leiðir byggja á sömu forsendunni sem er viðleitni til að verja grundvallarhagsmuni Íslands. Þeir sem halda öðru fram fara villir vegar ómeðvitað eða vísvitandi. En ég er ekki í nokkrum vafa um að það er í öllu falli líklegra til að þjóna framtíðarhagsmunum Íslands að fara samningaleiðina í samvinnu við aðrar þjóðir en að standa í illdeilum við þær.

Evrópusambandið er myndað sem svar við ógnaröld í samskiptum Evrópuþjóða í tveimur heimsstyrjöldum á síðustu öld og hryggjarstykki þess eru sameiginlegir hagsmunir aðildarríkjanna af því að tryggja frið og stöðugleika í álfunni. Ekkert er eins mikilvægt fyrir heimili og atvinnulíf í hnattvæddum heimi og stöðugleiki eða jafnvægi í efnahagsmálum. Það er forsenda þess að hægt sé að gera áætlanir um framtíðina. Þetta á við í ríkjum Evrópusambandsins og þetta á sannarlega við hér á Íslandi.

Í öðru lagi hefur reynslan af EES-samstarfinu kennt okkur hve mikilvægt sé fyrir sjálfstæða þjóð eins og Ísland að hafa beina og milliliðalausa aðkomu að mótun þeirrar lagasetningar og annarra gjörða sem verða til á vettvangi Evrópusambandsins. Við höfum undanfarinn hálfan annan áratug innleitt þúsundir gjörða í íslenska löggjöf í gegnum EES-samninginn en höfum hins vegar ekki haft stöðu til að hafa bein áhrif á innihald þessara gjörða. Slíkt er óásættanlegt fyrir sjálfstæða þjóð sem vill berjast fyrir hagsmunum sínum í alþjóðasamfélaginu. Í þeim skilningi má halda því fram að fullveldi okkar hvað varðar mótun löggjafar sem hefur áhrif á samfélag okkar muni aukast við inngöngu í sambandið þó að auðvitað verði að halda því til haga á móti að aðild að Evrópusambandinu felur í sér afsal á hluta fullveldis eða nánar tiltekið hluta ríkisvalds til Evrópusambandsins.

Í þriðja lagi, og þau rök hafa verið fyrirferðarmest í umræðunni undanfarin missiri, eru þær ástæður sem tengjast gjaldmiðilsmálum og aðild okkar að myntsamstarfi Evrópuríkja. Því verður ekki lengur á móti mælt að íslenska krónan er ekki gjaldmiðill sem á framtíð fyrir sér á alþjóðlegum peningamörkuðum. Þróunin í gjaldmiðilsmálum á alþjóðavettvangi hefur verið í þá átt að færri og öflugri gjaldmiðlar hafa leyst þjóðargjaldmiðla af hólmi. Allt bendir til þess að sú þróun haldi áfram og hin bitra reynsla Íslendinga af gjaldeyriskreppu íslensku krónunnar undirstrikar að það er ekki boðlegt fyrir íslenska þjóð að bera þann þunga fórnarkostnað sem fylgir íslensku krónunni til frambúðar og felur í sér verulega gengisáhættu, verðtryggingu með öllum þeim kostnaði sem henni fylgir fyrir íslenskan almenning, að ekki sé talað um óstöðugt rekstrarumhverfi jafnt atvinnulífs og heimila.

Aðild Íslands að myntsamstarfi ESB er framtíðarmál sem vitanlega verður ekki að veruleika fyrr en að nokkrum árum liðnum þegar Íslendingar hafa uppfyllt svokölluð Maastricht-skilyrði um árangur í efnahagsmálum. Hins vegar er brýnt til skemmri tíma að fylgja því fast eftir í aðildarviðræðum við Evrópusambandið að leitað verði liðsinnis þess og Evrópska seðlabankans um stuðning við krónuna þangað til við höfum uppfyllt Maastricht-skilyrðin. Ótalin eru afleidd áhrif af upptöku evru, til dæmis á erlendar fjárfestingar en á það hefur verið bent af fræðimönnum að upptaka evru mundi auka verulega líkur á erlendri fjárfestingu hér á landi og gæti aukið utanríkisviðskipti um ríflega helming. Enn mætti nefna fleiri rök fyrir aðild sem eru væntingar um umtalsvert lægra matvæla- og vöruverð, niðurfellingu tolla á íslenskum afurðum, þar með talið sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum, lægri skólagjöld í breskum háskólum fyrir íslenska nemendur og svo framvegis.

