137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

álit Seðlabankans um Icesave o.fl.

[13:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér upp vegna ummæla formanns utanríkismálanefndar sem höfð hafa verið eftir honum úr þessum ræðustól vegna málefna Seðlabankans og þess álits sem hann hefur á lögfræðingum bankans og raunverulega beinist gagnrýnin helst að yfirlögfræðingi bankans. Hann lét hafa eftir sér eftirfarandi sem er á mbl.is í dag, með leyfi forseta:

„Er þetta ekki bara fólk sem er enn þá í vinnu hjá gamla seðlabankastjóranum?“

Hvernig getur hv. þingmaður rætt málin með þessum hætti? Gerir hann sér ekki grein fyrir hvaða ábyrgðarstöðu hann gegnir fyrir Alþingi?

Í leiðinni langar mig til að spyrja hann hvort hann telji að skipun Svavars Gestssonar sem formanns samninganefndar í Icesave-deilunni hafi byggst á faglegu mati á hæfileikum hans til þeirra hluta eða pólitík og mig langar til að hv. þingmaður beri þessi mál örlítið saman.