137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við enn á Alþingi að ræða hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Íslenski fáninn blaktir við hún á Alþingishúsinu og er tignarlegur að vanda en það er ekki sama sjón sem við sjáum úti á Austurvelli því þar er baulað og púað og þar er búið að flagga svörtum fánum. Ríkisstjórnin lætur eins og ekkert sé, ríkisstjórnin telur að við séum á réttri leið. Við erum á leiðinni inn í Evrópusambandið að hennar mati.

Það vekur nokkra athygli mína að mælendaskráin hefur styst allverulega frá því í gær þannig að nú virðist vera búið að gefa fyrirskipun í herbúðum a.m.k. Samfylkingarinnar um að þetta mál skuli ekki tafið. Samfylkingarþingmenn hafa tekið sig út af mælendaskrá sem þýðir enn og aftur að þessu máli á að hraða. Það er þetta sem þjóðinni liggur á. Það eru ekki heimilin, það eru ekki fjölskyldurnar í landinu. Það er aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni sem ég flutti á föstudag að dagsetningin 27. júlí er svo mikilvæg að mati þessarar ríkisstjórnar að það virðist allt vera til vinnandi að koma umsókninni inn áður en sá dagur rennur upp en þá rennur sá tími út sem ríki hafa kost á í þessari atrennu að sækja um aðild eða koma umsóknaraðild inn á borð Evrópusambandsins. Það hefur líka verið rætt að það svo sem gerði ekkert til þó málið yrði vandaðra og fengi meiri umfjöllun og yrði betur kynnt í samfélaginu en raun ber vitni en þetta eru áherslur ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það voru Vinstri grænir sem komu Evrópumálunum á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Það hefði engum dottið í hug fyrir einu eða tveimur árum. Meira að segja kjósendum Vinstri grænna kom þetta ekki í hug fyrir kosningar því að Vinstri grænir voru eini flokkurinn sem hafnaði aðild að Evrópusambandinu. Ég þreytist ekki á að minnast á þetta því mér finnst þetta svo mikil svik við kjósendur Vinstri grænna.

Ég hef lagt fram breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir. Mig langar samt aðeins að koma inn á ummæli hv. þm. Péturs Blöndals áðan varðandi hugsanlegt stjórnarskrárbrot Það er að mínu mati stjórnarskrárbrot að fara af stað með þetta mál þegar það er alveg ljóst að ekki er fullveldisafsalsákvæði í stjórnarskránni. Ég fór aðeins yfir þetta líka á föstudaginn. Það virðist ekki skipta ríkisstjórnina neinu máli þó að stjórnarskráin sé brotin í það minnsta og Icesave-samningurinn fellur undir sama stjórnarskrárbrot því þetta … (ÁÞS: En eru tillögur Vigdísar Hauksdóttur ekki stjórnarskrárbrot?) Ég á eftir að koma að því, hv. formaður utanríkismálanefndar, rétt á eftir ef þú vildir kannski vera í salnum og hlusta á mig til að heyra rök mín í þessu máli. Ég óska eftir því alla vega varðandi þessa stjórnarskrárumræðu því að hv. þingmaður hefur blandað sér mjög í þá umræðu. (GÞÞ: Rök hafa aldrei vafist fyrir Árna Þór Sigurðssyni.) En þannig er að Icesave-samningurinn fellur líka undir þetta stjórnarskrárbrot því að þegar þjóð er skuldsett eins og stendur til að gera með Icesave-samningnum þá er það fullveldisafsal í leiðinni. Við erum því að tala um að ríkisstjórnin sé að brjóta í sömu vikunni stjórnarskrána tvisvar. Eins og alþjóð veit á stjórnarskrá hvers ríkis fyrir sig að vernda þegna þess og í þessu tilfelli eru það eðli málsins samkvæmt Íslendingar sem er verið að brjóta réttinn á.

Svo ég svari nú hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni af því að hann var að gera athugasemd við það hvort breytingartillaga mín væri ekki einnig stjórnarskrárbrot: Þetta er mitt neyðarúrræði til þess að bjarga ríkisstjórninni frá því stjórnskipulega slysi sem stefnir í, að við stöndum þá alla vega vörð um það sem skiptir máli í þessu Evrópusambandsaðildarmáli og það er að standa t.d. vörð um auðlindirnar okkar þó ekki væri meira. Ég get glatt hv. þingmann með því að mér barst tölvupóstur í morgun þar sem mér var hreinlega tilkynnt að aðilar væru að fara af stað með málsókn gegn íslenska ríkinu. Þeir gera kröfu til þess að íslenska ríkið verði látið sæta ábyrgð vegna þess að verið er að brjóta stjórnarskrána á þegnum landsins, (Gripið fram í.) þannig að þetta mál er alls ekki búið. (Gripið fram í.)

