137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt athugað hjá hv. þingmanni. Það er undarlegt að menn skuli einblína svona á eina lausn á vandamálum okkar, fjármálalegum vandamálum í leit að stöðugleika. Auðvitað gætum við séð margar aðrar leiðir og ég hef bent á það að ef við ætlum að uppfylla Maastricht-skilyrðin þá þurfum við að byggja upp stöðugleika áður. Við getum alveg eins gert það bara sjálf. Við getum ákveðið að uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir árið 2015 til dæmis. Við gætum líka tekið upp norska krónu, dollar eða eitthvað annað slíkt. Ég held reyndar að norska krónan sé mjög nálægt okkur vegna þess að Norðmenn eru bæði í sjávarútvegi og líka í orkuútflutningi eins og við Íslendingar og þar af leiðandi háðir svipuðum sveiflum.

Hv. þingmaður kom inn á eitt mjög athyglisvert og það er hvað þetta sé keyrt hratt áfram. Menn segja að það sé af því að einhver Svíi stjórni Evrópusambandinu sem stendur. Það segir mér að Evrópusambandið er eitthvert klíkusamfélag þvert á það sem menn segja í hinu orðinu, að þetta sé svona frjálst og þetta skipti ekki máli. En ég sé ekki þá hvaða máli það skipti þó Spánverji væri þarna í forsvari, hann ætti að taka okkur með jafnmiklum velvilja og einhver maður frá Svíþjóð. Mér sýnist að með þessu séu menn að segja að Evrópusambandið sé ekki jafnfrjálst samfélag þjóða og sagt er. Margir segja það og bara beint út að það sé vegna einhvers fundar núna 27. júlí að verið er að keyra þetta í gegn á Alþingi og kannski líka vegna þess að nú er hásumar og margir í fríum, þar á meðal fjölmiðlar, Kastljós og annað slíkt. Kannski er þetta bara trix til að ná þessu í gegn meðan fjölmiðlarnir sofa.