137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka fyrst það sem varðar auðlindirnar okkar. Auðvitað er ekki hægt að sjá fram í tímann hvaða auðlindir verða hér næstu 200 árin eins og þingmaðurinn kom inn á, en það er skýrt hverjar þessar nýju auðlindir eru sem hafa komið til hin síðari ár. Ég bendi á skýrslu sem forsætisráðuneytið gaf út að mig minnir árið 2006 þar sem farið er ofan í það hvað eru auðlindir og hvað ekki og hvað flokkast sem auðlindir.

Það er út af þessu sem ég hef í breytingartillögu minni þessa setningu, með leyfi forseta:

„Þá verði fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum.“

Þetta er alveg skýrt og tekið á því að þetta eru auðlindir sem eru til núna og framtíðarauðlindir. Ég hef verið að benda á, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að kannski er lega landsins núna orðin mikilvægasta auðlindin sem við eigum, sérstaklega í ljósi þess sem er að gerast á norðurslóð, norðurpóllinn er að bráðna og hér eru að opnast nýjar siglingaleiðir. Lega landsins á kortinu er kannski okkar dýrmætasta og langverðmætasta auðlind í dag þrátt fyrir allar hinar auðlindirnar.

Ég hef skilgreint núna hina seinni mánuði landbúnað sem mikla auðlind og eftir hrunið má eiginlega segja að íslenskir bændur séu auðlind út af fyrir sig og við þekkjum náttúrlega þessa hefðbundnu skilgreiningu á sjávarútvegi.

Varðandi stjórnarskrárbrot sem ég hef verið að benda á og hv. þingmaður spyr: Hver kærir hvern? Það er þannig í stjórnarskránni að sé talið um stjórnarskrárbrot að ræða þarf að fara í mál við íslenska ríkið. Það eru eingöngu einstaklingar eða lögaðilar, fyrirtæki sem gera það. Lögaðilar hafa verið verndaðir núna í seinni tíð í stjórnarskránni en það eru fyrst og fremst einstaklingar sem fara í mál við íslenska ríkið telji þeir að á þeim sé brotinn stjórnarskrárvarinn réttur.