137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef við lesum þá þingsályktunartillögu sem við ræðum í dag er meiningin að sækja um aðild að Evrópusambandinu, nokkuð sem ekki má samkvæmt stjórnarskránni. Það á að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild að Evrópusambandinu og jafnvel að skrifa undir eitthvað sem ekki má samkvæmt stjórnarskránni. Í mínum huga gengur þetta rökfræðilega ekki upp og ég á von á því að einhver kæri — ég veit reyndar ekki hver það ætti að vera — einhver kæri það þegar menn fara í að framfylgja þessari þingsályktun frá Alþingi sem brýtur stjórnarskrá. Ég minni á að Alþingi var mjög upptekið af því þegar Hæstiréttur felldi öryrkjadóminn og kvótadóminn að afnema þau ákvæði í lögum sem meiddu stjórnarskrána.

Nú er Alþingi að samþykkja — ef þetta verður samþykkt sem ég býst nú ekki við — nú er Alþingi að samþykkja þingsályktunartillögu sem brýtur stjórnarskrána sem er í gildi í dag. Ég vona að enginn sé efins um það. Það verður ekkert gengið í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá þannig að aðildarviðræður eru bara tómt mál og brjóta stjórnarskrána. Ég tel að þetta sé atriði sem þingmenn þurfi að ræða miklu ítarlegar.