137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú eru fyrstu vikurnar liðnar síðan svokallað strandveiðifrumvarp tók gildi og um 400 bátar hafa fengið leyfi og haldið á sjó. Þetta hefur kallað yfir okkur tugi beiðna um aðstoð og hjálp á hafinu við landið, eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið, með miklu og auknu álagi á Vaktstöð siglinga og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og á björgunarbátaflotann í kringum landið. Flest hefur þetta farið vel sem betur fer og er það kannski fyrst og fremst að þakka góðu veðri en eins og alþjóð veit höfum við haft einmuna veðurblíðu á landinu undanfarnar vikur og á hafinu í kringum landið líka.

Það hefur líka komið fram að kvótinn sem er úthlutað og sóknin er þannig að í ólympískum veiðum þar sem kapphlaup er um veiðina þá klárast þetta aflamark fljótt. Þetta eru um 10 tonn í heildina á hvern bát sem ætla má að hefði annars getað veitt um 40–50 tonn. Nú er fram undan nýtt tímabil sem er í ágúst og þá getum við rifjað upp hvernig veður var í ágúst í fyrra. Ef við lendum í því sama núna munu bátar á norðvestursvæðinu ekki geta farið á sjó á Norðurlandinu og Vestfjörðum á meðan bátar á Breiðafirði geta verið að róa sleitulaust og veiða úr sameiginlegum kvóta þessara skipa. Þetta kallar á aukna hættu og aukin útköll og býður heim þeirri hættu að bátar fyrir norðan muni fara að sækja sjó í verri veðrum. Ég vil spyrja hv. varaformann sjávarútvegsnefndar hvort hún hyggist beita sér fyrir breytingum á þessu þar sem þessi augljósa hætta er fyrir hendi alveg sérstaklega á norðvestursvæðinu og hvernig hún hyggist þá bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru.