137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

[13:46]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja athygli á reynslunni sem nú er smátt og smátt að koma í ljós af strandveiðunum. Ég get upplýst þingheim um að það er mikil ánægja með þessar strandveiðar, a.m.k. á því svæði sem ég þekki gerst til, þ.e. á norðvestanverðu landinu. Reynslan af þessu hefur verið góð, menn fiska vel, og það hefur verið eindæma veðurblíða sem hefur um leið ráðið því að það hefur verið mikil sókn á miðin og kannski mun meiri en menn sáu fyrir. Þessi aukna sókn á miðin kallar á eftirlit og það er sjálfgefið mál að ekki er hægt að slá af neinum kröfum hvorki um haffærni skipa né eftirlit með þeim og öryggismál öll sem varða þessar veiðar. Það er náttúrlega sérstakt úrlausnarefni sem fara þarf vel yfir og sérstaklega nú á þessum niðurskurðartímum hver staða Landhelgisgæslunnar er og annarra eftirlitsaðila varðandi þetta.

Að öðru leyti verð ég bara að segja það að mér sýnist reynslan af þessum strandveiðum vera góð. Það kemur reyndar í ljós að mikill hluti heildarmagnsins sem úthlutað var á svæðunum hefur verið veiddur á því svæði sem hér var rætt, þ.e. við norðaustanvert landið, og mér sýnist af þeirri reynslu að full ástæða sé til að huga sérstaklega að svæðaskiptingunni þegar kemur að því að bæta þetta annars ágæta fyrirkomulag sem nú hefur verið komið á með strandveiðunum.