Virðulegi forseti. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins á þinginu hafa lagt fram breytingartillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún felur í sér að áður en tillaga um aðildarumsókn nær fram að ganga verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild. Gagnrýnendur þessarar hugmyndar hafa bent á að þessi tillaga sé fordæmalaus. Engin þeirra þjóða sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu hafi farið þessa leið. Það segir sína sögu. En látum það liggja milli hluta í bili. Frumleiki getur verið hin besta dyggð og á alls ekki að útiloka að við Íslendingar séum einfaldlega betur nestaðir en aðrar þjóðir í því að finna upp á pólitískum nýjungum. Nú er ég almennt fylgjandi því að auka aðkomu þjóðarinnar að meiri háttar ákvörðunum varðandi þjóðarhag í bráð og lengd. Þess vegna hefur það allan tímann verið stefna Samfylkingarinnar að þjóðin fengi alltaf að kveða upp sinn dóm um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hugmyndin um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu tiltekna máli um ESB-aðild hefur hins vegar þann stóra galla að þjóðin hefur einfaldlega ekki forsendur til að taka upplýsta afstöðu til málsins áður en aðildarviðræður hafa farið fram. Kostirnir sem lagðir yrðu fyrir þjóðina væru í besta falli ófullkomnir og í versta falli misvísandi. Þeir eru ófullkomnir af því að þegar þjóðin gengur að kjörborðinu í slíkri kosningu þá liggur enginn samningur á borðinu. Það er ekkert fast í hendi sem þjóðin getur byggt afstöðu sína á. Þó við þekkjum Rómarsáttmálann og gjörðir ESB þá liggur fyrir að við þurfum að semja um 35 kafla sem taka á flestum grundvallarhagsmunum Íslands og niðurstaðan er ekki gefin fyrir fram hvað sem hver segir. Þessir kostir í tvöfaldri atkvæðagreiðslu eru misvísandi því þrátt fyrir allar skýrslurnar, allar fræðibækurnar og blaðagreinarnar undanfarin 25 ár lifa tröllasögur og glansmyndir góðu lífi í Evrópuumræðunni á Íslandi, tröllasögur um að við munum tapa yfirráðum yfir auðlindum okkar eða jafnvel fullveldinu. Á hinn bóginn er glansmyndin af ESB sem allra meina bót. Hvorugt á við rök að styðjast en hætt er við að þegar enginn samningur er á borðinu verði slíkar ímyndir fyrirferðarmestar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef við förum í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu gengur þjóðin að kjörborðinu með bundið fyrir augun. Hún hefur engin óyggjandi svör við knýjandi spurningum um hvaða sérlausnum við gætum náð fram í aðildarsamningi Íslands sem eðli málsins samkvæmt yrði niðurstaða ítarlegra aðildarviðræðna milli samninganefnda okkar og Evrópusambandsins með aðkomu Alþingis, ríkisstjórnar og helstu hagsmunaaðila. En skiptir þjóðarviljinn þá engu máli? Jú, svo sannarlega og við förum býsna nærri því hver hann er gagnvart aðildarviðræðum því skoðanakannanir hafa verið gerðar ítrekað árum saman einmitt um þetta efni. Nær alltaf hefur birst skýr meiri hluti þjóðarinnar fyrir því að stíga þetta skref og hefur stuðningurinn gjarnan verið á bilinu 60–70% landsmanna. Það ætti að vera þingheimi mikilvægt veganesti þegar hann tekur ákvörðun um hvort hann eigi að greiða götu þessa mikilvæga máls sem getur varðað veginn til efnahagslegs stöðugleika fyrir Ísland á komandi árum út úr þeim beiska táradal sem við erum í í kjölfar bankahrunsins.

Virðulegi forseti. Við lifum í hnattvæddum heimi. Við lifum tíma þar sem fullveldi þjóða eru takmörk sett í ljósi þess að stærstu verkefni stjórnmálanna eru í eðli sínu alþjóðleg en ekki þjóðleg og þau verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki ríkja innan heimsálfa og milli heimsálfa. Engin þjóð er þess umkomin að leysa loftslagsvandann upp á eigin spýtur. Engin þjóð getur sigrast á hryðjuverkaógn heima í túnfætinum eða tryggt frið og stöðugleika í álfunni innan sinna landamæra. Engin þjóð getur sigrast á alþjóðlegu fjármálakreppunni ein síns liðs. Öll þessi vandamál og mörg fleiri í samtímanum kalla á fjölþjóðlegt samstarf, úrræði og lausnir sem eru afrakstur víðtæks samráðs og samvinnu margra ríkja með ólíka sýn en sameiginlega grundvallarhagsmuni um jafnvægi og framfarir í þágu umbjóðenda sinna.

Við þingmenn eigum að gæta almannahagsmuna, almannahagsmuna í störfum okkar á Alþingi. Við komum að sönnu úr ólíkum áttum. Sumir hafa starfað í útgerð, aðrir eru bændur og enginn flýr sinn uppruna. En þegar við komum á löggjafarsamkunduna ber okkur að gæta hagsmuna allrar þjóðarinnar, ekki einstakra hagsmunahópa, stétta eða atvinnugreina. Þetta bið ég þingmenn að hafa hugfast þegar þeir greiða atkvæði um tillöguna um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Með henni er mörkuð skýr sýn til framtíðar og send afar mikilvæg skilaboð til umheimsins um að Ísland vilji taka fullan þátt í samstarfi Evrópuþjóða í framtíðinni því það er vænlegasta leiðin til að tryggja landsmönnum aftur stöðugleika og batnandi lífskjör hér á komandi árum.