137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fljótgert að svara spurningum hv. þingmanns. Það er rétt að Seðlabankinn hefur kynnt skuldastöðu og skuldaþol eins og staðan er í dag fyrir efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd og mun kynna endanlegar tölur sínar í fyrramálið og birta síðan á blaðamannafundi í framhaldinu og þá gefst öllum almenningi tækifæri til að taka afstöðu til þeirra.

Hvað það varðar á hvaða grunni samninganefndin stóð þegar hún gekk frá sínum samningum þá hafði hún auðvitað beinan aðgang að tölum Seðlabankans og þeim upplýsingum sem voru fyrir mánuði síðan tiltækar um skuldastöðu þjóðarbúsins (Gripið fram í.) sem ég hygg að hafi verið býsna nálægt því sem hér um ræðir.

Mér er það ljóst að auðvitað hafa vakið nokkrar áhyggjur hjá heimsendaspámönnum í röðum þingmanna þær tölur sem Seðlabankinn lagði fram fyrir efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd sem sýna auðvitað svo ekki verður um villst þá trú sem sérfræðingar bankans hafa á vaxtarmöguleikum íslensks atvinnu- og efnahagslífs og þeim (Gripið fram í.) möguleikum sem við höfum til að standa undir skuldbindingum okkar framvegis.

Ég vil hins vegar segja vegna þess sem barst í tal áður um lögfræðiálitið sem kynnt var fyrir okkur í utanríkismálanefnd í síðustu viku að Seðlabankaklúðrið í þessu lögfræðiáliti er auðvitað með miklum ólíkindum. Það að ríkisstjórnin leiti eftir fulltrúa bankans í samninganefndina (Gripið fram í.) og að sá fulltrúi ráðfæri sig ekki við lögfræðinga Seðlabankans sem er á sömu skrifstofu og hann og hann fylgi ekki fram þeim lagaskyldum sem á honum hvíla um það að fara í gegnum lögfræðiþátt málsins með lögfræðingum bankans, er auðvitað (Forseti hringir.) slíkt klúður að það hlýtur að vekja verulegar efasemdir um faglega hæfni Seðlabankans í afgreiðslum á þessu máli og ýmsum öðrum. (Gripið fram í.)