137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Hvað varðar eign lífeyrissjóðanna, það eru lífeyrissjóðirnir sem eiga mest af verðtryggðu skuldbindingunum okkar hvort sem það eru skuldbindingarnar í Íbúðalánasjóði eða önnur lán. Afnám verðtryggingar fyrir lífeyrissjóðina virkar náttúrlega þannig að eign þeirra verður ekki jafntrygg og jafngóð.

Hvað varðar eignir lífeyrissjóðanna vil ég nú trúa því að þær séu nokkuð tryggar þó svo að ég trúi því jafnframt að það eigi eftir að koma fram eitthvert tap. En það er ljóst að lífeyrissjóðirnir, sem eigendur verðtryggðra skuldbindinga, munu væntanlega taka mesta höggið af því þegar breytt verður yfir í evru. Við getum því sagt að talsmenn launþega ættu raunverulega út frá því sjónarmiði að berjast á móti aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.)