137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við lifum á sögulegum tímum. Alþingismenn Íslendinga þurfa nú á þessu sumarþingi að taka stórar og afdrifaríkar ákvarðanir sem varða alla framtíð íslensku þjóðarinnar. Það er mikilvægt að stjórnvöldum takist vel til með sín verk og að þau sýni kjark, áræðni, framsýni og þor við það að stjórna skútunni okkar í var. Tími er takmörkuð auðlind á þessum tímum og því gríðarlega nauðsynlegt að stjórnvöld forgangsraði verkefnum og einbeiti sér að því sem skiptir máli. Því er hálfskrýtið að standa á Alþingi í dag og ræða um Evrópusambandið, aðildarumsókn að Evrópusambandinu í miðjunni á storminum vegna þess að Evrópusambandið er ekki að fara neitt frá okkur og það er engin skyndilausn sem kemur til með að aðstoða okkur í þeim vanda sem við erum nú stödd í.

Virðulegi forseti. Á óvissutímum er jarðvegur fyrir ýmsar breytingar. Í slíku breytingaástandi og óvissuástandi geta hugmyndir sem annars ættu ekki upp á pallborðið skyndilega skotið upp kollinum og hlotið brautargengi. Við erum að upplifa þessa óvissutíma í dag. Afstaða landsmanna til ýmissa grundvallarmála hefur sveiflast gríðarlega undanfarna mánuði, allt eftir því hvar málið er á örmum fjölmiðlamanna þann og þann daginn. Ef á Alþingi væri stjórnmálahreyfing sem ætlaði sér að stjórnast eftir því hvað skoðanakannanir segðu þá ætti hún fullt í fangi með að lesa blöðin vegna þess að sveiflurnar eru það miklar.

Dæmi um slíkt er hugsanleg Evrópusambandsaðild Íslands. Aðild að ESB þýðir afsal á veigamiklum þáttum fullveldis þjóðarinnar og er markmið fullveldisframsalsins það að byggja upp stórríki. Er svo komið að landsmönnum þyki rétt að parkera unga íslenska þjóðfánanum og lýðveldismerkinu undir Evrópufána? Það þykir mér ekki.

Virðulegi forseti. Ég er á þeirri skoðun að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé best varið utan Evrópusambandsins. Við megum aldrei missa sjónar á heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar til lengri tíma þó að blási á móti í núinu. Að mínu viti er aðild að Evrópusambandinu ekki sú töfralausn á núverandi vanda sem margir talsmenn þeirrar lausnar tala um. Slík töfralausn er ekki til heldur þarf að takast á við verkefnin eins og þau liggja fyrir sjálf og byggja okkur upp á þeim sterka grunni sem við þó höfum.

Samfylkingin, einn flokka, hefur í ljósi þess óvissuástands sem hér ríkir gripið tækifærið og komið á dagskrá þingsins tillögu um aðildarumsókn að ESB með stuðningi Vinstri grænna, Vinstri grænna af öllum flokkum, þvert á fyrri yfirlýsingar þess flokks, háværar yfirlýsingar í síðustu kosningabaráttu, bæði í ræðu og riti gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Virðulegi forseti. Ýmislegt getur gerst á óvissutímum.

Nú hef ég fulla samúð með þingflokki Vinstri grænna í þessu máli. Ég hef séð það áður, frú forseti, hvernig Samfylkingin hefur beitt samstarfsflokka sína afarkostum þegar kemur að þessu eina máli Samfylkingarinnar, Evrópusambandsaðild. Þeir hafa æfingu í því að stilla fólki upp við vegg. En, virðulegi forseti, í dag er þörf á hugrökkum stjórnmálamönnum sem standa við sína sannfæringu og láta ekki kúga sig til hlýðni. Ég vil hugga þingmenn Vinstri grænna með því að það er líf eftir samstarf við Samfylkinguna. En það er bara snöggtum betra sérstaklega hvað varðar sjálfsvirðinguna ef menn hafa kjark til að standa með sjálfum sér og segja nei.