Nú er gripið hér fram í fyrir mér og mér bent á það að ég verði uppnefnd út af þessu. Ég verð bara að taka því og standast þann þrýsting að fá hótanir. Ég var tekin ærlega á beinið eftir ræðu um síðustu helgi þannig að maður hefur nú sterk bein í þingstörfin, sem betur fer, það er meira en aðrir eða sumir þingmenn alla vega geta sagt, en það er annað mál.

Það sem mig langar aðeins til að nefna, af því að ég er að rifja upp föstudaginn og laugardaginn, það var svolítið merkilegt hverjir voru hér til andsvara fyrir þessa þingsályktunartillögu, þá sérstaklega á laugardaginn. Það var hæstv. utanríkisráðherra, sem var utanríkisráðherra þegar bankarnir féllu. Það var hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem var viðskiptaráðherra þegar bankarnir féllu. Er þetta traustvekjandi? Þetta er ekki traustvekjandi.

Þessi sami utanríkisráðherra á núna að fá óskorað umboð í þessari þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu að fara með málið til Brussel. Ég spurði hann hér í andsvari um daginn hvort hann teldi að hann mundi njóta trausts á alþjóðavettvangi og í Evrópu miðað við þá ábyrgð sem hann ber hér í ríkisstjórninni. Hann kemur alltaf hér í þennan ræðustól og fram fyrir hönd þjóðarinnar sem hvítþveginn engill. Ég kann ekki við þetta, frú forseti. (Gripið fram í.) Ég er að vísa til fyrri starfa hæstv. utanríkisráðherra, herra utanríkisráðherra, í þessari ræðu og það er fínt að þú ert kominn í þingsal til að þú getir hlustað beint á mig og milliliðalaust. (Gripið fram í.)

Eitt af því sem kom einmitt fram í umræðunum um daginn var það að hann er stútfullur af sjálfstrausti og það er gott því að ef hann hefði ekki slíkt sjálfstraust þá hefði hann kannski ekki gefið kost á sér til þingmennsku meira eftir bankahrunið. En hann hefur sjálfstraust. (Forseti hringir.)

(Forseti (SF): Forseti biður hv. þingmenn um að gæta þess að nefna ráðherra með viðeigandi titli.)

Afsakið, sjálfsagt. Ég er svo ósnobbuð að ég gleymi alltaf hvernig á að ræða hér en ég er að reyna (Gripið fram í.) að taka mig á í þessum málum, frú forseti, og ég vona að mér sé fyrirgefið.

Ég var í þeim kafla þar sem við vorum að tala um framboðsmál Samfylkingarinnar þar sem hæstv. utanríkisráðherra hafði það mikið sjálfstraust að honum datt ekki annað í hug en að gefa kost á sér aftur í síðustu kosningum. Jú, vissulega fékk hann fylgi síns flokks. Það fór fram prófkjör að mig minnir en það var nú handraðað upp í fyrstu sætin, traustið var ekki meira en það að fyrstu tvö sætin minnir mig í Reykjavíkurkjördæmunum voru frátekin fyrir þessar drottningar sem nú leiða ríkisstjórnina. (Utanrrh.: Hvernig fékkst þú 1. sætið? Varst þú ekki handvalin af framsóknarmönnum?) Ég fékk 1. sæti, svo við tölum um innanflokksmál Framsóknarflokksins, á þann hátt, hæstv. utanríkisráðherra, að haldið var kjördæmisþing þar sem var gerð tillaga um mig í 1. sæti, og það voru tveir frambjóðendur sem gáfu kost á sér á móti þannig að við vorum þrjú sem kepptum um 1. sætið. Ég gert upplýst það hér og nú ef það hefur farið fram hjá ráðherranum að ég hlaut þar stuðning langt yfir 50% atkvæða. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Nú fer hæstv. utanríkisráðherra með einhverjar dylgjur sem ég átta mig ekki alveg á og er að vísa hér eitthvert út í sal. Ég veit ekki hvað hann er að fara enda á maður ekki að svara svona dylgjum. En þetta pirrar hæstv. utanríkisráðherra, þessi umræða, og ég er svo sem ekkert hissa á því. Við höfum öll samvisku sem betur fer, mismunandi mikla að ég held, en stundum hefur hvarflað að mér að hæstv. utanríkisráðherra hljóti að vanta einhverja smá samvisku. Hæstv. utanríkisráðherra hefur alla vega sýnt litla eftirsjá eftir hrunið og ég minni enn á það að Samfylkingin var hér á vakt þegar bankahrunið varð og ábyrgð hennar er mikil.

