137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að tengslin á milli Icesave, aðildar að Evrópusambandinu og samstarfssamnings við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn séu meira í hugum íslenskra þingmanna en í raun og veru.

Ef það væri raunin að það væru þessi sterku tengsl sem margir eða sumir vilja vera láta, að alþjóðastofnanir stjórnuðust af tvíhliða deilum ríkja, þá hefðum við ekki alþjóðastofnanir vegna þess að á hverjum tíma og alltaf eru einhverjar þjóðir að deila sín á milli.

Ég held að stjórnarflokkarnir noti Icesave-málið annars vegar og ESB-málið hins vegar sem grýlu hver á annan til þess að koma sínu máli í gegn.