137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar spurningar. Nei, að sjálfsögðu er þetta ekki í lagi, langt frá því. Ef stjórnvöld hefðu eitt andartak hagað málefnum varðandi Icesave-samninginn eins og hér var staðið að málum í þorskastríðinu værum við miklu betur sett. Ég held að það sé algerlega staðreynd en því miður og hversu sorglegt sem það er þá er það staðreynd.

Evrópuþjóðir lögðust gegn því, eða eftir því sem mér hefur verið sagt, engin gögn eru til um það reyndar en það er fullyrt að Evrópuþjóðir hafi lagst gegn því að við fengjum lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við yrðum að taka á okkur skuldbindingar samkvæmt innstæðureglugerðinni, samkvæmt þeirra túlkun á innstæðutilskipuninni og höfnuðum því að við gætum farið í málarekstur. Reyndar fannst mér alltaf að Bretar ættu að sækja það mál á okkur af því að það eru þeir sem vilja að við borgum. En þegar þetta mál er skoðað ofan í kjölinn kemur í ljós að Bretar og Hollendingar ætlast ekki bara til þess að við förum eftir tilskipuninni. Þeir ætla að rukka okkur um meira. Þeir ætla að láta okkur borga meira. (PHB: Meira að segja kostnaðinn.) Já, meira að segja kostnaðinn við það að þeir tóku þá ákvörðun að greiða sínum innstæðueigendum langt umfram skyldu, 10 millj. pund í Bretlandi og 7 millj. evrur. (JónG: Bara drífa okkur í Evrópusambandið og þá fáum við styrk.) Bara drífa okkur í Evrópusambandið, þannig að svar mitt er einfaldlega þannig að við getum því miður ekki eins og staðan er og það er mjög óskynsamlegt að fara eins og staðan er og fjölmargir sérfræðingar hafa bent á, fara í aðildarviðræður eins og staðan er núna. Ég vona að ég sé mjög skýr í minni afstöðu.