137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér í þessari ræðu minni að einbeita mér að einni hlið þessa máls, svona í meginatriðum. Margir virðast byggja málflutning sinn á þeirri skoðun að innganga í Evrópusambandið muni leysa þau vandamál sem við eigum við að stríða vegna krónunnar. Mig langar að gera grein fyrir þeim þætti ESB-aðildar sem lýtur að peningamálastjórninni og færa rök fyrir því að ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Jafnframt ætla ég mér að rekja þau vandamál sem upp hafa komið í kjölfar fjármálakreppunnar svokölluðu og sýna fram á að í sameiginlegri peningamálastefnu felst ekki sú trygging fyrir áföllum sem margir vilja vera láta.

Ég ætla að fara aðeins yfir forsögu þeirrar fjármálakreppu sem við búum nú við. Eftir að krónan var sett á flot árið 2001 og Seðlabanka Íslands var sett verðbólgumarkmið náðist nokkur stöðugleiki á gjaldmiðilinn. Verðbólga var nálægt markmiði og krónan virtist þjóna nokkuð vel hlutverki sínu. Eftir að útlánaþensla hófst í bankakerfinu, sérstaklega í kjölfar breytinga á húsnæðislánamarkaði árið 2004 myndaðist hins vegar undirliggjandi þrýstingur á verðlag. Seðlabankinn gat illa mætt þessum þrýstingi með hefðbundnum peningamálaaðgerðum þar sem fyrirtæki og heimili gátu auðveldlega vikið sér undan aukinni vaxtabyrði með því að taka lán í erlendri mynt. Jafnframt er eðli verðtryggingar með þeim hætti að vaxtahækkanir Seðlabanka hafa lítil áhrif á kostnað við langtímalán þar sem vextir eru í meginatriðum fastir og þar af leiðandi á Seðlabanki erfitt með að stýra hegðun heimila og fyrirtækja þegar um er að ræða verðtryggð lán.

Seðlabankinn brá þá á það ráð að halda niðri innflutningsverðlagi og þar með verðbólgu með því að halda krónunni sterkri. Það var m.a. gert með því að laða að erlenda fjárfesta með háum vöxtum, hvetja til svokallaðra vaxtamunarviðskipta. Í meginatriðum felast vaxtamunarviðskipti í því að erlendir bankar hófu útgáfu skuldabréfa í innlendri mynt sem síðan voru seld til erlendra fjárfesta. Íslensku bankarnir þjónuðu sem milliliðir í þessum viðskiptum og skiptu vaxtamuninum sem ríkti á milli erlendra gjaldmiðla og þess íslenska með erlendum útgefendum. Um leið náðu bankarnir í fjármagn sem þeir síðan lánuðu til íslenskra fyrirtækja og heimila.

Þessi iðja leiddi í sjálfu sér til þenslu. Peningastefnan beit í skottið á sér. Lántaka í erlendri mynt stórjókst og neysla bar öll einkenni þess að heimilin væru haldin gengisglýju. Gengisglýja er það fyrirbæri þegar heimili og fyrirtæki trúa því að þau búi við fast gengi, þ.e. gengið muni ekki veikjast verulega frá því sem er á hverjum tíma. Þessi gengisglýja og þessi trú heimila og fyrirtækja á að gengið muni ekki breytast leiðir til auðsáhrifa. Auðsáhrif lýsa sér í því að heimili og fyrirtæki trúa því að auður þeirra sé meiri en hann er í raun og veru. Það leiðir til meiri neyslu og fjárfestingar en raunhagkerfið ræður í raun við og gefur tilefni til.

Í doktorsverkefni sínu sýnir Jón Helgi Egilsson fram á hvernig efri mörk stýrivaxta ráðast. Sé farið út fyrir þau mörk stuðlar vaxtahækkun að þenslu nákvæmlega eins og ég lýsti hér áðan. Stýrivextir sem víkja umtalsvert frá vöxtum viðskiptalanda hvetja til vaxtamunarviðskipta sem halda genginu sterku, halda innflutningsverðlagi lágu og er þannig fóður fyrir þenslu. Slík stefna er því ekki aðeins bitlaus heldur hefur allt önnur áhrif en ætlast er til.

