137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann stöðuna? Nú liggja hér fyrir tvær lausnir á þessu máli, annaðhvort verður farið í tvöfalda atkvæðagreiðslu, og mér segir svo hugur að samþykkt yrði að sækja um aðild, þannig að það verður sótt um aðild hvor leiðin sem farin er. Síðan þegar aðildarviðræður liggja fyrir og samningar kemur Evrópusambandið með sitt áróðursveldi, þeir eyða víst meiru í markaðssetningu en Coca Cola á heimsvísu. Það er fjöldi Íslendinga á launum hjá Evrópusambandinu, það er fjöldi Íslendinga sem er að vinna í sambandi við Evrópska efnahagssvæðið að rannsóknarverkefnum og hinu og þessu og þetta fólk er allt á launum hjá Evrópusambandinu. Síðan eru einstaka ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem hafa verið tilnefndir Evrópumenn ársins og það lokkar heilmikið af fínum störfum í Brussel þá sem vinna að framgangi Evrópusambandsins. (Gripið fram í.)

Það hefur sýnt sig t.d. í Noregi að þrátt fyrir þetta allt saman og þrátt fyrir að aðilar vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingin — eins og hér á Íslandi — berjist fyrir því að landið gangi í Evrópusambandið sagði norska þjóðin nei. En hún verður spurð aftur og aftur þangað til hún segir einhvern tíma já. Það hefur reynslan verið í öðrum löndum og það er þetta sem ég vil líka spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann þetta, verðum við ekki hvort sem er komin inn í Evrópusambandið eftir svona 10–20 ár?