137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi verðtrygginguna byggist afstaða hv. þingmanns á óskhyggju, byggir á því að fólk sem búið er að gera samning, segjum til 20–30 ára með því að kaupa til dæmis íbúðalánabréf, skuldabréf Íbúðalánasjóðs í því trausti að verðtryggingin haldi og hefur sætt sig við lægri vexti til þess að njóta verðtryggingar þannig að verðbólguskot eins og kom um síðustu áramót raski ekki og eyðileggi ekki sparnaðinn — þetta er vantrú íslenskra sparifjáreigenda á sparnað og það eru allt of fáir sparifjáreigendur á Íslandi ef hv. þingmaður skyldi ekki vita það. Hvernig ætlar hún að skapa þetta traust ef hún ætlar að byrja á því að taka verðtrygginguna burtu og lýsir því yfir?

Gengi evrunnar, fínt, þegar við verðum búin að ná upp trausti og því sem hv. þingmaður kallaði aga og stefnufestu. En við getum bara alveg eins gert það án þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við getum ákveðið sjálf að beita aga og stefnufestu. (Utanrrh.: Þú sást hvernig það gekk hjá ykkur.) Þá mun gengið á krónunni væntanlega lagast og við þurfum ekki að taka upp evru.

Hv. þingmaður gleymdi að svara því hverjir væru gallarnir við Evrópusambandið eða kannski veit hún ekki af einum einasta galla.