137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hugleiðingar hans. Ég er ekkert svo viss um það að við þurfum að horfa inn í framtíðina með Evrópusambandið eftir 10–20 ár. Ég hef heyrt hv. þingmann benda á það í ræðum sínum og biðja þingmenn um að útskýra hvernig þeir sjái veru Íslands í Evrópusambandinu eftir 100 ár eða 200 ár. Ég er ekkert svo viss um það að þetta ríkjasamband haldi. Það er nú þegar farið að bresta mjög í stoðunum.

Lissabon-sáttmálinn er þeim erfiður, þegar hefur eitt ríki hafnað honum, það eru Írar. Þá var farið í það á síðasta ráðherrafundi að breyta sáttmálanum og veita Írum þrjár undanþágur og ber þar hæst ákvæðið um fóstureyðingar. Það er því alveg greinilegt hvað þeir eru að gera. Þeir ætla að ná Lissabon-sáttmálanum í gegn en hann er ígildi stjórnarskrár.

Evrópusambandið er auðlindasnautt. Þeir eru búnir að þurrka upp öll sín fiskimið og þeir eiga afar fá tækifæri í auðlindum. Iðnríki sambandsins eru á hnjánum þar sem heimskreppan hefur leikið þau grátt. Þannig að þegar harðnar á dalnum er ekki víst að það sé eins gaman að vera í þessum klúbb og látið hefur verið af í góðærinu.

Varðandi stjórnarskrárbrot er það rétt hjá hv. þingmanni að þá er það einstaklingur sem fer þá með kæru fyrir héraðsdóm til að byrja með og þá er það utanríkisráðherra sem er í forsvari fyrir ríkið. Það hafa fallið hér mál, ég nefni sem dæmi öryrkjadóminn og kvótadóminn sem hv. þingmaður talaði um á föstudaginn. Það hafa fallið dómar um brot á stjórnarskránni og þá hefur lögunum verið breytt í kjölfarið.

Úr því að við erum að tala um þessa dómstólaleið er ég hálfhugsandi yfir hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu mundi taka á þessu máli ef því yrði vísað þangað. Það skapar nýjar spurningar um réttaróvissu hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu mundi taka á máli sem væri vísað til (Forseti hringir.) dómstólsins af íslenskum þegn til að athuga hvort þessi þingsályktunartillaga standist mannréttindi á Íslandi og brot á stjórnarskrá.