Íslenski seðlabankinn hefur beitt stýrivöxtum ótæpilega í langan tíma. Hrun krónunnar árið 2001 og 2008 má m.a. rekja til þess að stuðlað var að vaxtamunarviðskiptum þar sem fjármagn flæddi inn í landið og heimili og fyrirtæki skuldsettu sig mjög. Krónan styrktist en að sama skapi varð hún viðkvæmari fyrir áföllum og sveiflur í gjaldmiðlinum voru magnaðar af stórkostlegu inn- og útflæði peninga spákaupmanna sem vildu nýta sér háa vexti en litu um leið fram hjá stöðu raunhagkerfisins, þ.e. sterkt gengi var ekki byggt á sterkum undirstöðum heldur eingöngu á flæði peninga. Krónan féll síðan bæði árið 2001 og 2008 vegna skyndilegra truflana á þessu flæði. Í peningamálahagfræði er það kallað upp á ensku „sudden stop“. Peningar sem höfðu leitað til Íslands vegna hárra vaxta vildu út aftur þegar spákaupmönnum varð hættan ljós og það leiddi til gengishruns.

Vaxtamunarviðskipti eru bein afleiðing hávaxtastefnu og mikils vaxtamunar og eru helsta ástæða falls krónunnar og þar af leiðandi gjaldeyrishaftanna sem við búum við núna. Það er því augljóst að peningastefnan og frammistaða krónunnar verða ekki sundurgreind. Til að styrkja krónuna og nýta til að vinna þjóðina út úr núverandi erfiðleikum verður að endurskoða peningastefnuna og það verður að gera á trúverðugan hátt. Jafnframt verður að beita fjármálastefnunni, þ.e. ríkisfjármálunum, á markvissan hátt til að styðja við peningastefnuna. Þar koma til greina fjármálareglur sem vinna á móti hagsveiflunni líkt og við sjálfstæðismenn röktum ítarlega í efnahagstillögum okkar á dögunum. Því hefur borið nokkuð á því að fólk hefur ruglað saman krónunni og misheppnaðri peningamálastjórn síðustu ára. Bent hefur verið á upptöku nýrrar myntar sem lausn á vandanum og er þá helst horft til evru en það er alls ekki allt sem sýnist í þeim efnum.

Á tíu ára afmæli evrunnar í janúar sl. hafði Evrópski seðlabankinn ástæðu til að fagna því að aðalmarkmiði um verðstöðugleika hefði verið náð í Evrópusambandinu. Verðbólga var að vísu aðeins yfir 3% markmiðinu en sveiflur hafa verið hóflegar eins og stefnt var að. Hins vegar telja ýmsir fullsnemmt að lýsa því yfir að forsendur evrunnar haldi. Í því sambandi er til að mynda athyglisvert að líta til frænda okkar á Írlandi. Ísland og Írland eiga það sameiginlegt að hafa vaxið gríðarlega síðasta áratuginn. Bæði löndin lögðu áherslu á að byggja upp fjármálastarfsemi og laða að erlenda fjárfestingu. Í skemmstu máli var margt líkt með efnahagsþróun landanna með einni mikilvægri undantekningu. Ísland var með sjálfstæða peningamálastefnu og eigin mynt en Írland fylgdi fastgengisstefnu, þ.e. tilheyrði sameiginlegu myntsvæði Evrópu.

Kenneth Rogoff, prófessor við Harvard og fyrrum yfirmaður hagrannsókna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, benti á vormánuðum í Kastljósi ríkissjónvarpsins á að mikilvægan lærdóm megi draga af reynslu landanna tveggja. Ójafnvægið í báðum löndunum byggði upp þenslu sem á Íslandi fékk útrás í að gjaldmiðillinn gaf eftir en á Írlandi er spáð að atvinnuleysi fari í hæstu hæðir, allt að 20% í lok þessa árs. Samkeppnishæfni útflutnings batnaði stórkostlega á Íslandi en læstist inni í fastgengi á Írlandi. Krónan þjónaði sem ventill sem leyfði snögga aðlögun hagkerfisins á Íslandi en þrýstingurinn er enn að byggjast upp á Írlandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú er augljóst að aðlögunin á Íslandi hefur ekki gengið betur en svo að hér er atvinnuleysi komið í sögulegt hámark. Þá er því til að svara að gjaldeyrishöftin sem sett voru í október á síðasta ári hafa að nokkru hamlað aðlögunina. Áhrifin af bankahruninu á raunhagkerfið eru slík að velferðartapið af því að leyfa íslensku hagkerfi að aðlagast óheftu hefði orðið þannig að ekki var hægt að sitja með hendur í skauti.