Nú ætla ég hér aðeins að reifa þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram. Ég hef farið yfir það að ég tel þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar vera brot á stjórnarskrá. Breytingartillaga mín er viðleitni í þessari atrennu að koma því til leiðar að það stjórnarskrárbrot verði ekki til stórtjóns fyrir þjóðina.

Það er búið að veita hæstv. utanríkisráðherra taumlaust og óbeislað umboð til að fara með þingsályktunina til Brussel. Það er í fjórum línum á bls. 39. Ég tek undir orð Höskuldar Þórhallssonar þegar hann reifaði hér hvernig skilja beri lög og þingsályktanir að þær skuli skýra eftir orðanna hljóðan. Þá koma greinargerðir eða fylgiskjöl ekki til útskýringar með þeim því að það er það sem stendur í lögum og þingsályktunum sem tekur gildi, annað ekki. Það er sá texti sem á reynir, annað ekki.

Þar sem þetta er svo opin tillaga sem kemur frá ríkisstjórninni með stuðningi helmings Vinstri grænna hef ég gert eftirfarandi breytingartillögu sem ég ætla nú að lesa, með leyfi forseta:

Ég legg fram svohljóðandi breytingartillögu við breytingartillögu 249:

„Á eftir orðunum „Alþingi ályktar að“ komi (í stað orðalags í breytingartillögunni): Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá verði fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið verði opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.“

Þá erum við komin að meginþunga þessarar breytingartillögu að það eru þau skilyrði sem ég legg til að komi inn í þingsályktunina og þau eru svohljóðandi:

„a. Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála Evrópusambandsins, verði hluti aðildarsamnings.

b. Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórn verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur Evrópusambandsins um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.

c. Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.

d. Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.

e. Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.

f. Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Seðlabanka Evrópu sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.

g. Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.

h. Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála Evrópusambandsins.“

Svo legg ég til að fyrstu skref að þessu verði:

„Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið.“

Frú forseti. Nú hef ég lagt fram formlega og reifað þessa breytingartillögu mína. Ég tel að þessi leið sé til þess fallin að ná sem víðtækastri og breiðastri sátt á þingi og í þjóðfélaginu öllu. Þingmenn Vinstri grænna hafa lýst því hvað felst í því að geta ekki verið meðflutningsmenn á annarri breytingartillögu sem lögð var fyrir og mér datt ekki í hug að biðja nokkurn þingmann Vinstri grænna að vera á þessari tillögu því að samkvæmt reglum ríkisstjórnarinnar er það bannað og þingmönnum gjarnan hótað. Breytingartillaga mín er mjög í takt við og nánast samhljóða flokksþingsályktun Framsóknarflokksins og ég trúi því að allir þingmenn Framsóknarflokksins geti greitt þessari breytingartillögu atkvæði sitt því að hún er ekki að fara í eins óbeislað valdaafsal og tillaga ríkisstjórnarflokkanna gerir ráð fyrir.

Þetta er þá komið hér fram formlega og hafa margir þingmenn vísað akkúrat í þessa breytingartillögu.

Frú forseti, er klukkan orðin rétt núna?

(Forseti (SF): Já.)

Þakka þér fyrir. Það sem ég ætla þá að eyða síðustu mínútum ræðu minnar í er orku- og auðlindamálakaflinn sem er að finna á bls. 14. Auðlindamál Íslands eru mitt hjartans mál og hef ég bent á það í ræðu og riti hversu mikilvægar auðlindirnar eru fyrir okkur og í raun og veru grundvöllur alls lífs og framtíðar hér á landi. Ég hef sagt opinberlega að jafnvel sé staðsetning landsins okkar stærsta auðlind nú á tímum, enda hefur það komið fram á bloggsíðu þess ágæta Svía sem er nú tekinn við formennsku í Evrópusambandinu — sem allt snýst nú um og er verið að veifa framan í okkur að það skipti einhverju máli að það sé Svíi sem taki við umsókninni okkar. Það eru náttúrlega bara rakin ósannindi því að eins og þeir sem hafa kynnt sér Evrópusambandið vita þá byggist það fyrst og fremst á jafnræði á milli ríkjanna þannig að ég gef ekki mikið fyrir þann klúbb sem beitir sér með þeim hætti að eitt ríki sé tekið fram fyrir önnur. Þetta er því bara eins og málflutningurinn hefur verið í þessu máli, verið að slá ryki í augun á þingmönnum og þjóðinni allri og eins og þetta sé eitthvað sem skiptir máli. — Þessi aðili bloggaði svo á heimasíðu sinni að það væri hagstætt fyrir Evrópusambandið að taka Íslendinga inn sérstaklega út af hagsmunum Evrópusambandsins á norðurslóð. Þar fengum við það beint í andlitið hvers vegna Evrópusambandið hefur áhuga á okkur, en fyrir þessu var ég búin að gera mér grein fyrir löngu.

