137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var greinargott svar. Mig langar jafnframt að spyrja þingmanninn og nota seinna andsvar mitt hér til þess: Hver telur þingmaðurinn vera tengsl þessa máls og meðferðar þess hér í þinginu og þess máls sem fjallað er um í fjölmörgum nefndum þingsins og kallað er Icesave-málið? Telur þingmaðurinn að það sé eitthvert samband þarna á milli, eitthvert samhengi? Við lesum það nú í dag í breskum fjölmiðlum að breskir fjölmiðlamenn eru búnir að átta sig á því að það er samhengi þarna á milli og þeir eru búnir að átta sig á því að ef Alþingi Íslendinga tekur þá ákvörðun að fella Icesave-samningana komi það til með að hafa áhrif á það hvaða stuðning við höfum gagnvart því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hvernig sér þingmaðurinn þetta fyrir sér og telur hann að það sé beint samband á þeim mikla flýti sem málið fær hér í þinginu og gríðarlegum áhuga Samfylkingarinnar á að keyra þetta hér í gegn með fulltingi Vinstri grænna — Vinstri grænna af öllum flokkum, sem lýstu því bæði yfir í ræðu og riti margoft fyrir síðustu kosningar að þeir mundu ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu? (VigH: Kosningaloforð.)