Martin Feldstein, prófessor við Harvardháskóla í Bandaríkjunum og fyrrverandi formaður efnahagsráðs Bandaríkjaforseta, hefur einnig fjallað um evruna á gagnrýninn hátt. Hann bendir á að ekki hafi þar til nú reynt á nauðsynlega aðlögunarhæfni ríkjanna sem mynda evrópska myntsamstarfið og sveigjanleika þeirra til að bregðast við áföllum á borð við þau sem nú ríða yfir. Yfirstandandi fjármálakreppa leikur evruríkin mjög mismunandi. Tölur um atvinnuleysi og samdrátt í iðnaðarframleiðslu eru ólíkar milli ríkja sem og spár um þróun á næstu missirum.

Þýskaland er þannig með tæplega tvöfalt meiri viðskiptaafgang en Spánn en með öfugum formerkjum. Þessi mjög svo mismunandi staða ríkjanna kallar á mismunandi aðgerðir bæði í ríkis- og peningamálum. Þær eru hins vegar ekki í boði. Evruríkin búa við sameiginlegan gjaldmiðil og þar af leiðandi eina sameiginlega peningastefnu sem tekur mið af meðaltali ríkjanna en ekki aðstæðum í einstökum ríkjum. Þörfin er mismunandi en úrræðið það sama fyrir alla. Staðan núna er þannig að það land sem hvað best er statt hefur einnig mestu völdin í evrusamstarfinu. Þess vegna telur Feldstein að þau ríki sem lenda illa í kreppunni muni gjalda fyrir þetta fyrirkomulag og koma verr út en ef þau hefðu haft sjálfstæða peningamálastefnu líkt og Ísland.

Fyrir umræðuna hér á landi er niðurstaða Feldsteins tvíþætt. Í fyrsta lagi bendir Feldstein á þá einföldu staðreynd að upptaka sameiginlegs gjaldmiðils var af pólitískum toga en ekki hagrænum. Stjórnmálalegur hvati er ekki grundvöllur hagkvæms gjaldmiðilssvæðis og í gjaldmiðilsmálum. Í öðru lagi er það skýr niðurstaða Feldsteins að hagrænir kostir sameiginlegs gjaldmiðils vegi ekki upp ókosti aukins atvinnuleysis og hættu á aukinni verðbólgu. Kostnaðurinn vegna sameiginlegrar myntar fyrir ríki Evrópu sem verða fyrir áföllum með mismunandi hætti er því mikill og hann er raunverulegur. Sameiginleg peningamálastefna getur aldrei orðið besta lausn þessara ríkja. Sveigjanleika er fórnað fyrir hættu á atvinnuleysi og skertri samkeppnisstöðu. Land sem hefur viðskiptahalla sem afleiðingu af skertri samkeppnisstöðu getur ekki unnið sig út úr vandanum með eðlilegri og sjálfvirkri aðlögun gengis. Í því sambandi er athyglisvert að líta til Slóveníu en landið tók upp evru 1. jan. 2007. Um leið og Slóvenía varð aðili að sameiginlegri mynt breytti Moody's lánshæfismatseinkunn landsins. Rökin sem lánshæfismatsfyrirtækið færði fyrir ákvörðun sinni voru þau að sveigjanleiki hefði minnkað sem gæti skert samkeppnishæfni landsins og þar með greiðslugetu þess í framtíðinni.

Sem andsvar við þessum rökum hefur verið bent á sveigjanleika sem nú hefur víða komið í ljós. Launþegar á Íslandi hafa t.d. tekið á sig nafnlaunalækkanir og það sama hefur gerst í Bandaríkjunum. Þetta eru hins vegar viðbrögð sem geta aukið vandann eins og Nóbelsverðlaunahafinn og sósíaldemókratinn Paul Krugman benti nýlega á í New York Times. Að sögn Krugmans er Japan lýsandi dæmi um afleiðingar slíkra viðbragða en þar lækkuðu laun á tímabilinu 1997–2003 sem viðbrögð við efnahagskreppu þar. Það stuðlaði að enn frekari efnahagslegri stöðnun. Lækkunin dró úr heildareftirspurn í hagkerfinu, það dró úr heildareftirspurninni vegna þess einfaldlega að þá var minna til skiptanna hjá heimilum þannig að þau gátu eytt minna og það leiddi til vandamála í Japan sem eru sambærileg við þau sem ég rakti ítarlega í drögum að minnihlutaáliti efnahags- og skattanefndar um bandorminn illræmda á dögunum.

