137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum skýr og greinargóð svör. Það er alltaf gleðilegt þegar þingmenn eru sammála hér á Alþingi. Svo ég staldri aðeins við verðtrygginguna enn á ný, málið er nefnilega þannig vaxið og mig langar til að spyrja hv. þingmann að því: Málið er þannig vaxið að það er ekki bæði sleppt og haldið. Aðilar vinnumarkaðarins vilja losna við verðtrygginguna af lánunum en geta ekki hugsað sér að sleppa verðtryggingunni af lífeyrissjóðsinnstæðum, þannig að þetta mál er komið hér í algjöran hnút.

Því spyr ég hv. þingmann, af því að hann hefur alveg einstaklega mikið vit á efnahagsmálum og er sérlærður í þessum málum. Ef við mundum ganga inn í Evrópusambandið, hvernig sér hann fyrir sér hvernig lífeyrissjóðamál okkar Íslendinga mundu þá fara? Sjóðirnir mundu líklega halda áfram með verðtryggingu eða yrði hún (Forseti hringir.) afnumin eftir aðild? Hvernig (Forseti hringir.) sér hann það fyrir sér, þ.e. ef það yrði eitthvað eftir af lífeyrissjóðunum okkar?