137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir prýðilega ræðu og yfirgripsmikla þar sem hann fór víða yfir málið og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum og ég þakka fyrir það. Það er tvennt sem ég hefði viljað inna hv. þingmann eftir sem hann kom inn á. Það er í fyrsta lagi þetta með skilyrðin og skilyrta umboðið sem fjallað er um á bls. 14 í nefndaráliti. Þar var þó ein setning í lokin á þeirri efnisgrein sem hann var að vitna í þar sem hann var að tala um grundvallarhagsmunina sem hann las ekki.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.“

Þarna er hugsunin að sjálfsögðu að setja skýran ramma, skýrari ramma utan um umboðið sem stjórnvöld eiga að fá. Þegar við erum búin að lýsa þessum grundvallarhagsmunum megi ekki víkja frá þeim nema Alþingi geri það með umræðu á sínum vettvangi, telur hv. þingmaður ekki að þá sé í raun verið að setja þau skilyrði sem fólust í hugmyndum Framsóknarflokksins frá flokksþingi hans? Það er alla vega minn skilningur að það sé verið að koma mjög til móts við þau orð og sumpart verið að ganga lengra en það skilyrði setur.

Svo er annað, það varðar tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna af því að hv. þingmaður talar um hana, að það eigi að leggja umsókn um aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu, ber þá ekki að skilja það þannig að þingmaðurinn telji að spurningin í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði að vera skilyrt við skilyrði Framsóknarflokksins eins og þau koma fram á flokksþinginu? Eða ætlar hann að láta bara algerlega opið umboð í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að stjórnvöld hafi fullkomlega opið umboð án nokkurra skilyrða eins og Framsóknarflokkurinn hefur lýst þeim í tillögu sinni?