Sá efnahagssamdráttur sem hefur orðið á Grikklandi hefur kallað fram hörð pólitísk átök og óeirðir þar í landi. Að hluta til settu mótmælendur fram algerlega óraunhæfar kröfur um gengisaðlögun til að auka möguleika Grikklands á að vinna sig út úr kreppunni. Að sjálfsögðu varð fátt um svör hjá valdhöfunum, enda hefur Grikkland engin úrræði í peningamálum þar sem landið er ekki með sjálfstæða peningamálastefnu og getur þar af leiðandi ekki breytt gengi gjaldmiðilsins.

Í kjölfar kreppunnar í Finnlandi var það talið mikið hagsmunamál fyrir Finna að taka upp evru. Finnski viðskiptaráðherrann lét hafa það eftir sér nýlega að upptaka evru hefði verið mistök fyrir Finnland. Þeir hefðu orðið undir í samkeppni við Svíþjóð. Vandkvæði vegna óhagstæðs gjaldmiðilssvæðis evrulandanna koma fyrst fram við áföll eins og nú ríða yfir heiminn. Þetta varð fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, Joschka Fischer, tilefni vangaveltna í viðtali á BBC í þættinum Hard Talk fyrr á þessu ári.

Eins og kunnugt er er Joschka Fischer eindrægur ESB-sinni en hann sagði í viðtalinu að í fyrsta skipti teldi hann það nú raunhæfan möguleika að ESB og myntsamstarfið eins og við þekkjum það liðaðist í sundur. Hann benti á að eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkt væri að stórauka miðstýringu og samhæfingu á sem flestum sviðum sambandsins. Fischer hefur síðan ítrekað áhyggjur sínar, m.a. í netútgáfu Telegraph.

Það er eðlilegt að álykta að eftir því sem gallar fastgengis koma fram verði horft enn meira á samhæfingu ríkisfjármála og peningamálastjórnunar á evrusvæðinu sem heildar. Eins og ég mun koma að síðar er það aðeins hægt með því að Evrópusambandið verði sambandsríki líkt og við sjáum í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Spurningin er þá hvort það sé raunhæf sýn, hvort t.d. Lissabon-sáttmálinn gefi tilefni til bjartsýni þar og hvort Íslendingar vilji yfirleitt taka þátt í þeirri tilraun. Það er spurning sem við verðum að spyrja okkur.

Af þessari upptalningu minni má sjá að það eru efasemdaraddir uppi um sameiginlega peningamálastefnu Evrópu. Ég hef ekki vitnað í íslenska Evrópusambandsaðildarandstæðinga heldur hef ég vitnað hér í helstu stuðningsmenn Evrópusambandsins og helstu hagfræðinga heims á sviðinu, hagfræðinga sem hafa stjórnað alþjóðastofnunum, hagfræðinga sem hafa verið Bandaríkjaforsetum helstu ráðgjafar í efnahagsmálum.

Það má einnig velta því fyrir sér hve raunhæft það sé fyrir Ísland að geta tekið upp evruna með stuðningi seðlabanka Evrópu á næstu árum. Eins og kunnugt er þurfa þjóðir sem sækja um aðild að ERM II samstarfinu að uppfylla svokölluð stöðugleikasáttmálaskilyrði í tvö ár áður en þeir fá fulla aðild að myntsamstarfinu, það sem kallað er í daglegu tali Maastricht-skilyrði. Tvö þessara skilyrða er ómögulegt fyrir Ísland að uppfylla á næstu árum, skilyrðið um vergar ríkisskuldir og skilyrðið um takmörk á halla ríkissjóðs. Þrátt fyrir að hreinar skuldir ríkissjóðs verði ekki miklar í evrópsku samhengi eftir þá óáran sem dunið hefur á okkur munu vergar skuldir verða mun hærri en 60% af landsframleiðslu næstu árin en 60%-markið er einmitt eitt Maastricht-skilyrðanna.