Farið hefur fram mikil umræða um ESB í kjölfar bankahrunsins en í raun hefur sú umræða öll snúist um gjaldmiðilsmál og upptöku evru. Staða krónunnar er veik og því eðlilegt að rætt sé um hvaða stefnu eigi að taka varðandi framtíð gjaldmiðilsins. Staðreyndin er hins vegar sú að til þess að geta tekið upp evru með aðild að ESB þurfum við að uppfylla Maastricht-skilyrðin eins og hv. þm. Pétur Blöndal fór vel yfir áðan. Vissulega eru Maastricht-skilyrðin góð og gild og vissulega skilyrði sem við ættum að stefna að því að uppfylla. Það er hverri þjóð mikilvægt að vera með stöðugan efnahag. Maastricht-skilyrðin eru í rauninni bara svona heilbrigðisvottorð um að efnahagslíf gangi vel. Bjartsýnustu menn, eins og hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir í sinni ræðu, hafa gefið okkur um sjö ára tíma til að uppfylla þessi skilyrði. Aðrir sérfræðingar hafa spáð tíu árum, sumir þrjátíu árum þannig að það er enn og aftur augljóst, frú forseti, að við tökum ekki upp evru í gegnum aðild að ESB í skyndi. Það er margra ára verkefni.

Margir hafa í umræðunni lýst því yfir að þrátt fyrir augljósa galla ESB munu þeir ekki bíta á okkur þar sem við komum til með að fá svo mikið af undanþágum í samningaferlinu, að okkar sérstaða sé það mikil að við fáum gríðarlega miklar undanþágur. Frú forseti. Við sáum það nú hvernig samninganefndinni gekk í Icesave-málinu í að halda fram okkar sérstöðu þrátt fyrir að búið væri að skrifa undir sameiginleg viðmið þar um. Sagan segir okkur jafnframt að illa hefur gefist að óska eftir miklu af varanlegum undanþágum frá regluverki ESB. Viðmiðunarreglan gæti verið 10% kannski. En á móti kemur að slíkar undanþágubeiðnir lengja umsóknarferlið, geta lengt það um mörg ár. Miðað við flýtinn í þinginu, frú forseti, er augljóst að talsmönnum þessarar leiðar liggur mikið á og þeir fara þá varla að bíða í mörg ár með það, þ.e. að hafa samningaviðræður í gangi í mörg ár með öllum þeim viðræðum um undanþágur sem þeir talsmenn halda fram að hægt verði að ná.

Virðulegi forseti. Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá er það afstaða mín að aðild að Evrópusambandinu er ekki það sem ég tel að sé best fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Þá skoðun byggi ég á því að ég fór í gegnum mikla vinnu með flokknum mínum í janúar á þessu ári við að endurskoða afstöðu okkar í Evrópumálum, fara enn og aftur yfir afstöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið sú að okkar hagsmunum sé betur borgið þar fyrir utan. Gríðarlega mikil vinna fór fram og ferðast var hringinn í kringum landið til að tala við sjálfstæðismenn og fara yfir þessi mál. Ég byggi skoðun mína á því að það þjónar ekki hagsmunum íslensks landbúnaðar að ganga í Evrópusambandið. Það þjónar ekki hagsmunum íslensks sjávarútvegs að ganga í Evrópusambandið og varanlegt 10–12% atvinnuleysi í Evrópusambandslöndunum fellur mér ekki vel í geð. Kalt hagsmunamat segir mér því að tíma okkar sé betur varið fyrir utan Evrópusambandið.

Bændasamtök Íslands hafa fjallað mikið um aðild að Evrópusambandinu. Þau hafa lagt fram mikil plögg þar að lútandi og þeir reifa það meðal annars að reynsla nágrannaþjóða okkar varðandi landbúnaðinn sé ekki góð. Ég tek mikið mark á þessari vinnu og tel að landbúnaðurinn sem og sjávarútvegurinn hafi unnið gott starf í því að kynna fyrir okkur hvernig afstaða Evrópusambandsins gagnvart þessum stóru og mikilvægu atvinnugreinum á Íslandi sé.

Frú forseti. Jafnframt hefur lítið farið fyrir umræðunni hér um Lissabon-sáttmálann svokallaða og áhrif hans á ESB ef hann verður samþykktur. Þar er í rauninni um að ræða stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið. Ef hann verður að veruleika og tekur gildi mun Evrópusambandið taka það miklum stakkaskiptum að í rauninni væri ekki lengur um ríkjasamband að ræða heldur sambandsríki. Með tilkomu Lissabon-sáttmálans verður Evrópusambandið gert að lögpersónu og breytingarnar eru slíkar að það er full þörf á að ræða þær hér þegar á þessu stigi málsins.

