137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir afar yfirgripsmikla og vandaða ræðu enda er þingmaðurinn sérfræðingur á þessu sviði.

Einu hefur verið haldið mjög fram af þeim sem aðhyllast inngöngu í Evrópusambandið. Eins og þingmaðurinn kom inn á er hér hátt vaxtastig og verðtrygging. Nú ber þannig við að lánasamningur sem er gerður milli aðila, segjum banka og einstaklings, og er með verðtryggingarákvæði kannski út lánstímann, tökum sem dæmi til 40 ára, þau ákvæði gufa ekki upp við það eitt að ganga inn í Evrópusambandið eins og margir hafa gefið í skyn. Á hátíðisdögum er fjallað um það að verðtryggingin íslenska hverfi algjörlega úr öllum lánasamningum göngum við inn í Evrópusambandið. Þetta er einn blekkingaleikurinn í viðbót sem Samfylkingin hefur haldið fram. Það er mjög alvarlegt að halda þessu fram og sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur flutt þingsályktunartillögur og frumvörp hér ár eftir ár um það að afnema verðtrygginguna úr íslensku samfélagi.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann að einu. Nú er nýbúið að undirrita stöðugleikasáttmála milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Annar aðili vinnumarkaðarins, ASÍ, er í raun regnhlífarsamtök fyrir launþega landsins sem í raun og veru ættu að vera að berjast fyrir háum launum og að bæta kjör þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðnum. Finnst þingmanninum ekki alveg hreint með ólíkindum og í raun ótrúlegt að ekki skuli vera ákvæði í þessum stöðugleikasáttmála um að verðtryggingin verði lækkuð í skrefum til frambúðar?