137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Jú, þetta er alveg hárrétt og svona af því að þú minntist á Spán er staðan á Spáni þannig núna að þeir eru mjög stórt sparisjóðakerfi. Þetta sparisjóðakerfi fjármagnaði mjög stóran hluta af fasteignabólunni sem var þar og þessu sama sparisjóðakerfi er raunverulega haldið gangandi núna af Evrópska seðlabankanum vegna þess að þeir fá ekki fjármögnun neins staðar líkt og íslenska kerfið fékk hérna á sínum tíma. Þjóðverjar hafa lent í mikilli rimmu í Evrópska seðlabankanum vegna þess að þeir eru helsti bakhjarl Evrópska seðlabankans út af stærð sinni og þeir hafa sem sagt mótmælt því að halda þessu kerfi á Spáni gangandi.

Hvað varðar það að Danmörk og Svíþjóð séu fyrir utan evrusamstarfið, ég held reyndar að það séu mjög mikil mistök fyrir Dani að vera utan þess. Þeir eru sú þjóð sem virðist hvað best ráða við fjármál sín, kannski af slæmri reynslu eða hafa (Forseti hringir.) lært af slæmri reynslu og þeir hafa þurft að borga fyrir það að vera ekki beint inni í Evrópusamstarfinu (Forseti hringir.) með miklum vaxtamun.

Með atvinnuleysið, (Forseti hringir.) ég skal svara því á göngunum, hv. þingmaður.