137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er alveg hárrétt að oft er látið eins og verðtryggingin muni hverfa við inngöngu í Evrópusambandið eða við upptöku sameiginlegrar myntar. Það sem við verðum að muna er að í fyrsta lagi eru þessir lánasamningar einkaréttarsamningar og þeim verður ekki hnikað með lögum nema með einhvers konar bótum. Hverjir ættu þá að bæta? Það er þá væntanlega íslenska ríkið sem þyrfti að bera þann kostnað. Ég á ekki von á því að fjármagnseigendur, þ.e. þeir sem eiga þessi verðtryggðu lán, vilji gefa upp að gamni sínu þessa eign sína og þá góðu tryggingu sem verðtryggingin er. Þetta verður því að vera á einhvers konar grundvelli frjálsra samninga og það þarf væntanlega að bæta fjármagnseigendunum það tap sem þeir verða fyrir við að missa þetta góða ákvæði út, þ.e. góða út frá lánardrottnum.

Hvað varðar ákvæði um verðtryggingu í stöðugleikasáttmálanum, ég get verið sammála um að það er skrýtið að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á það í stöðugleikasáttmálanum að reyna að ryðja út verðtryggingu vegna þess að nákvæmlega eins og ég rakti í ræðu minni er hún slæm fyrir heimilin, hún er slæm fyrir fyrirtækin og hún er sérstaklega slæm fyrir peningamálastjórnina vegna þess að hún tekur bitið úr peningamálastjórninni. Ég skal vera sammála henni um að það er skrýtið að hafa ekki lagt meiri áherslu á það.