137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir erum sammála um margt, þar á meðal það að vera hugsi yfir því hvernig vinstri grænir geta réttlætt málflutning sinn í þessu máli miðað við það hvernig þeir töluðu við kjósendur sína í síðustu kosningabaráttu. Jafnframt erum við sammála um það að auðlindir landsins verða það mikilvægasta sem við eigum í dag og það eru þær sem koma til með að verða sterkasta vopnið okkar í baráttunni við að endurreisa efnahag landsins.

En við erum jafnframt sammála um það að sjálfstraust hæstv. utanríkisráðherra er mikið. Ég vil vekja athygli á því, frú forseti, að það skýtur hálfskökku við að ráðherra í ríkisstjórn Íslands grípi svo mikið fram í í salnum að varla sé hægt að hlusta á það sem ræðumaður hefur að segja í stólnum. Ég tel rétt að hæstv. utanríkisráðherra tali minna og hlusti meira, enda hefur hann fulla þörf á því að endurskoða aðeins hug sinn í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í ljósi breytingartillögu hennar sem fjallar um að íslenska þjóðin skuli taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram? Á hún að vera ráðgefandi skoðanakönnun líkt og tillaga ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir eða er verið að tala um raunverulega þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi, þar sem þjóðin hefur í rauninni eitthvert vald og þar sem þjóðin hefur eitthvað að segja og þar sem niðurstaðan er bindandi? Ég vil vekja í því sambandi athygli á seinni hluta breytingartillögu þeirra hv. þm. Bjarna Benediktssonar og Þorgerður K. Gunnarsdóttur sem lögð hefur verið fram í þessu máli þar sem lagt er til, með leyfi forseta:

„Náist aðildarsamningur milli Íslands og Evrópusambandsins skal ríkisstjórnin þegar í stað ráðast í að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá, og eftir atvikum öðrum lögum, sem af aðild leiðir.“

Mig langar að heyra afstöðu hv. þingmanns til þessa.