137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef Evrópuþjóðir hafa beitt okkur nauðung, sem er algerlega bönnuð samkvæmt reglum Evrópusambandsins, þá hefur sambandið í rauninni lýst yfir stríði við okkar þjóð. Hins vegar vil ég að það komi fram að mér hefur verið sagt þetta. Ég er í fjárlaganefnd og ég er að reyna að fá gögn þess efnis að Evrópuþjóðir hafa snúið okkur niður að við fáum ekki lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það eru engin gögn sem liggja fyrir um að við fáum ekki lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það eru engin gögn til um það. Það eru bara fullyrðingar. Reyndar kemur Rozwadowski, talsmaður nefndarinnar, og segir allt annað en þá eru orð hans dregin í efa o.s.frv. (Gripið fram í: Persónuleg skoðun.) Nú er allt í einu allt persónuleg skoðun hjá talsmönnum Seðlabankans. Þetta er að verða eins sorglegt og hugsast getur.

Ég vil segja: Mér þætti fróðlegt að fá að vita eitt. Eins og kom fram hjá Ragnari H. Hall og Eiríki Tómassyni, vita þjóðir Evrópu að það er ekki verið að knýja okkur til að borga samkvæmt tilskipuninni? Það er verið að knýja okkur til að borga meira. Vita Evrópuþjóðir það? Er það þannig að ef þær vissu það, mundu þær samt halda áfram málflutningi sínum? Þá er komið stríð, hv. þingmaður, þá er komið stríð. En ég held að ef við látum þær vita sjái þær kannski að það er verið að brjóta á okkur á allan hátt.