Virðulegi forseti. Alþingi situr nú á löngu sumarþingi og kemur ekki á óvart enda eru verkefnin sem fyrir íslenskum stjórnvöldum liggja ærin. Þau eru flókin og viðamikil. Ekki þarf að fjölyrða um þá stöðu og það óöryggi sem íslenskar fjölskyldur búa við í dag. Sama má segja um atvinnurekendur. En nú sitjum við hér, þingmenn þjóðarinnar, og ræðum um Evrópusambandið. Mér þykir það þyngra en tárum taki að við séum í þessari stöðu í dag, að ræða eina mál Samfylkingarinnar meðan það er fullt af öðrum verkefnum sem við ættum að vera að sinna. Forgangsröðunin er skrýtin. Það er skrýtið að vera hér með forgangsröðun í þágu Samfylkingarinnar en ekki í þágu þjóðarinnar.

Samningsstaða okkar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu hefur að mínu viti aldrei verið jafnslæm og hún er nú. Við erum löskuð eftir stærsta efnahagsáfall síðari tíma í heiminum. Er Ísland í dag líklegt til að ná góðum samningum? Ég tel svo ekki vera.

Virðulegi forseti. Að mínu viti eru mikilvægustu verkefni stjórnmálamanna í dag þessi: Endurreisn bankanna, niðurskurður í ríkisfjármálum, endurreisn atvinnulífsins, aðgerðir í þágu heimilanna, ívilnandi aðgerðir til að greiða fyrir erlendri fjárfestingu, orkunýtingaráætlun til þess að skýrt sé hvernig við ætlum að nýta landið okkar okkur til hagsbóta og að skapa þannig aðstæður að hér skapist fleiri störf. Síðast en ekki síst þarf að skapa fólkinu í landinu öryggi og blása þjóðinni í brjóst von, von um að landið okkar og einstaklingarnir sem það byggja muni þrátt fyrir allt eiga hér bjarta framtíð í landinu okkar.

Virðulegi forseti. Grundvöllur þess að við náum þeim árangri við stjórn efnahagsmála sem leiðir til vaxtalækkunar og afnáms gjaldeyrishafta er að stjórnvöld nái tökum á ríkisfjármálunum — það er lykilatriði — og að sjálfsögðu að endurreisn bankanna verði lokið því áður en ríkisfjármálin og bankarnir komast í lag verða allar aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu máttlausar. Ég vil því enn og aftur, frú forseti, hér í þessum ræðustól nota tækifærið og minna á efnahagstillögur þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem lagðar voru fram í þinginu í sumar. Markmið þeirra aðgerða sem þar eru lagðar fram eru að bæta stöðu heimila og fyrirtækja, endurheimta tiltrú á íslensku efnahagslífi, skapa sameiginlegan skilning á mikilvægi brýnustu aðgerða, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða í heimi. Af hverju erum við ekki frekar að ræða þau mál hér í dag? Af hverju erum við að eyða tíma þingheims í að ræða hugsanlega aðild að Evrópusambandinu? Frú forseti. Þetta er algjörlega ofviða mínum skilningi.

Frú forseti. Barátta okkar Íslendinga næstu mánuði felst í því að skapa fleiri störf. Ég tel að við eigum fjölmörg tækifæri til að byggja hérna upp sterkt og öflugt atvinnulíf. Forsenda þess að við náum tökum á því verkefni er að ríkisstjórnin einbeiti sér að þeim grundvallarviðfangsefnum sem fyrir liggja. Aldrei í sögunni hefur verið meiri þörf á atvinnuuppbyggingu og erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn vilja og mikla löngun til að koma hér að, sérstaklega í orkufrekum iðnaði. Þeir reka sig hins vegar á ýmsar hindranir þar sem umhverfið er ekki tilbúið að taka á móti þeim og stjórnsýslan er ekki klár. Það er brýnt að taka á þessu hið fyrsta og liðka fyrir því að erlent fjármagn streymi til landsins til að byggja upp atvinnutækifæri til framtíðar og skapa þjóðinni auknar gjaldeyristekjur. Það er lykillinn. Auknar gjaldeyristekjur eru lykillinn að því að við komum okkur upp úr þessu ástandi.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar megum aldrei gleyma því að þrátt fyrir erfiða stöðu eigum við hér margar sterkar stoðir sem við byggjum á. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð. Menntunarstigið er hátt. Við eigum hér miklar auðlindir, fiskinn í sjónum, vatnið og orkuna og við skulum aldrei gefa það frá okkur. Þetta eru vopnin og þetta eru stoðirnar sem við komum til með að byggja endurreisn okkar á. Vissulega fer uggur um mann þegar talað er um fyrningu í sjávarútvegi og þessi grundvallarútflutningsgrein okkar skelfur vegna þess að ríkisstjórnin er að leggja til aðgerðir sem beinlínis miða að því að vekja ójafnvægi í greininni. Þetta er gríðarlega alvarlegt. Ofan í það kemur svo þessi hugsanlega aðild að Evrópusambandinu sem ekki er til þess fallin að styrkja stoðir sjávarútvegsins.

