137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar enn á ný. Að mínu mati er greinileg tenging á milli Icesave-skuldbindinganna og umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Það segir okkur upphaf Icesave-málsins þegar þá starfandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, raunverulega fer fyrir því, fer fyrir flokki manna og segir: Við tökum á okkur allar þessar skuldir. Það er alveg vitað hvar hjarta Samfylkingarinnar liggur í þessu máli. Þeir hafa eitt mál á stefnuskránni og það er að ganga inn í ESB. Það kemst ekkert annað að hjá þeim í rökræðum eða ræðum en að lausnin við öllum vandamálum sé innganga í Evrópusambandið. Ég hef sagt það áður að náist þessi innganga í Evrópusambandið ekki hjá þeim í þessari tilraun þá geta þeir eins lagt sjálfa sig niður því í raun og veru er þetta eina stefnumál þeirra. Það er alveg greinilegt að linkind Íslendinga þegar Bretar settu á okkur hryðjuverkalög undir utanríkisforustu Samfylkingarinnar var með þeim hætti að ekki mátti styggja Bretana. Þá vorum við kúguð. Við vorum beitt hryðjuverkalögum, það var farið með okkur eins og hryðjuverkamenn. Þetta er eitthvað sem ég á erfitt með að fyrirgefa og get aldrei gleymt en þarna sýndi Samfylkingin fyrir hverja hún er að vinna og fyrir hverja hún er að vinna hér á landi. Hún er ekki að vinna fyrir íslensku þjóðina. Það er eitt sem víst er.

Hv. þingmaður spurði mig líka hvort ég kæmi til með að greiða atkvæði með breytingartillögu hv. þingmanna Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar K. Gunnarsdóttur. Ég kem fyrst og fremst til með að greiða atkvæði með minni eigin tillögu og vonast að ég fái þar þingstyrk bæði þingmanna Vinstri grænna og Borgarahreyfingarinnar og Samfylkingarinnar og ekki síst sjálfstæðismanna. Ég ætla að vona að þingið beri gæfu til að bera mína tillögu fyrst upp, sé til hvernig sú atkvæðagreiðsla fer. Verði hún felld verð ég að gera upp hug minn og meta þær aðstæður sem eru þá komnar upp, hvort ég þurfi að velja um að greiða atkvæði með tillögunum eða á móti þeim báðum. Ég get ekki svarað þessu fyrr en ég veit hvernig þetta mál fer.