137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta að í kaflanum um orku- og auðlindamál segir í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að Ísland geri fyllilega skýrt við samningaviðræður að ekki komi til greina að sáttmálar ESB mæli fyrir um eignarhald á þeim auðlindum sem hér um ræðir eða nýtingu þeirra …“ Og áfram: „Allar bollaleggingar um sameiginlega nýtingu eða annað slíkt væru óásættanlegar fyrir Ísland.“

Þetta finnst mér vera býsna skýrt að orði kveðið og ég vonast til að hv. þingmenn séu læsir á þennan texta eins og hann stendur hér.

Síðan ætla ég að segja aðeins um stjórnarskipunarmálin. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kemur og heldur því fram að það sé stjórnarskrárbrot að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nú verð ég að segja að mér er nokkur vorkunn þegar þetta er borið fram. Annars vegar stendur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og heldur þessu fram. Á hina hliðina hefur hv. utanríkismálanefnd fengið til sín fimm sérfróða menn í stjórnskipunar- og þjóðarétti sem hafa fjallað um þetta mál og enginn þeirra heldur því fram að það sé stjórnarskrárbrot að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það má lesa út úr áliti Bjargar Thorarensen, prófessors við Háskóla Íslands, og Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Evrópudómstólinn í Strassborg.

Virðulegur forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er manna fróðust í stjórnskipunarrétti hér á landi þannig að það er nokkur vandi þegar hv. utanríkismálanefnd hefur fengið fimm sérfróða menn í þessu efni og þeir hafa aðra skoðun á þessu máli heldur en hv. þingmaður. Ég ætla að vonast til þess að hv. þingmaður Vigdís Hauksdóttir virði það við mig að ég ætla að leyfa mér að vera ósammála henni í þessu mati og ég ætla að leyfa mér að taka mark á þeim stjórnskipunarfræðingum sem við höfum leitað til og ég hef ekki heyrt neinn annan en hv. þingmann halda þessu fram. Við getum verið ósammála um þetta en ég kýs í þetta skipti að hlíta ráðgjöf þessara ágætu fræðimanna á þessu sviði frekar en ráðgjöf hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.