Virðulegi forseti. Við skulum aldrei gleyma því að einstök þjóð byggir þetta land. Við erum harðger og dugleg og við höfum vilja sem enn hefur ekki verið brotinn á bak aftur, vilja til þess að sjá afrakstur eigin verka og njóta þeirra, vilja til að sjá sér og sínum farborða, til að auðga andann og mennta sig og verða með því færari til að afla okkur tekna, viljann til að nýta kosti landsins til að lifa af og auka lífsgæði fyrir okkur sjálf og fyrir komandi kynslóðir, viljann til frelsis og sjálfstæðis. Þennan vilja skulum við virða og tryggja að hann verði aldrei brotinn á bak aftur. Evrópusambandið mun ekki koma okkur til bjargar. Við þurfum að gera þetta sjálf. Það verður erfitt og mun taka virkilega á okkur. En auðlindirnar skulum við ekki gefa frá okkur og við skulum ekki raska jafnvægi þeirra. Framtak og framsýni einstaklinganna eru sterkustu vopnin í þeirri baráttu sem við eigum í. Þessi vopn skulum við virða og þeim skulum við beita.

Virðulegi forseti. Ljóst er af umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu að undanförnu að ekki er einhugur í ríkisstjórninni um það hvort hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið innan eða utan ESB. Þjóðin virðist klofin í þessu stóra máli og það sem alvarlegra er, ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir á Alþingi standa ekki einhuga að þessu máli. Þeir treysta sér ekki til að bera pólitíska ábyrgð á þessari hugsanlegu aðildarumsókn. Það er alvarlegt mál. Það eru óvissutímar og þjóðin þarf ekki á því að halda að leiðtogar hennar eða ríkisstjórnarflokkarnir þori ekki að taka ákvörðun, geti ekki staðið á bak við þau mál sem lögð eru fram hér í þinginu.

Tillaga ríkisstjórnarflokkanna er þeim stóra annmarka háð að flutningsmenn hennar áskilja sér rétt til að leggjast gegn afurðinni, aðildarsamningnum þegar til ákvörðunar kemur um samþykkt hans eða synjun. Það hefur aldrei verið mikilvægara fyrir íslenskt samfélag en að hér ríki einhugur, einhugur um það hvert skuli stefna, einhugur um uppbyggingarferlið. Sú er því miður ekki staðan.

Nú er ekki tími til að ala á sundrungu og klofningi þjóðarinnar. Þjóðin þarfnast sterkra leiðtoga sem hafa skýra framtíðarsýn, framtíðarsýn sem byggir á sterkri sannfæringu og vekur von hjá fólkinu í landinu um að framtíðin okkar hér í þessu landi verði björt. Hér er verið að leggja til að lagt verði í leiðangur til Brussel til að leita samninga um fullveldisafsal þjóðarinnar án þess að hugur fylgi máli, að minnsta kosti ekki hjá öðrum stjórnarflokknum.

Virðulegi forseti. Þar sem ríkisstjórnin hefur ekki skýra sýn í þessu máli frekar en nokkru öðru mun ég styðja breytingartillögu formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins um að viðhöfð verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin þarf að koma að þessari ákvörðun þar sem Vinstri grænir hafa látið undan kröfu Samfylkingarinnar um að þau fái séð draum sinn rætast, drauminn um Ísland í ESB. Það gengur ekki, frú forseti, að Samfylkingin ein flokka fái vilja sínum framgengt um aðildarviðræður þvert á raunverulegan vilja þingsins. Fólkið í landinu á það skilið að fá að segja sitt í þessu máli og þess vegna styð ég það að viðhöfð verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hugsanlega aðildarumsókn.