Vergar skuldir hér eru taldar vera í kringum 240% og ef mig brestur ekki minni þá eru 4x6=24 þannig að það eru fjórum sinnum Maastricht-skilyrðin. Þetta stafar af gríðarlegum upphæðum sem teknar hafa verið að láni vegna áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vegna mikils ríkissjóðshalla bæði á þessu ári og einhver næstu ár og af Icesave-skuldbindingum. Ekki er hugmyndin að greiða skuldir vegna áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til baka fyrr en á árunum 2012 og 2013. Ef sú verður raunin er sameiginleg mynt ekki í boði fyrr en í allra fyrsta lagi árið 2016 ef Ísland þarf að fylgja sömu skilyrðum og aðrar þjóðir myntsamstarfsins hafa þurft að fylgja og ef allar áætlanir í ríkisfjármálum ganga upp.

Þá er ljóst að ríkissjóðshallinn verður langt yfir 3% af landsframleiðslu á næstu árum en það er annað skilyrðið. Verðbólguskilyrði munum við sennilega uppfylla vegna þess að við sjáum fram á verðhjöðnun í kjölfar mjög minnkandi eftirspurnar í hagkerfinu. Vaxtaskilyrði munum við mjög ósennilega uppfylla vegna þess að hér munu vextir verða mun hærri en í Evrópu m.a. vegna þess að lánshæfismat Íslands er mjög bágborið og verður jafnvel bágbornara ef skrifað verður undir Icesave-skuldbindingarnar. Skilyrði um — ég man ekki fimmta skilyrðið, sleppum því.

Til að gæta allrar sanngirni er þó rétt að geta þess að umræða hefur farið fram um hvort gefa eigi ríkjum Mið- og Austur-Evrópu afslátt frá Maastricht-skilyrðunum vegna fjármálakreppunnar. Það er engin ástæða til þess að ætla annað en að það yrði hugleitt að veita okkur Íslendingum einhvers konar afslátt frá þessum skilyrðum, ég skal ekkert um það segja. Það hefur komið fram að ábyrgð stóru myntsvæðanna — þá er ég fyrst og fremst að tala um evrusvæðið og dollarasvæðið — er mikil gagnvart litlu gjaldmiðlunum vegna þess að stækkun Evrópugjaldmiðilsins hefur í sjálfu sér skapað aukna óvissu fyrir litlu gjaldmiðlana í löndunum í kringum svæðið. Þessi óstöðugleiki hefur komið upp á yfirborðið í yfirstandandi fjármálakreppu. Heyrst hafa raddir um hvort e.t.v. eigi að gefa smámyntunum kost á að komast í skjól stóru seðlabankanna og þær raddir hafa orðið háværari. Hugsanlega gæti sú þróun leitt til þess að Íslandi gæfist kostur á að taka upp evru án þess að uppfylla stöðugleikaskilyrðin að fullu þannig að það mundi ganga tiltölulega greitt fyrir sig að taka upp evruna. En jafnframt hafa heyrst raddir um að smæstu gjaldmiðlarnir í kringum evrusvæðið gætu jafnvel fengið aðild að evrópska myntsamstarfinu án þess að ganga í Evrópusambandið.

Það er grundvallaratriði fyrir þjóð sem vill reka sjálfstæða peningamálastefnu að hún ráði yfir lánveitanda til þrautavara. Það er nú orðið ljóst að vegna stærðar íslenska bankakerfisins brást Seðlabanki Íslands þessu hlutverki sínu. Bankakerfið var margföld landsframleiðslan sem gerði Seðlabanka Íslands ómögulegt að sinna þessu hlutverki.

Margir binda vonir við að með ESB-aðild og þátttöku í sameiginlegri peningamálastefnu muni Ísland eignast þennan lánveitanda til þrautavara, en það er alls ekki víst. Kerfishrunið sem varð á fjármálamörkuðum hefur leitt í ljós að Evrópski seðlabankinn er vanmáttugur lánveitandi til þrautavara. Kerfið er byggt upp þannig að aðildarríkin fjármagna bankana í réttu hlutfalli við efnahagslegt mikilvægi. Þannig er Þýskaland langmikilvægasti bakhjarl Evrópska seðlabankans. Þegar skellur kemur á öll aðildarlöndin kippa bakhjarlarnir að sér höndunum, hvert ríki hugsar fyrst og fremst um sig sjálft og þetta hefur akkúrat orðið reyndin í Evrópu. Þjóðverjar hafa ekki verið tilbúnir til þess að koma bræðrum sínum til hjálpar í þeim mæli sem hefur þurft vegna vandamála heima fyrir. Þetta vandamál mun hins vegar hverfa ef ESB verður að sambandsríki. Þannig er bandaríski seðlabankinn til að mynda mun burðugri en sá evrópski vegna þess að hann hefur öll Bandaríkin á bak við sig sem sjá um hagsmuni alls ríkjasambandsins.

