137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal í ljósi þess að við erum sannarlega í erfiðum málum og þurfum að horfa til allra átta, hvaða álit hann hafi á því að við skoðum aðra möguleika eins og til dæmis umsókn að fríverslunarsamningi Ameríku, NAFTA, upptöku dollars eða hugsanlega einhliða upptöku annars gjaldmiðils sem gæti í framtíðinni kannski stuðlað að þeim stöðugleika sem við erum fyrst og fremst að leita að. Að mínu mati er það fyrst og fremst fjármálalegur stöðugleiki sem við erum að leita að með aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Mér finnst í þessu máli eins og mörgum öðrum, eins og Icesave-málinu, að menn einblíni um of á einn möguleika, einn þátt og kanni ekki aðra mögulega útkomu fyrir íslenska þjóð samtímis. Auk þess finnst mér þetta hvatt dálítið hratt áfram þannig að við megum þola að vera rekin áfram nánast eins og hjörð til að afgreiða dálítið stór mál án þess að hafa opna valkosti uppi á borðinu hvað sé best fyrir þjóðina. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því hvort hann hafi velt því fyrir sér hvaða aðrar leiðir við eigum til þess að ná fram fjármálalegum stöðugleika heldur en hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið og aðild að því og tengingu við eða upptöku evru.