137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er margt athyglisvert sem þar kom fram og sömuleiðis í andsvörum. Ég var t.d. alveg búinn að steingleyma þessari línu sem var hjá samfylkingarmönnum um að allt það góða sem gerðist á Íslandi væri EES-samningnum að þakka. En þegar hv. þingmaður fór með þá tölu rifjaðist þetta upp fyrir mér að í rauninni var Samfylkingin algerlega með það svar að þetta væri allt saman Evrópusamstarfinu að þakka og allt saman EES-samningnum að þakka.

Það er auðvitað þannig að það mál sem mér finnst — og ég get ekki séð hvernig nokkrum manni dettur það í hug að tala ekki um það í sömu andrá — Icesave-málið og þessi tillaga, þau tengjast auðvitað mjög mikið því þarna erum við í rauninni að taka yfir innstæðutryggingarkerfi Evrópusambandsins sem okkur var gert að gera. Ég vil spyrja hv. þingmann, og ég verð að viðurkenna að mér finnst ótrúlega skrýtið hvað þetta er lítið í umræðunni, vil spyrja um sjónarmið hans. Ég hef spurt hæstv. forsætisráðherra og ekki fengið nein svör og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson og ekki fengið nein svör, hvernig hv. þingmanni líði með að vera að sækja um aðild að Evrópusambandinu á sama tíma og þeir eru búnir að brjóta okkur eins og raun ber vitni. Er það svo að mönnum finnist þetta bara eðlilegasta mál í heimi? Ég vísa til þess: Hefði það hvarflað að einhverjum þingmanni á Alþingi Íslendinga í landhelgisdeilunni að fara að sækja um aðild að Evrópubandalaginu þá? Hefði það hvarflað að einhverjum? Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta skipta máli, eða finnst honum þetta vera aukaatriði?