Í þessu áliti hér, sem er svolítið undarlegt, ætla ég, með leyfi forseta, að lesa upp smátilvitnun:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom ekkert fram sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að ESB hefði áhrif á íslenska hagsmuni á þessum sviðum og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er ekki viðfangsefni ESB heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna þar sem innri markaðslöggjöfin tekur ekki á eignarhaldi. Því er ekki um að ræða yfirþjóðlega eign á auðlindum aðildarríkjanna.“

Nú vill svo til t.d. að sjávarútvegur flokkast sem auðlindir og við vitum alveg hvernig sjávarútvegsmálum er háttað í Evrópusambandinu svo nokkur dæmi séu tekin. (Gripið fram í.) Ég á eftir að ræða um sjávarútvegskaflann ef ég hef tíma til, ég get líka komið í andsvar við hv. þingmann í því á eftir.

Svo segir áfram hér, með leyfi forseta:

„Jafnframt minnir meiri hlutinn á að við gerð aðildarsamnings Norðmanna á sínum tíma var sett inn bókun um að þeir héldu yfirráðum yfir öllum sínum auðlindum. Ástæða bókunarinnar var að ESB hefur ekki samræmda stefnumótun, hvorki að því er varðar eignarhald né nýtingu þeirra auðlinda er hér um ræðir, svo sem áður greinir.“

Vegna þessa legg ég fram breytingartillögu við þingsályktunartillöguna svo að þetta sé tryggt ákvæði strax í tillögunni sjálfri en ekki einhverjir hliðarkaflar og með skírskotun til annarra landa og með skírskotun til þess að þetta þurfi að koma seinna. Framkvæmdastjóri ESB hefur sagt að þeir séu að sækjast eftir auðlindum okkar. Þess vegna verður að ganga frá því skýrt inn í þingsályktunartillöguna sjálfa að við stöndum vörð um auðlindirnar okkar og látum þær aldrei af hendi, aldrei af hendi. Sama hvað Samfylkingin vill selja landið oft þvers og kruss, gegnum Icesave-samninginn og nú í gegnum Evrópusambandið, þá ber okkur sem þjóð að standa vörð um auðlindirnar okkar, svo einfalt er það. Það getum við ekki tryggt nema hafa ákvæði um það í þingsályktunartillögunni sjálfri þannig að það sé algjörlega á hreinu.

Svo getum við farið yfir sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin. Ég segi: Sem betur fer komst Samfylkingin ekki í ríkisstjórn fyrr því að eins og flestir vita hafa þeir sífellt talað á móti íslenskum landbúnaði og hafa viljað leggja hann niður og afnema allt regluverk sem snýr að honum. Sem betur fer var íslenskur landbúnaður í landinu þegar bankahrunið varð hér á vakt Samfylkingarinnar. Íslenski landbúnaðurinn var í raun og veru varagjaldeyrisforði okkar Íslendinga. Hugsið ykkur allan gjaldeyrinn sem við hefðum annars þurft að eyða í matvörur og landbúnaðarvörur í hruninu, gjaldeyri sem var ekki til í landinu.

Ég minni að lokum á það, þar sem tími minn er búinn, að það er þrennt sem kemur til með að skorta í heiminum árið 2040. Það er orka, það er kalt vatn og það eru hrein matvæli. Við eigum þetta allt, við höfum þetta allt. Það er út af þessu sem við stöndum í þessari hraðafgreiðslu á þessu máli hér í dag.

Ég óska eftir því, frú forseti, að ég verði sett á mælendaskrá um leið og ég hef lokið máli mínu þannig að ég geti fullnýtt rétt minn til að tala í þessu mikilvæga máli.