137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal spurði mig hér tveggja spurninga, annars vegar hvernig ég hygðist losa þjóðina undan verðtryggingu með evru. Hv. þingmaður veltir því upp hvort verðtrygging verði losuð af öllum skuldbindingum. Það er náttúrlega þannig, eins og hann kemur inn á í síðari spurningunni, að ef og þegar við tölum upp evru þá verður það á grundvelli þess að við höfum náð hér aga og stefnufestu í ríkisfjármálum og peningamálum. Við þær aðstæður skapast á markaði tiltrú markaðarins á að verðbólga haldist stöðug og lág. Við þær aðstæður er ekki þörf á verðtryggingu til þess að tryggja að aðilar á Íslandi hafi aðgengi að lánsfé. Verðtryggingin er trygging til þess að hægt sé að fá aðgengi að lánsfé þannig að sparnaður eða fjármunir þeirra sem veita lán gufi ekki upp. Þetta veit hv. þingmaður jafn vel og sú sem hér stendur.

En á hvaða gengi? Þetta er náttúrlega grundvallarspurning í þessari umræðu, frú forseti. Það er kappsmál að við þurfum að ná stöðugleika á íslensku krónuna. Við þurfum að koma henni í eins lága vísitölu og við mögulega getum. Að því verðum við að róa öllum árum. Það gerum við meðal annars með niðurskurði og aðhaldi í ríkisfjármálum. Það gerum við með endurreisn bankakerfisins til að afla fjármagns erlendis frá og það gerum við með ýmsum þeim erfiðu aðgerðum sem ríkisstjórnin er núna að takast á hendur.