137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða og mjög ítarlega umfjöllun um peningamálin. Það er gríðarlega mikilvægt að taka þetta upp á þennan hátt hér í þinginu þar sem öll umræða um aðild að Evrópusambandinu undanfarna mánuði hefur í rauninni snúist um gjaldmiðilsmálin. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að fá þessa umfjöllun og þessa málefnalegu umræðu hér inn í dag.

Það er gríðarlega skrýtið að upplifa það hérna í þinginu að sá flokkur sem heitir Samfylkingin, sem hefur það eina mál á stefnuskránni að komast inn í Evrópusambandið, skuli ekki standa fyrir svona málefnalegri umræðu um gjaldmiðilsmálin. Ég vek athygli á því að það er enginn samfylkingarmaður staddur hér í þingsalnum í dag þannig að það er enginn samfylkingarmaður sem hefur meðtekið þennan holla og góða boðskap hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og það væri kannski ástæða til þess að kalla þá hér til eða a.m.k. að senda þeim útskrift af þessari góðu ræðu þingmannsins.

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu þingmannsins að hann gerir ráð fyrir að miðað við bjartsýnustu spár verði hugsanlega hægt að taka hér upp evru með aðild að Evrópusambandi árið 2016, ég vona að ég hafi skilið þingmanninn rétt. Þá er hann sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem hefur jafnframt spáð því að það séu a.m.k. sjö ár en aðrir hafa spáð því að það séu um 10 eða jafnvel 30 ár þangað til við náum þeim áfanga ef draumur Samfylkingarinnar um inngöngu í ESB verði málið.

Þess vegna spyr ég: Það er þá þannig, hv. þingmaður, að það er krónan sem við komum til með að nota hérna næstu árin, er það ekki rétt hjá mér? Er þá ekki við hæfi að fara að tala hana upp en ekki niður?