Hvað þá með öryggisnet? Það halda margir því fram að Íslandi hefði verið mun betur borgið innan Evrópu þegar mest reyndi á fjármálakerfið. Þetta mætti til sanns vegar færa ef Ísland hefði verið aðili að evrópska myntsamstarfinu. Evrópusambandið myndar í sjálfu sér ekki það öryggisnet sem margir héldu. Þannig hafa þrjú aðildarríki leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hjálp líkt og Ísland þar sem Evrópa brást þeim. Ungverjaland, Lettland og Rúmenía eru að þessu leyti því ekki betur sett en Ísland þrátt fyrir að vera í ESB.

Írland, sem er það land sem hvað mestur skellur hefur orðið á, hefur hins vegar að nokkru leyti getað treyst á Evrópska seðlabankann í vandræðum sínum. Fjármálakerfi þeirra hefur ekki hrunið líkt og hið íslenska, en eins og ég rakti áðan eru áhrifin á raunhagkerfið þó litlu minni en hér.

Það er hægt að taka önnur dæmi, það er hægt að taka dæmi af landi eins og Austurríki. Austurríki lánaði í kringum 60% af landsframleiðslu sinni inn í Mið-Evrópu og það er ekki útséð hvernig það mun fara, hvort Evrópski seðlabankinn þarf að halda Austurríki uppi. Síðan eigum við eftir að sjá afleiðingarnar af hruninu í baltnesku löndunum, í Svíþjóð o.s.frv.

Það er eitt merkilegt í þessu samhengi sem ég hef rakið hér að sambandsríki, Ungverjaland, Lettland og Rúmenía, hafa ekki getað leitað til Evrópska seðlabankans. Það er merkilegt í ljósi þess að síðasta sumar var útbúin neyðaráætlun í Evrópska seðlabankanum í samvinnu við svissneska seðlabankann um að bjarga svissneska bankanum UBS frá gjaldþroti, ef til þess kæmi, til þess að bjarga Sviss, þ.e. landi sem liggur fyrir utan Evrópusambandið. Af hverju skyldi það hafa verið gert? Það var ekki gert af góðmennsku. Það var einfaldlega gert af því að afleiðingar af hruni UBS hefðu orðið svo miklar fyrir Evrópusambandið að það hefði getað skemmt mikið þar inni. Þeir voru því tilbúnir til að bjarga löndum utan sambandsins af því að það þjónaði þeim en ekki löndum innan sambandsins vegna þess að það þjónaði ekki stóru ríkjunum.

Niðurstaða mín er sú að fjármálakreppan hafi ekki einungis leikið Ísland grátt, hún hefur leitt í ljós galla þess að tilheyra sameiginlegu myntsvæði. Sennilega er með sameiginlega mynt eins og verðbólgumarkmið og fljótandi gengi: Í einhverju sem heitir venjulegt árferði þjónar hún mjög vel markmiði sínu, hvetur til viðskipta og fjármagnsflutninga og annars þess sem við teljum vera kosti sameiginlegrar myntar, en stórir, óvenjulegir skellir eins og kreppa á fjármálamarkaði leiða til erfiðleika sem erfitt er að yfirstíga, erfiðleika sem hugsanlega leiða til meira velferðartaps fyrir aðildarríkin en velferðarábata af sameiginlegri mynt. Það er jafnframt niðurstaða mín að það sé fólginn ábati í því að bíða og sjá hvernig evrusamstarfinu reiðir af áður en ráðist er í það stórvirki að skipta út íslensku krónunni fyrir sameiginlega mynt Evrópu.

Það er því meginniðurstaða mín hérna að krónan og íslensk peningamálastefna muni þjóna okkur best við að reisa Ísland úr öskustónni hvað sem síðar kann að verða. Peningamálastefnuna þarf þó að endurskoða og bæta eins og við sjálfstæðismenn röktum ítarlega í efnahagstillögum okkar. Samantekið er það skoðun mín að það ljós sem sumir eygja í sameiginlegri peningastefnu sé villuljós eins og sakir standa og til þess fallið að trufla þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað á Íslandi.