137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að því miður virðast stuðningsmenn Evrópuaðildar vera það ákafir að þeir taka ekki nei sem svar og munu reyna aftur eins og við höfum séð í Noregi. Hins vegar vil ég benda á eitt, vegna þess að að mínu mati hefur verið gegndarlaus áróður fyrir því að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins, sérstaklega af tveim stærstu fréttablöðum landsins sem hafa tekið þá opinberu afstöðu að það sé betra að við séum þar innan borðs. Þrátt fyrir þetta er meiri hluti þjóðarinnar andvígur því að ganga inn í Evrópusambandið. Það hafa skoðanakannanir sýnt jafnvel þó að margir spyrji sig þeirrar spurningar: Er ekki hægt á einhvern hátt að kanna hvað er í boði? En þá er um leið verið að blekkja að þetta séu einhvers konar könnunarviðræður sem er ekki raunin. Ég tel að hagsmunum Íslendinga verði alltaf betur borgið utan Evrópusambandsins.

Hvort ég sjái stöðuna þannig í framtíðinni að við munum hrökklast þar inn? Við skulum átta okkur á einu: Evrópusambandið er alltaf til endurskoðunar. Ég held að í ljósi efnahagskreppunnar og í ljósi þess að fjölmörg ríki hafa í meira mæli verið að vernda innlenda framleiðslu burt séð frá reglum Evrópusambandsins gæti það hugsanlega gerst að Evrópusambandið mundi liðast í sundur. Það gæti gerst þannig að við eigum að hafa það líka til hliðsjónar þegar við tökum þessa ákvörðun.

Við vitum að innstæðutryggingarkerfið mun breytast á næstunni í samræmi við túlkun Stefáns Más og Lárusar Blöndals eftir því sem Larosière-skýrslan segir til um þannig að ég sé stöðuna ekki þannig að við munum enda fyrr eða seinna inni í Evrópusambandinu.